23.02.1987
Efri deild: 42. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3313 í B-deild Alþingistíðinda. (3002)

359. mál, stofnun hlutafélagsbanka um Útvegsbanka Íslands

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mjög, það er langt liðið á dag. En það kom mér mjög á óvart að heyra hæstv. ráðh. segja það áðan að á milli mín og sín kæmist ekki hnífurinn með það að bæði vildum við helst af öllu að þetta mál væri leyst með því að Búnaðarbanki og Útvegsbanki væru sameinaðir. Hæstv. ráðh. beindi til mín einni spurningu sem ég vil ekki láta hér ósvarað. Hann spurði sem svo: á að knýja fram sameiningu Búnaðarbanka og Útvegsbanka gegn öllu starfsliði Búnaðarbankans? M.ö.o.: það er andstaða í Búnaðarbanka gegn því að bankinn verði sameinaður Útvegsbanka.

Hæstv. ráðh. tók svona til orða. En ég hef samt ekki trú á því að allt starfslið Búnaðarbankans hafi verið spurt. Hér held ég að hæstv. ráðh. hljóti að eiga við afstöðu yfirstjórnar bankans og þá kannske einkum og sér í lagi bankastjóranna (Samgrh.: Starfsmannafélagsins.) og Starfsmannafélagsins. Þá spyr ég á móti: Hver fer með yfirstjórn bankamála hér á landi? Það er vitaskuld Alþingi og ríkisstjórn á hverjum tíma, en ekki starfslið Búnaðarbankans með fullri virðingu fyrir því og að því ólöstuðu. Ég er ekki að mæla með því að ráðherrann beiti því valdi sem hann hefur í sínum höndum án nokkurrar tillitssemi við þá sem í hlut eiga, en ég get heldur ekki mælt með því að lausn þessa máls strandi á vilja starfsliðs Búnaðarbankans. Ég held að það verði að reyna til þrautar að ræða við menn og setja niður þær deilur sem þar kunna að vera og þann ágreining sem greinilega er um þetta mál.