23.02.1987
Neðri deild: 47. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3336 í B-deild Alþingistíðinda. (3018)

119. mál, umferðarlög

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég get tekið undir með hv. 5. þm. Austurl. að ég tel að það sé mjög brýnt að setja ákveðnar reglur um þessi torfærutæki sem nú hafa verið flutt inn í landið. Ástæðan fyrir þeim drætti sem orðið hefur á að slíkar reglur væru settar er sú að þessi umferðarlög hafa verið til meðferðar á Alþingi nú í þrjú ár og ég vænti þess í upphafi að þau yrðu afgreidd miklu fyrr. Þegar það kom í ljós á s.l. vetri að Alþingi mundi ekki afgreiða þau þó þau væru þá búin að liggja fyrir þinginu lengi, þá benti dómsmrn. á að það væru ekki til reglur um þessi torfærutæki sem svo eru nefnd.

Það er sjálfsagt erfitt að taka á þessu máli en engu að síður nauðsynlegt og ég vænti þess að hv. allshn. Nd. athugi vel þau ákvæði sem sett voru inn í frv. í Ed. um þessi tæki. M.a. hefur verið bent á að þessi tæki séu góð t.d. til björgunarstarfa, þau geta komist mikið um og þess vegna sé kannske erfitt að banna slík tæki. En eins og hv. þm. benti á eru það náttúruverndarlögin sem takmarka umferð utan vegar til þess að koma í veg fyrir náttúruspjöll en ekki umferðarlögin, þannig að vissulega þarf þá að vera samræmi í framkvæmd þar á milli.

Ég vonast til þess að fljótlega verði hægt að gefa einhverjar reglur um þetta um leið og þessi lög hafa verið afgreidd, jafnvel þó gildistökutími þeirra hefjist ekki fyrr en í árslok og að hægt sé að gefa þá út einhverjar reglur á grunni hinna gildandi laga þó að það sé að sjálfsögðu erfitt meðan tækin eru ekki beinlínis nefnd þar.