10.03.1987
Efri deild: 54. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3869 í B-deild Alþingistíðinda. (3532)

397. mál, fangelsi og fangavist

Eiður Guðnason:

Virðulegi forseti. Ekki skal ég andmæla því að margt í því frv. sem er til umræðu horfir sjálfsagt til bóta og sú nefnd sem hér um ræðir hefur sjálfsagt unnið ágætt starf. Mér finnst það hins vegar ekki vinnubrögð til fyrirmyndar þegar frv. eins og þetta um viðkvæman og mikilvægan málaflokk er lagt fram svo seint á þingi og ætlast til að það hljóti afgreiðslu á þeim tveimur vikum eða svo sem eftir eru af þingtímanum. Það hefði, held ég, verið æskilegt að fá meira ráðrúm til að íhuga það og athuga. Ég held nefnilega að þessi mál séu einn af svörtu blettunum á þjóðfélaginu okkar.

Ég hef átt þess kost, að vísu fyrir allmörgum árum, að heimsækja fangelsið að Litla-Hrauni og ég verð að segja það hreint eins og er að ömurlegri stað hef ég aldrei komið á. Sú spenna og það rafmagnaða andrúmsloft og mér liggur við að segja sá fjandskapur sem þar lá í loftinu milli annars vegar fanganna og hins vegar gæslumannanna var hreint með ólíkindum.

Fyrir fáeinum vikum heimsótti ég fangelsið að Kvíabryggju og satt best að segja varð mér orðfall þegar ég sá hvernig var búið að föngum þar. Í fyrsta lagi voru rúmstæðin samanslegin úr kassafjölum með lélegum dýnum og í rauninni engum manni bjóðandi. Í öðru lagi voru rúmfötin hreint ekki heldur neinum manni bjóðandi. Ég held að í þessum efnum höfum við dregist langt aftur úr þeim þjóðum sem við helst miðum okkur við í flestum efnum og ekki fylgst með. Þó að fangar séu eru þeir manneskjur sem eiga sín réttindi líka og kröfur á bærilega mannsæmandi aðbúnaði en á því hefur verið verulegur skortur. Það sá ég mætavel þegar ég heimsótti Kvíabryggju enda þótt andrúmsloft þar væri með allt öðrum hætti en ég upplifði á Litla-Hrauni, með allt, allt öðrum hætti, það legg ég sérstaka áherslu á og hef ég raunar komið þar alloft. En sú aðbúð, sem þeim sem þarna eru dæmdir til vistar var boðið upp á, var engum manni bjóðandi en vonandi stendur það til bóta. Ég held að þetta mál þurfi að athuga vel vegna þess og ég endurtek það að ég held að aðbúnaður fanga í íslensku þjóðfélagi sé einn af svörtustu blettunum. Þetta er mál sem almenningur ekki þekkir og fólk ekki kynnist almennt. Ég held að þarna þurfi að bæta mjög verulega úr og við þurfum að reyna að gera þarna þær umbætur sem nauðsynlegar eru vegna þess að ég hika ekki við að fullyrða að í þessum efnum er aðstaðan allt önnur hér en í þeim löndum sem við helst miðum okkur við.