04.03.1987
Neðri deild: 51. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3734 í B-deild Alþingistíðinda. (3343)

273. mál, uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Út af því sem hér hefur verið sagt um hugsanleg áhrif þessarar breytingar sem mundu geta skapast með þessari tilraun vil ég aðeins vitna til þess sem ég hef áður sagt. Það hafa allir aðilar í sjávarútvegi mælt með því að þessi tilraun sé gerð þó með verulegum fyrirvörum. Ég vil aðeins vitna til þess sem segir í skýrslu nefndarinnar. Þar eru ræddar forsendur um 60 tonna markað eða 100-240 tonna markað, þ.e. markað sem afkastaði á bilinu 60-200 tonn á dag, en þar kemur fram og ég vitna í skýrsluna, með leyfi hæstv. forseta:

„Geta má þess að það er skoðun margra þeirra er nálægt máli þessu hafa komið að ef tilraunin eigi að takast þurfi þegar í upphafi að miða við að umtalsvert magn, eða ca. 200 tonn, fari um markaðinn á degi hverjum. Miðað við 250 rekstrardaga væri slíkt magn um 22% af heildaraflamagni Faxaflóasvæðisins eins og það er skilgreint hér að framan, þ.e. 185 þús. tonn.“

Ég vil leggja á þetta áherslu og einnig er rétt að geta þess að það væri mikilvægt ef markaður sem þessi skapaði mörkuðunum erlendis raunhæfa samkeppni þannig að meira af aflanum yrði eftir í landinu.

Hver áhrifin verða er nánast útilokað að fullyrða nokkuð um nema gera slíka tilraun. Að sjálfsögðu megum við ekki gleyma því að við höfum misst vaxandi magn af óunnum afla úr landi sem hlýtur að teljast óæskilegt. Það hlýtur að vera markmið okkar að vinna sem mest af okkar afla í landinu og koma á því skipulagi sem getur keppt með raunhæfum hætti við markaðsverð þar, því að það mun ávallt verða erfitt að skammta slíkar heimildir til útflutnings á ferskum fiski með slíkum hætti að réttlátt megi teljast.

Að því er varðar fjarskiptamarkað var það eitt af því sem nefndinni var falið að kanna en liggur ekki nægilega vel fyrir. Hins vegar liggur fyrir nefndarálit þeirra varðandi Norðurland. Það er alveg ljóst að slíkir markaðir munu áreiðanlega koma upp í framtíðinni. Einnig verður að geta þess að vaxandi útflutningur með gámum hefur þegar haft áhrif á fiskverð hér á landi, þ.e. að á ýmsum stöðum á landinu hafa verið gerðir samningar sem ganga út á það að ef viðkomandi fiskiskip landar öllum aflanum hjá viðkomandi vinnslustöð er greitt nokkru hærra verð. Það liggur fyrir að verð verðlagsráðs er lágmarksverð og þær hræringar sem eiga sér stað á mörkuðum víðs vegar í Evrópu og hér heima hljóta að hafa áhrif á verðlagninguna hvað svo sem verðlagsráð segir.

Ég ítreka þá skoðun mína að ég tel nauðsynlegt að gera þessa tilraun og frumkvæði um það og beiðni um það hefur komið frá fiskvinnslunni í landinu. Ég vek athygli á því. Beiðnin kemur upprunalega ekki frá sjómönnum og útvegsmönnum heldur frá Sambandi fiskvinnslustöðvanna. Það eru þeir aðilar, sem koma víðs vegar að af landinu úr öllum landshlutum, sem lögðu þessa beiðni fyrst fram og í framhaldi af því fór sjútvrn. að sinna þessu máli.

Út af þeirri fsp. sem kom fram hjá hv. 5. þm. Austurl. hef ég beðið um að þetta mál yrði kannað lagalega. Ég treysti mér ekki til að kveða upp neinn úrskurð þar um á þessu stigi, en ég hef beðið um það í mínu ráðuneyti að þessi mál yrðu sérstaklega könnuð. Ég vil þó í þessu sambandi vitna til 11. gr. laga um fiskveiðar og sjávarútveg frá 1922, nr. 33, en í 11. gr. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Hlutafélög hafa því aðeins rétt til að reka fiskiveiðar og fiskverkun í landhelgi að allt hlutaféð sé eign íslenskra ríkisborgara. Þó mega hlutafélög, er ríkisborgarar annarra ríkja eiga hlut í, reka fiskiveiðar í landhelgi, ef meira en helmingur hlutafjárins er eign íslenskra ríkisborgara, félagið á heimili á Íslandi, stjórn þess skipuð íslenskum ríkisborgurum og sé helmingur þeirra búsettur þar.“

Það er sem sagt í lögunum frá 1922 heimild til þess að erlendir aðilar geti átt hlut í fiskiskipum en ekki í fiskvinnslufyrirtækjum. Mér er ekki kunnugt um nein önnur lög sem ógilda þessi lög með nokkrum hætti og þess vegna hef ég beðið um að þetta verði sérstaklega athugað, en minn skilningur hefur verið sá að þátttaka erlendra aðila í fiskvinnslufyrirtækjum hér á landi sé óheimil samkvæmt þessum lögum.