24.02.1987
Sameinað þing: 55. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3369 í B-deild Alþingistíðinda. (3041)

365. mál, vegáætlun 1987-1990

Kolbrún Jónsdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá síðasta ræðumanni er mjög skammt síðan þessari till. til þál. var dreift á Alþingi þannig að skammur tími hefur gefist til að líta yfir það merkilega plagg sem hér er vissulega til umræðu. En það þarf ekki að líta nema á fyrstu síðuna til að sjá ansi merkilega hluti. Það eru, eins og kom einnig fram hjá hv. síðasta ræðumanni, þær tölur, sá mismunur sem er á núgildandi fjárlögum og þeirri draumsýn sem hæstv. ráðh. sér í næstu ríkisstjórn. Ég verð að leyfa mér að segja að með því að líta líka á áætlun um hafnarframkvæmdir og áætlun um flugvelli, sem við vorum að afgreiða á fundi í morgun, er næstu ríkisstjórn ætlað að gera aldeilis töfraverk.

Ég get ekki stillt mig um að nefna hvað er áætlað til framkvæmda í höfnum á árinu 1988, en í ár eru 192,5 millj. til framkvæmda í höfnum. 1988 513,5 millj. Til flugvalla erum við að tala um í kringum 200 millj. til viðbótar við það sem til er á fjárlögum þessa árs og er það þá varlega reiknað miðað við vísitölu. Og hér erum við að tala um í vegáætlun 1380 millj. til viðbótar því sem er á fjárlögum 1987. Ef við tökum líka tillit til þess að þau fjárlög sem gilda fyrir þetta ár eru með 2,4 millj. kr. halla erum við að tala um milli 4 og 5 milljarða á næsta ári svo að við minnumst nú ekki á kosningaloforðin varðandi fæðingarorlof. Ég veit því ekki hversu langan tíma maður á að nota á hv. Alþingi til að fara ítarlega yfir þau plögg sem hér liggja því að staðreyndin segir okkur að það er ekki meint neitt með þessu, þetta er óskhyggja hæstv. ráðh. Hún er góð út af fyrir sig, en hún kemst ekki í framkvæmd nema a.m.k. helmingur af þeim þm. sem nú fylgja ríkisstjórn falli út af þingi og ég held að það sé engin von til þess eða í annan stað að það náist samkomulag hér um einhverja aðra ríkisstjórn. Ég vildi því heyra hjá hæstv. ráðh., ef hann hefði einhverja skýringu á því, hvort hann sæi möguleika á því að þessar vonir hans og óskir eigi eftir að rætast þó það væri ekki nema í einu af þeim málum sem ég hef hér nefnt.

Það er kannske allt í lagi að breyta tölum úr hafnarframkvæmdum, t.d. Blönduóshöfn upp á 90 millj. Ég mundi ekki harma að því væri sleppt, en ég vildi fá skýringar á því hvort það væri einhver von til þess að þetta gæti staðist.

Vissulega er um mjög brýnan málaflokk að ræða og það er sorglegt að framkvæmdir í vegamálum skuli vera komnar niður í 1,5% af þjóðartekjum. Samkvæmt langtímaáætlun ætti þetta að vera 2,4%. Eins og hæstv. ráðh. kom að áðan höfum við allt of háa slysatíðni, við höfum allt of margar slysagildrur í dag. Það er vissulega hægt að réttlæta lántökur til þessara mála. Hryggir mig,að á sama tíma skuli hafður í huga 1 milljarður í Útvegsbanka þegar ekki er til nema 2,1 milljarður í vegaframkvæmdir 1987. Við gætum notað það fjármagn sem hefur farið í margar skyssur undanfarinna ára í að framkvæma heilmikið. Við getum því ekki alltaf lokað okkur inni í því að tala um að fjármagnið sé svo takmarkað. Það þarf að skipta því upp á réttlátari hátt og hafa forgangsröðina mannlegri en nú er og það mætti vissulega margt falla úr fjárlögum þannig að fram gæti gengið sú áætlun sem hér er til umræðu. Ég gæti fyllilega stutt slíkt.

Ef við lítum aðeins aftur á tölurnar 1988 hefur Vegagerðin ekki meiri trú á þessum tölum en svo að hún þorir ekki að skipta nema 62% af heildartölunni svo að það þurfi ekki að fara að klípa af hverri einustu framkvæmd þegar niðurskurðurinn kemur á, sem vissulega er mikil hætta á, þannig að það væri kannske skynsamlegra að halda sig við 1,5% af þjóðartekjum en 2,4% í þessari umfjöllun. En eins og kemur fram í grg. með þáltill. á bls. 19 samsvarar niðurskurðurinn á árinu 1987 30%.

Það kom vissulega margt fram hjá hæstv. ráðh. sem ég get fyllilega tekið undir, en það er sérstaklega eitt atriði sem ég vil nefna varðandi Ólafsfjarðarmúla. Ég tel mjög brýnt að það verði reynt að standa við framkvæmd í Ó-vegum eins og áætlað var. Ég skil vel að hér er um mjög háa upphæð að ræða og það þarf eflaust að taka fé að láni til að geta staðið við slíkar framkvæmdir, en þar er talað um e.t.v. 600 millj. kr. Auðvitað fleygir tækninni svo fram í slíkum framkvæmdum, jarðgangagerð, að hér getur hlaupið á 100 millj. eða svo, 500 eða 600 millj. kr. En til þess að þessu verki verði lokið á 2-3 árum, en það er ekki hentugt að dreifa framkvæmdum á mjög mörg ár, þarf eflaust að koma verulega hærri upphæð en hér kemur fram. Ég vil bara að það komi fram að ég mundi styðja að slíkt yrði gert. Við verðum að líta til þeirra byggðarlaga sem liggja mjög afskekkt. Þeir sem hafa farið fyrir Ólafsfjarðarmúlann í hálku og snjókomu eða bara í rigningu þegar hætta er á skriðuföllum efast ekki um nauðsyn þessara framkvæmda.

Einnig kom fram hjá hæstv. ráðh. að þær merkingar sem hafa verið framkvæmdar á vegum landsins hafa verið mjög til bóta og ég tek virkilega undir það. Það er svolítið annað að aka í myrkri um dimmar þjóðbrautir, malarvegi, þegar vel er merkt. En ég get ekki stillt mig um að nefna Norðurárdalinn því að þar fer ég alloft um. Mér finnst það alltaf jafnhvimleitt þegar maður kemur eftir góðum vegi og er svo allt í einu kominn 30 ár aftur í tímann. Ef maður er eitthvað annað að hugsa og keyrir kannske heldur greitt má þakka fyrir að fara ekki þarna út af, sem ansi margir hafa lent í. Ég held að þarna verði að bæta úr.

En þá er það líka eitt atriði í viðbót, sem kom einnig fram, að þm. hvers kjördæmis skipta niður fjármagni þegar búið er að deila því út á kjördæmin og þeir hafa ansi mikið um þetta að segja. Ég verð fyrir mína parta að gagnrýna slíka skiptingu. Við erum með fagmenn í vegagerð og við verðum að treysta þeirra niðurstöðum, við eigum ekki að vera að skipta þessu niður á kafla hér og þar og reyna að hafa vit fyrir þeim. Vissulega óska allir eftir að vegurinn verði fyrst bættur heima hjá sér. En við verðum að líta á faglegu sjónarmiðin og það væri líka hagkvæmara varðandi útboð ef ekki væri verið að skipta stundum niður í 2-3 km kafla hér og hvar um kjördæmin. Hvort sem það er Vegagerðin sjálf sem gerir tillögur um úrbætur í Norðurárdal eða þm. kjördæmisins, það væri svo sem ekki verra, vil ég endilega minna á að það er ekki til sóma að það sé verið að búta of mikið niður verkefni og þá í þágu hvers og eins þm. út af fyrir sig.

Hér hafa einnig verið nefnd útboð og vissulega leiða útboð til lækkunar í stórum verkefnum. En mér þótti merkilegt þegar ráðherra nefndi þá prósentu sem útboðin hafa lækkað um, þau eru metin 66% af áætlun Vegagerðarinnar, en síðan kom + 8% og + 10% þannig að við erum komin upp í 84% af útboðsverki. En það væri gaman að vita hvernig þetta skiptist á verkefnin, hvort það eru stóru verkefnin sem skila sér betur í útboðum eða minni verkefnin. Ég held, án þess að hafa neinar tölulegar staðreyndir um það, að mörgum minni verkefnum væri betur komið með því að semja um þau, en stærri verkefnin væru útboðsverkefni. Ef ráðherra hefði einhver svör við þeirri spurningu minni væri ég þakklát fyrir það, en ég er ekki viss um að svo geti orðið.

Einnig komu merkilegar upplýsingar fram um það hvað sala á bensíni hefði aukist lítið miðað við aukinn umferðarþunga. Ég saknaði eiginlega eins atriðis. Það er að bílar eru sparneytnari en áður var og hvort það sé ekki líka einhver orsök þess. Það er hluti af orsök þess að bensínlítrunum fækkar miðað við umferðarþunga.

Ég get ekki tekið undir að það sé hægt að fjármagna vegaframkvæmdir eingöngu með því að hækka skatta, hvort sem það er á bensíni eða öðru. Við samþykktum þá leiðina í flugmálaáætlun að hækka skatta. Við getum ekki endalaust hækkað skatta til að auka framkvæmdir. Við verðum að skipta fjármagni upp á nýtt og, eins og ég nefndi áðan, raða því í forgangsröð.

Í grg. á bls. 29 kemur fram hvaða fjárframlög eru ætluð til fjallvega. Nú þegar ferðamannastraumurinn hefur aukist eins og hann hefur gert hér á landi og útlit er fyrir að hann aukist enn meir get ég ekki stillt mig um að minnast á að 5-6 millj. til aðalfjallvega og 5-7 millj. til annarra fjallvega eru ekki mjög háar upphæðir miðað við ástand þeirra vega í dag þannig að ég vonast til þess að í meðferð í fjvn. verði þetta skoðað. Auk þess eru sums staðar á landinu vegir sem flokkast undir fjallvegi, t.d. vegir að skíðasvæðum, sem nauðsynlegt væri að veita fé til, en eins og hver maður sér er þetta rúmlega til að merkja betur þá fjallvegi sem fyrir hendi eru án þess að þar væri nokkuð hægt að gera við. Eins og ég sagði áðan eru til annarra fjallvega 5 millj. á árinu 1987, 5 millj. á árunum 1988 og 1989 og 7 millj. á árinu 1990. Svipað er það til aðalfjallvega.

Virðulegi forseti. Ég held að frekari umræðu um þetta mál geymi ég mér þangað til málið kemur til 2. umr. því að eins og ég hef áður sagt var þáltill. dreift hér í gær þannig að það hefur ekki gefist ýkjamikill tími til að fara yfir hana. En ég vonast til þess að ráðherra, ef hann vildi vera svo góður, svari þeim spurningum sem ég beindi til hans. Hann hlýtur að hafa heyrt þær. Ég sé að hann er farinn úr salnum. Ég vonast til þess að hann geti svarað þeim tveim spurningum sem ég beindi til hans.