25.02.1987
Neðri deild: 48. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3525 í B-deild Alþingistíðinda. (3115)

308. mál, jarðræktarlög

Frsm. landbn. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Á þskj. 682 er nál. frá landbn. þar sem sagt er að nefndin hafi rætt um frv. á sínum fundum og leggi fram brtt. á sérstöku þskj. Undir þetta skrifa öll þau sem eiga sæti í landbn.

En brtt. eru í fyrsta lagi við 8. gr. Á eftir fyrri mgr. komi ný mgr. er orðist svo: Þar sem framræsla votlendis getur leitt til þess að land breyti varanlega um svip eða að merkum náttúruminjum verði raskað er skylt að hafa sérstaklega hliðsjón af lögum um náttúruvernd nr. 47 frá 16. apríl 1971.

2. brtt. er við 10. gr. og er í raun og veru ekkert annað en leiðrétting. Það er að á eftir 1.-10. liðar komi: tölulið. Það vantaði inn í frv. eins og það var.

3. brtt. er við 11. gr. Síðari málsl. orðist svo: Þá getur ráðherra að fengnu samþykki stjórnar Búnaðarfélags Íslands, stjórnar Stéttarsambands bænda og stjórnar Stofnlánadeildar landbúnaðarins sett stærðarmörk á framkvæmdir sem framlags geta notið skv. 10. gr.

Þarna er stjórn Stéttarsambands bænda bætt inn í frá því sem var í frv. og orðalagsbreyting svolítil að öðru leyti.