03.03.1987
Sameinað þing: 57. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3610 í B-deild Alþingistíðinda. (3214)

357. mál, íslenskt efni sjónvarpsstöðva í einkaeign

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Á þskj . 640 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. um íslenskt efni sjónvarpsstöðva í einkaeign. Spurningin er tvíþætt:

Í fyrsta lagi. Hyggst menntmrh. beita sér fyrir því að sjónvarpsstöðvum í einkaeign verði gert að flytja íslenskt efni sem ákveðinn hluta af dagskrá sinni?

Í öðru lagi. Að ákveðnu hlutfalli þess fjár sem notað er til dagskrárgerðar eða kaupa á dagskrárefni verði varið til innlendrar dagskrárgerðar í því skyni að standa vörð um íslenska menningu?

Það er ekki að ástæðulausu að hér er spurt. Nýleg könnun á efni þeirra tveggja sjónvarpsstöðva sem senda út hér á landi sýnir að innlent efni nemur rúmum 47% að meðaltali í ríkissjónvarpinu en aðeins tæpum 13,5% af útsendu efni Stöðvar 2. Samanburðurinn á efni sjónvarpsstöðvanna var gerður frá 28. nóv. til 18. des. í vetur. Hæsta hlutfall innlends efnis í ríkissjónvarpinu var 74%, en hæsta hlutfall innlends efnis á Stöð 2 á þessum tíma var aðeins 34%. Lægsta hlutfall innlends efnis reyndist á Stöð 2 hinn 29. nóv. en þá fór það niður í 3,3% á einum degi, en sem kunnugt er er útsendingartími Stöðvar 2 að jafnaði mun lengri en útsendingartími ríkissjónvarpsins.

Í þessari athugun var uppruni erlenda efnisins einnig kannaður og kom í ljós að um 70% af erlendu efni sem ríkissjónvarpið sendi út var engilsaxneskt, þ.e. framleitt í enskumælandi löndum, en 100%, þ.e. allt efnið á Stöð 2, var af þessu sama máls- og menningarsvæði.

Fáir halda því fram að erlend áhrif séu vond í sjálfu sér, en finnst mönnum þetta ekki helst til einhæft? Hvaða áhrif skyldi þetta hafa t.d. á ólæs börn sem horfa mikið á sjónvarp, t.d. á málþroska þeirra og hugsun, þegar þau skilja ekki það sem þau sjá og heyra og verða að treysta á myndirnar einar og túlka boðskapinn út frá þeim?

Í útvarpslögum, nr. 68 frá 1985, segir í 3. gr., með leyfi herra forseta: „Útvarpsstöðvar skulu stuðla að almennri menningarþróun og efla íslenska tungu.“

Ég fæ ekki séð að það sé mjög til eflingar íslenskri tungu og menningu þegar innlent efni fer niður í rúm 3% af útsendri dagskrá.