03.03.1987
Sameinað þing: 58. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3643 í B-deild Alþingistíðinda. (3245)

332. mál, námsbrautir á sviði sjávarútvegs

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög mikilvægu máli. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að skólarnir og skólakerfið í landinu séu algjörlega úr tengslum við höfuðatvinnugrein þjóðarinnar, sjávarútveginn, og í rauninni megi segja að skólakerfið, menntakerfið, hafi sýnt þessari höfuðatvinnugrein ótrúlega lítinn áhuga og eiginlega virðingarleysi. Við höfum allt of ríka tilhneigingu til þess að festast í gamaldags fari bóknáms og gera okkur ekki grein fyrir því hvað það er mikilvægt að atvinnuvegirnir og skólakerfið tengist.

Skólaganga á þessu sviði á auðvitað ekki bara að varða vinnubrögð eða verklag í þessum greinum. Þetta á að vera alvörunám sem vísar til framtíðarinnar og svarar þeim kröfum sem framtíðin mun gera til okkar í þessari grein. Við könnumst við að það er mikið talað um nýsköpun þessa stundina í atvinnulífinu. Ég vil þá benda á að sú nýsköpun gerist ekki fyrst og fremst og á ekki fyrst og fremst að gerast með því að taka upp nýjar atvinnugreinar þó að það geti verið gott og gilt, heldur fyrst og fremst inni í fyrirtækjunum, í þeim greinum sem við höfum þegar. Nýsköpunin er fólgin í því að tileinka sér tölvutækni. Hún er fólgin í því að tileinka sér sjálfvirkni. Hún er fólgin í hagræðingu að því er varðar framleiðsluferli og verklag. Hún getur verið fólgin í vöruþróun. Reyndar eigum við ágæt dæmi um það þegar t. d. líftækni aðstoðaði menn í rauninni við að þróa nýjar afurðir þar sem var annars vegar tandurfiskurinn og hins vegar saltsíld með langtum lægra saltinnihaldi en menn höfðu áður vanist. Vöruþróun af ýmsu tagi verður áreiðanlega mjög mikilvæg fyrir okkur í framtíðinni hér á Íslandi í sjávarútveginum. Og það er markaðsaðlögun. Við höfum haft tilhneigingu til að treysta á hefðbundna markaði, en við þurfum að vera framsækin í þessum efnum.

Þetta eru kröfurnar sem þessi atvinnugrein gerir til fólksins sem á að starfa í greininni. Þetta eru kröfurnar sem við eigum að leitast við að uppfylla í skólakerfinu, ekki bara á háskólastigi, ekki bara í sjómannaskólum eða skólum af því tagi, í sérskólum, heldur í hinu almenna skólakerfi þannig að þeir sem eru í almennu námi hafi tækifæri til að undirbúa sig undir störf af þessu tagi innan greinarinnar. Þetta held ég að sé meginmálið. Þess vegna tek ég heils hugar undir þá till. sem hér er flutt, en hún mætti að mínum dómi vera jafnvel kröfuharðari en hún er. Hér er talað um stutt námskeið. Ég sé þetta ekki fyrir mér með þeim hætti. Ég vil að sjávarútvegurinn njóti langtum meira rýmis innan skólakerfisins en hann gerir núna og ég tel að það sé meginmál til þess að við fáum að njóta afurðanna af tækni og þekkingu í þessari grein með þeim hætti sem okkur er nauðsynlegt og að þannig stöndum við okkur í samkeppninni við aðra og fáum verðmætari vöru, betri vöru og vöru sem aðrir eru reiðubúnir að kaupa dýrara verði en þá vöru sem við seljum miðað við núverandi framleiðsluhætti og að við tileinkum okkur að framleiðsluferlin geti verið með sem hagkvæmustum hætti.

Að endingu, herra forseti, vildi ég aðeins benda á eitt í þessu sambandi. Það er ekki einungis að það sé í gangi mikil umræða um nýsköpun í atvinnulífinu heldur er líka í gangi mikil umræða um byggðastefnu og byggðaþróun. Ég held að aukin áhersla á menntun í þessum greinum, og þá með þeim hætti sem ég er að tala um, geti verið verulegur burðarás í því að halda uppi öflugri byggð víðs vegar um landið. Menn ættu ekki að líta fram hjá því að byggðastefna mótast í mörgum þáttum. Hún mótast ekki bara af peningastreyminu einu saman heldur mótast hún af almennum viðhorfum og átak í þessum efnum í menntakerfinu getur líka orðið og kannske alls ekki síður til þess að treysta byggðina víðs vegar um land, gera hana öflugri og lífvænlegri.

Herra forseti. Ég lýsi yfir stuðningi við þessa till. og legg til að í meðhöndlun í nefnd verði hún enn styrkt og gerð kröfuharðari en hún er af hendi flm.