10.03.1987
Neðri deild: 60. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 3893 í B-deild Alþingistíðinda. (3565)

342. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Ég mun, með leyfi forseta, hafa sama hátt á og fyrri ræðumaður og ræða almennum orðum um þau þrjú mál sem hér eru til umfjöllunar, þ.e. frv. til laga um tekjuskatt og eignarskatt, um staðgreiðslu opinberra gjalda og um gildistökuákvæði staðgreiðslunnar.

Fyrst, herra forseti, er rétt að minna á aðdraganda þessa máls. Þegar hæstv. fjmrh. lagði fram fjárlagafrv. á s.l. hausti var aðeins minnst á staðgreiðsluáform eins og í framhjáhlaupi. Meginmálin þá, sem boðuð voru að því er varðaði skattalagabreytingar, voru meiri háttar breytingar á kerfi óbeinna skatta með upptöku virðisaukaskatts, reyndar áform um olíuskatt. Staðgreiðslan var hins vegar fjarlægari. Nú vill svo til að hæstv. fjmrh. og stjórnarmeirihlutinn hefur fallið frá þessum fyrirhuguðu breytingum. Hins vegar gerðist það í kjarasamningum í desember s.l. að af hálfu aðila vinnumarkaðarins og þó einkum og sér í lagi Alþýðusambands Íslands var óskað eftir því að áformum um staðgreiðslukerfi beinna skatta yrði flýtt.

E.t.v. skýrir þessi aðdragandi að nokkru það tímahrak sem einkennir meðferð þessa máls og þau flausturslegu vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið og nú hafa komið á daginn. Hér er ekki út af fyrir sig við einn eða neinn að sakast að því er varðar undirbúningsvinnu málsins, þeir menn sem hér hafa að unnið hafa vafalaust unnið eins vel og þeir hafa getað á naumum tíma, heldur hitt að hér var ekki með nægilegum fyrirvara stefnt að þessum breytingum. Það kom eins og í framhjáhlaupi og niðurstaðan varð sú að menn lentu í tímahraki með þeim afleiðingum að vinnubrögðin hafa reynst vera flaustursleg.

Ég vil, herra forseti, áður en lengra er haldið vekja athygli á því að í nóvember s.l. var skipaður starfshópur um endurskoðun tekjuskattslaga. Hópnum var falið samkvæmt erindisbréfi að kanna mögulega valkosti og semja rökstuddar tillögur um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt og fékk í því samhengi eftirfarandi erindisbréf:

1. Að koma með tillögur um einföldun skattakerfis, m.a. með afnámi sérstakra frádráttarheimilda manna og lækkun skattþrepa.

2. Að koma með tillögur um skattlagningu á fjármagnstekjur og aðrar eignatekjur og samhengi slíkrar skattlagningar og eignarskatts. Einnig skattlagningu á tekjur í formi hlunninda.

3. Skattlagningu á fyrirtæki m.a. með tilliti til afskriftareglna og þess hvort lækka megi álagningarprósentu en fella niður í staðinn fjárfestingar- og varasjóðstillög.

4. Staðgreiðslu skatta og hvernig hún tengist öðrum breytingum á lögum.

Síðan segir hér, með leyfi forseta: „Áliti starfshópsins er ætlað að verða grundvöllur að frumvarpi um tekju- og eignarskatt sem kynnt yrði ríkisstjórn og stjórnarflokkum með það fyrir augum að leggja það fram á Alþingi þegar eftir jólahlé þingmanna.“ Menn taki eftir: „Þegar eftir jólahlé þingmanna. Gildistaka breytinganna yrði 1988.“

Herra forseti. Með hliðsjón af þessu erindisbréfi er ljóst að þeim áformum sem hér er lýst hefur ekki tekist að koma til skila. Við erum hér aðeins að ræða litinn hluta af þessu máli, þ.e. frv. sem varða þá fyrirkomulagsbreytingu að taka upp staðgreiðslukerfi á innheimtu tekjuskatta, útsvars, beinna skatta, á launþegum. Þær tillögur fela í sér einföldun skattkerfisins og breytingu á þessu fyrirkomulagi sem varðar innheimtukerfið.

Hér er hins vegar hvergi vikið að stærstu, viðamestu, flóknustu og umdeildustu þáttum gildandi skattakerfis. Engar tillögur eru lagðar fram um breytingar á skattlagningu fyrirtækja, aðeins litillega snert á reglum um skattlagningu sjálfstæðra atvinnurekenda og reyndar með mjög ófullnægjandi hætti, og hvað varðar það verkefni að móta reglur um skattlagningu eignatekna, sem er vaxandi hluti tekjumyndunar í landinu eftir upptöku verðtryggingar og raunvaxta, eru þær reglur ekki hér á blaði.

Þetta gefur ástæðu til að minna á að umræðan um þetta mál hefur verið afar villandi. Málið hefur verið blásið út í fjölmiðlum langt umfram það sem tilefni gefst til. Í upphafi var farið digurbarkalegum orðum um stórkostlega byltingu sem fæli í sér skattleysi, sem reyndar olli því að málið var misskilið í stórum stíl með afdrifaríkum hætti, og síðan er talað upphöfnum orðum um stórkostlega réttarbót að því er varðar launþega.

Nú er það staðreynd að launamenn á Íslandi hafa staðgreitt sína skatta með skilum. Veilan í gamla skattakerfinu er ekki sú að launamenn hafi ekki staðið skil á sínum sköttum. Sú staðreynd að þeir hafa staðgreitt skatta sína með viðmiðun við tekjuöflun liðins árs breytir þar litlu um, það er innheimtufyrirkomulag, þannig að hér er verið að ræða um einföldun og nýtt fyrirkomulag á innheimtu sem er minni háttar mál þegar við ræðum um nauðsyn á heildarendurskoðun skattakerfisins. Nauðsyn þess er hins vegar ekki umdeild. Fyrir liggja yfirlýsingar hæstv. forsrh. um það að tekjuöflunarkerfi ríkisins sé í molum. Fyrir liggja yfirlýsingar hæstv. fjmrh. um það að tekjuöflunarkerfi ríkisins sé í brotum. Samt sem áður hefur þessari ríkisstjórn ekki enst líf né heilsa til þess að koma sér upp neinni heildstæðri stefnu í skattamálum né heldur að koma fram með neinar breytingar á þessum höfuðveilum skattakerfisins. Í staðinn er boðið upp á lausn á tiltölulega litlum þætti þessa, sem varðar innheimtufyrirkomulag, en reynt að freista þess á kosningaári að blása þetta út í fjölmiðlum sem stórkostlega réttarbót og miklu meiri breytingu og afdrifaríkari en raun ber vitni.

Þetta skýrir að sjálfsögðu þá staðreynd að vinnubrögðin hafa einkennst af tímahrakinu. Þau eru flaustursleg í meira lagi. Þetta kemur berlega fram af nál. meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed. Það er í raun og veru yfirlýsing um það að úr því sem komið er vilji menn ekki leggja stein í götu þessa máls vegna þess að hér á hinu háa Alþingi virðist ekki vera neinn ágreiningur um þá grundvallarákvörðun að menn sjá kosti staðgreiðslukerfisins og vilja greiða götu þess, en síðan er nál. raunverulega upptalning á fyrirvörum og gagnrýni á vanköntum og yfirlýsing um nauðsyn þess að málið þurfi að taka upp nánast í heild sinni þegar að loknum kosningum. M.ö.o.: það er ekki bara heildarendurskoðun skattakerfisins sem bíður sem forgangsverkefni nýrrar ríkisstjórnar, í raun og veru er meiri hl. fjh.- og viðskn. Ed. að segja: Þetta mál verður að taka upp aftur af nýrri ríkisstjórn að loknum kosningum.

Þetta á við t.d. allar upplýsingar um raunveruleg áhrif á skattbyrði sem af þessari kerfisbreytingu munu hljótast. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja telja menn ekki fært að draga neinar algildar ályktanir af samanburði eldra kerfis og hins nýja og raunverulega bíður endanlegt mat þess eftir endanlegum upplýsingum um tekjubreytingar milli áranna 1987 og 1988. Á það er lögð áhersla að nýta verði þann tíma sem gefst eftir kosningar mjög vel til þess að yfirfara þessi frv. og spretta þeim upp. Ég nefni sem dæmi: Hér er sagt að þrátt fyrir brtt. sem fram hafa komið sé ljóst að á næstu mánuðum verði að athuga ýmsa þætti málsins og leggja fram brtt. á haustþingi ef þurfa þyki. Þau atriði sem stjórnarmeirihlutinn vekur athygli á og telur nauðsynlegt að gefa sérstakan gaum eru t.d. þessi:

1. Það þarf að endurskoða álagningarkerfi frv. með hliðsjón af þeim upplýsingum sem álagning opinberra gjalda á árinu 1987 leiðir í ljós.

2. Það þarf að athuga nánar áhrif þess að afnema skattfrelsi fæðispeningagreiðslna sjómanna á hag þeirra í skattalegu tilliti og hvort eðlilegt sé að gera þar á breytingu.

3. Það er talið nauðsynlegt að kanna sérstaklega ákvæði laganna um húsnæðisbætur og vaxtaafslátt, m.ö.o. um takmörkunargildi þeirrar sex ára reglu um það hversu lengi menn mega samkvæmt eldra kerfinu njóta vaxtaafsláttar. Þetta ákvæði t.d. hefur mjög mikla þýðingu fyrir þann hóp sem hvað harðast hefur orðið úti í húsnæðisfáránleikanum íslenska á undanförnum árum, misgengishópinn svokallaða, eða harmkvælahópinn eftir því hvort menn kjósa heldur. Þetta er mál sem augljóslega þarf að endurskoða betur að mati meiri hl., enda vísa ég til brtt. sem fulltrúi Alþfl. í fjh.- og viðskn. Ed., hv. þm. Stefán Benediktsson, hefur flutt í þessu efni.

5. Athuga þarf nánar hvort taka beri sérstakt tillit til námsmanna sem eru að ljúka námi, en þessi kerfisbreyting er þeim næsta óhallkvæm. Það er ljóst að ef námsmenn eru skattlagðir skv. staðgreiðslukerfi, þ.e. þær tekjur sem þeir afla á tiltölulega skömmum tíma t.d. þremur til þremur og hálfum sumarmánuði, á mánaðarlegum grundvelli á þeirri skattprósentu sem gildir um tekjuöflun þeirra pr. mánuð, þá væri það náttúrlega mjög óhagkvæmt. Hin lausnin, ja, sú lausn sem boðin var, sem er sú að þeir gætu átt inni endurgreiðslur eftir áramótauppgjör, þénast þeim auðvitað illa vegna allra aðstæðna námsmanna. Spurningin er þess vegna sú hvort ekki er unnt að leysa þetta mál með öðrum hætti, að námsmenn, sem stunda nám a.m.k. að lágmarki einhvern tiltekinn tíma ársins, hafi sérstakt skattkort og fái sérstaka skattmeðferð þannig t.d. að persónuafsláttur þeirra nýtist þeim tvöfalt tiltekinn tíma o.s.frv., eins og við gerðum tillögur um.

6. Bent er á af meiri hl. að kanna þurfi hvort leiðrétta beri hlut þeirra sem flytja til landsins árið 1988, þ.e. umþóttunartímamál.

Þessi upptalning sýnir að málið hefur ekki fengið nægilega góða og þinglega meðferð. Þingið er að ljúka störfum, kosningar eru fram undan, málið er lagt fyrir í mörgum frv. með litlum fyrirvara. Upplýsingar eru takmarkaðar um þýðingarmestu áhrifin, þ.e. um tekjudreifingu, um raunverulega skattbyrði, um það með hvaða hætti einstakir hópar skattþegna eftir tekjuupphæð, eftir fjölskyldustærð, koma út úr þessu kerfi. Þannig að menn segja raunverulega: Ja, við verðum að kaupa köttinn í sekknum, við erum fylgjandi þessu af grundvallarástæðum og við rennum blint í sjóinn um margvísleg áhrif þess arna og verðum raunverulega að ætla nýju þingi og nýjum þingmeirihluta að axla ábyrgð af því að leiðrétta það sem aflaga kann að fara. Það er bent á margt sem er vafa undirorpið, margt sem þarf að endurskoða, margt sem er ófullnægjandi. Og þingmeirihlutinn treystir sér ekki til þess jafnvel um þessi atriði að gera brtt. svo fullnægjandi sé á þessu stigi málsins.

Hér er auðvitað komin síðbúin staðfesting á þeim viðvörunarorðum sem við Halldór Ásgrímsson hæstv. sjútvrh. létum á sínum tíma falla um það að málið væri sýnilega í tímahraki og það væri lítil von til þess á þeim tíma sem væri til stefnu að hægt væri að vinna það í gegn með viðunandi hætti. Þó erum við hér bara að tala um minnsta hlutann, þessa formbreytingu á innheimtufyrirkomulagi, en alls ekki um þá veigamiklu þætti í erindisbréfi nefndarinnar sem fjallar um miklu flóknari þætti skattakerfisins og þá þætti skattakerfisins sem einkum og sér í lagi hafa legið undir gagnrýni vegna þess hvernig reglur um skattlagningu fyrirtækja gefa tilefni til skattundandráttar.

Þótt frv. um tekjustofna sveitarfélaga sé hér ekki til umræðu að þessu sinni er rétt að geta þess í leiðinni að það er sama marki brennt að því er þetta varðar sem augljóslega er komið fram af síðbúnum viðtölum við Samband ísl. sveitarfélaga. Þannig er t.d. haft eftir formanni Sambands ísl. sveitarfélaga að sveitarstjórnarmenn séu æfir út af staðgreiðslufrv., þ.e. þessum þætti þess og hér er birt viðtal við formann Sambands ísl. sveitarfélaga í Dagblaðinu í dag undir fyrirsögninni „Ófullnægjandi og fullt af vitleysum“. Reyndar er það haft eftir þm. stjórnarliðsins eftir viðtöl við þá að frv. sé fullt af vitleysum og málsvörnin er einfaldlega sú að tímahrakið sé slíkt að það verði bara að bíða og vona og sjá til hvort ekki vinnist tími til þess að loknum kosningum með nýjum þingmeirihluta að sníða af því vankantana. Reyndar er þar um að ræða meira en tæknilega vankanta því þar gengur frv. þvert á stefnumörkun margra flokka hér á hinu háa Alþingi, sem í umræðum um vandamál landsbyggðarinnar hafa hamrað á nauðsyn á stjórnkerfisbreytingum á landsbyggðinni, nauðsyn á fækkun og stækkun sveitarfélaga, nauðsyn á því að gefa sveitarfélögunum nýja tekjustofna, gefa sveitarfélögunum aukið sjálfræði um tekjustofna, um álagningu og um ákvörðun gjaldskrár þjónustufyrirtækja, m.ö.o. um að renna nýjum stoðum undir fjárhag sveitarfélaga, og gefa þeim aukið sjálfræði um álagninguna í ljósi staðreynda um það hversu mismunandi hag sveitarfélaga er komið, stærð þeirra, fjárhagslegri getu o.s.frv.

Það sem hér hefur verið sagt nægir til þess að staðfesta að umræðan um þessa hluti hefur verið villandi. Nægir að nefna þau fölsku fyrirheit sem gefin voru um skattleysi á umþóttunarskeiðinu. Það vill svo til að tölur liggja fyrir um að launþegar á Íslandi, sem ævinlega hafa staðgreitt sína skatta, afla mjög verulegs hluta af tekjum sínum í formi yfirvinnu, nætur-, helgidagavinnu og eftirvinnu. Þeir eru þess vegna fæstir undir það búnir að auka vinnuframlag sitt svo nokkru nemi. Það gæti hins vegar verið á færi annarra hópa sem ekki hafa verið úti á vinnumarkaðnum. Þannig gæti þetta verið vinnuhvetjandi til skamms tíma á umþóttunarskeiðinu. En hin hliðin á sama málinu, og er ómaksins vert að velta fyrir sér, hin hliðin á sama málinu er auðvitað sú að staðgreiðslukerfi út af fyrir sig gæti við þessar aðstæður á íslenskum vinnumarkaði orðið um það er lýkur vinnuletjandi, þ.e. þegar menn sjá það í hendi sér hversu stór hluti af yfirvinnu er raunverulega skattlagður, þá gæti það orðið eitt með öðru hvatning til manna til þess að draga úr þeirri yfirvinnu. Út af fyrir sig er það æskilegt félagslegt markmið en kallar þá um leið á aðrar breytingar á launakerfi.

Ætli sá ágæti vitmaður og hagfræðingur Benjamín H. J. Eiríksson hafi ekki verið maðurinn sem hitti naglann á höfuðið í þessum dularfullu umræðum um skattleysisárið þegar hann sagði í stuttri blaðagrein að tvennt væri ekki óvissu undirorpið í lífi okkar dauðlegra og breyskra manna og það væri dauðinn og skatturinn.

Hitt er svo annað mál, í framhaldi af því sem ég hef þegar sagt um nauðsyn á heildarendurskoðun á skattakerfinu, sem hér er ekki til umræðu, að það sem kannske vakti mesta athygli þjóðarinnar og er mest lýsandi um skattakerfið af því sem fram hefur komið í opinberum umræðum seinustu mánuðina, var örstutt blaðagrein eftir sjómannsekkju, einstæða útivinnandi móður í verstöð úti á landi, sem birti í þessari grein skrá yfir 12 fiskverkakonur, sumar hverjar einstæðar mæður, í þessu öfluga sjávarútvegsbyggðarlagi, upp úr skattskrá staðarins og sýndi fram á það með tölum að þessar 12 konur greiddu af sínum tekjum 1 millj. kr. í tekjuskatt og ef ég man rétt 740 þús. kr. í útsvar til sveitarfélagsins, á sama tíma og hún birti skrá yfir jafnmargar máttarstoðir síns byggðarlags, þ.e. sjálfstæða atvinnurekendur á staðnum, sem greiddu nokkra tugi þúsunda í tekjuskatt en 340 þús. kr. í útsvar til sveitarfélagsins. Þetta var samkvæmt opinberum tölum skattskrárinnar. Af því skyldum við álykta að málflutningur t.d. margra þm. hér á hinu háa Alþingi, sem tala um launamisrétti sem bitnar á konum, hljóti að vera heimatilbúningur og alrangur þar sem það kemur á daginn að fiskverkakonur, einstæðar mæður, eru reyndar máttarstoðir þjóðfélagsins og halda uppi samneyslunni í sínum byggðarlögum og þjóðfélaginu öllu, og reyndar bera uppi félagslega þjónustu við þá niðursetninga þjóðfélagsins sem í hinu orðinu eru kallaðir máttarstoðir og burðarásar.

Þessi stutta grein segir meira um skattakerfið sem við búum við en öll þau frv. sem við höfum hér til umræðu vegna þess, eins og ég segi, að hér er ekki verið að taka á aðalatriðum, hér er aðeins verið að ræða um fyrirkomulagsbreytingu á innheimtu, sem út af fyrir sig er til bóta, en því miður, miðað við fram komin gögn, kallar á meiri tíma, vandaðri undirbúning og verður þar af leiðandi meginviðfangsefni nýrrar ríkisstjórnar sem liður þá í heildarendurskoðun skattakerfisins- eins og vinna hefði átt þetta verk frá upphafi.

Herra forseti. Á sínum tíma samþykkti Alþingi þáltill. frá þm. Alþfl. sem flutt var að frumkvæði hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur. Till. var um að gera úttekt á umfangi skattsvika á Íslandi. Niðurstaðan var sú að nokkru síðar skilaði nefnd sérfróðra manna álitsgerð um það efni. Þar var farið mjög varlega, svo sem sæmir opinberum embættismönnum, í mat á óvissuþáttum. Samt var komist að þeirri niðurstöðu að skattundandráttur, löglegur og ólöglegur, næmi á því ári rúmlega 6000 millj. kr. en tekjutap ríkissjóðs af þeim sökum væri um 3,5 milljarðar, eitthvað á milli 4 og 5 milljarðar á núvirði. Í þessari skýrslu voru dregnar saman niðurstöður gagnrýninnar á núverandi skattakerfi. Það var tíundað hverjar væru helstu veilurnar og settar fram ótal tillögur um það hvað þyrfti að laga. Út af fyrir sig kom þar ekkert á óvart vegna þess að í raun og veru staðfesti þessi skýrsla þá gagnrýni sem fram hefur komið hér á hinu háa Alþingi í opinberri umræðu á þetta kerfi í langan tíma.

Nefndin sem skýrsluna samdi taldi þó augljóslega meginástæðu skattsvika vera flókið skattkerfi, óþarflega flókið skattkerfi, óljóst réttlæti skattalaga vegna fjölgunar ívilnunarákvæða einstakra hópa, há skatthlutföll sem auka freistingu á skattundandrætti ef fært er, aragrúi undanþága og frádráttarliða á öllum sviðum, bæði að því er varðar beina skatta og óbeina.

Hæstv. fjmrh. lofaði í framhaldi af framlagningu þessarar skýrslu verulegum úrbótum í frumvarpsformi, jafnvel strax á liðnu haustþingi. Ekkert slíkt frv. hefur litið dagsins ljós. Þó líta megi á staðgreiðslu launaskatts sem hluta af einföldun skattkerfis verður það ekki til þess að bæta skattvitund manna ef önnur skattheimta verður ekki lagfærð með sömu markmið í huga. Þess vegna er það að fulltrúi Alþfl. í fjh.- og viðskn. Ed. leggur til, og það er meginatriði málsins, að samþykkt verði nýtt ákvæði til bráðabirgða sem skuldbindi stjórnvöld til þess að undirbúa samræmda heildarlöggjöf um skattheimtu fyrir næstu áramót og bæta tekjumöguleika ríkissjóðs á næsta ári með hertu skatteftirliti.

Þegar hv. þm. eru í þeim sporum að þeir standa frammi fyrir því að taka afstöðu til frv., sem þeir eru af grundvallarástæðum sammála en sjá á marga vankanta, ágalla og óvissuþætti, þá þyrfti það helst að vera svo að Alþingi léti sér ekki nægja að taka afstöðu til þessa eina máls heldur samþykkti bindandi stefnuyfirlýsingu og verkstjórnarfyrirmæli til framkvæmdarvaldsins um það að tíminn fram að næstu áramótum skuli vera notaður til þess að framfylgja upphaflegu erindisbréfi nefndarinnar, sem ég kynnti í upphafi, um það að taka á því sem eru aðalatriði málsins, nefnilega endurskoðun á gildandi skattalögum að því er varðar fyrirtæki, færa þau til sömu áttar, þ.e. í átt til brúttóskattlagningar með því að fella niður undanþágur og frávik, sem raunverulega eru samkvæmt reynslunni smugur til skattundandráttar, og um leið að taka á spurningum sem hafa vaxandi þýðingu um skattalega meðferð eignatekna.

Það er sérstök ástæða til þess að telja upp í framhaldi af því sem hér er sagt hvað það er sem við jafnaðarmenn teljum að ættu að vera aðalatriði í slíkri verklýsingu við heildarendurskoðun skattalaga. Meginatriðin að okkar mati eiga að vera þessi:

Í fyrsta lagi: Fækkun skatta og einföldun þeirra sem eftir verða.

Í annan stað: Fækkun frádráttarliða, undanþága og sérreglna við skattlagningu, bæði hjá einstaklingum og fyrirtækjum.

Í þriðja lagi: Lækkun skatthlutfalla, sérstaklega jaðarskatts á launatekjur. Í því efni er rétt að minna á að sá hluti launþega, sem vinnur langan vinnudag þar sem fyrirvinnur fjölskyldu eru fleiri en ein og afla hárra tekna, tiltölulega hárra tekna sem að vísu eru í reynd ekkert nema liðlega meðaltekjur, lendir iðulega í hæsta skattþrepi. Fyrir þorra skattgreiðenda verði skatthlutfallið í sameinuðum tekjuskatti einstaklinga aðeins eitt, persónuafsláttur og barnabætur verði hækkaðar og þar með skattfrelsismörk.

Fjórða atriði: Raunverulegar tekjur af eignum, sem eru umfram venjulegar eignir almennings, verði skattlagðar eins og tekjur af atvinnu að undangenginni ítarlegri athugun. M.a. verði kannað hvort setja eigi sérstakt skattþrep á hæstu tekjur í þessu sambandi.

Fimmta: Skattlagning atvinnurekstrar verði endurskoðuð þannig að atvinnurekendur og fyrirtæki beri meiri og jafnari skatta en nú er. Heimildir til að draga frá tekjum fyrirtækja varasjóðs- og fjárfestingartillög, niðurfærslu vörubirgða og útistandandi skulda verði felldar niður um leið og skatthlutföll lækki.

Launaskattur og tryggingariðgjöld atvinnurekenda verði einfölduð og samræmd og leggist eins á allar atvinnugreinar. Það er ástæða til að vekja athygli á því í þeirri umræðu sem nú fer fram um góðæri á liðnu ári og líðandi ári að fyrirtæki á Íslandi hafa sem betur fer notið þess verulega og nutu þess á síðasta ári. Þess vegna eru það tölur sem stinga í stúf við réttarvitund fólks að aðeins lítill hluti fyrirtækja, í mörgum tilvikum vel stæðra fyrirtækja með góðan hag, greiðir nokkurn tekjuskatt, og sama máli gegnir um sjálfstæða atvinnurekendur.

Sjöunda atriði þessarar heildarendurskoðunar á skattakerfinu ætti að vera endurskipulagning á núverandi söluskattskerfi. Annaðhvort á hún að vera í formi endurskipulagningar á núverandi kerfi, sem kallar þá á verulegar endurgreiðslur vegna uppsöfnunaráhrifa söluskattsins, eða með upptöku virðisaukaskatts sem ætti að vera því sem næst án undantekninga en með mun lægri skattprósentu en núverandi söluskattur.

Áttunda atriðið væri aðflutnings- og vörugjöld. Þau yrðu samræmd og einfölduð. Sama máli ætti að gegna um bifreiðaskatta. Og það væri athugandi út af fyrir sig að bifreiðaeign yrði, í stað þess að vera tekjustofn ríkisins, tekjustofn sveitarfélaga sem bera af þeim veruleg útgjöld.

Tíunda atriðið varðar tekjustofna sveitarfélaga. Þá þarf að endurskoða í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga með það að leiðarljósi að auka fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaganna og gera skiptingu tekjustofna og verkefna milli þeirra og ríkisins skýrari. Mismuninn milli atvinnugreina sem felst í aðstöðugjöldum ætti að afnema.

Ellefta atriðið: Skattsvikaleiðum verði lokað með hertum reglum og bættri framkvæmd. Skatteftirlit og leiðbeiningar af hálfu skattyfirvalda verði aukið.

Að því er varðar staðgreiðsluna er okkar niðurstaða sú, eins og löngum hefur legið ljóst fyrir, að við munum styðja upptöku staðgreiðslukerfisins í trausti þess að það verði fyrsta skrefið á lengri leið í átt til heildarendurskoðunar skattakerfisins. En þær athugasemdir og þær aðfinnslur sem við setjum einkum fram varðandi staðgreiðslukerfið eða upptöku þess eru þessar:

1. Við viljum að skattar á launamönnum lækki um leið og staðgreiðsla verður tekin upp og sú einföldun gerð á skattheimtu sem frv. fela í sér. Við viljum fá í hendur fullnægjandi grg. sem sýni ótvírætt fram á að beinir skattar launafólks lækki árið 1988. Það þarf að koma fram áður en málið er afgreitt nú.

2. Við teljum æskilegt að skattafsláttur færist ef ekki að fullu þá a.m.k. eins og hér er sagt, 80%, á milli hjóna, við teljum það réttlætismál.

3. Skattlagning fyrirtækja og atvinnurekenda verði endurskoðuð og hlutur þeirra í skattheimtunni aukinn. Atvinnurekendur verði ekki betur settir en launamenn gagnvart staðgreiðslukerfi.

4. Húsnæðisbætur og sjómannaafsláttur verði ákveðin þannig að í heild sé ekki tekið minna tillit til sérstakra aðstæðna húskaupenda og sjómanna en gert er í gamla kerfinu.

6. Tekið verði sérstakt tillit til aðstæðna námsmanna sem eru að hefja störf að loknu námi eins og við höfum reyndar þegar gert till. um.

7. Breyting á álagningu og innheimtu útsvars samhliða upptöku staðgreiðslu verði ekki til þess að skerða fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga eða öryggi í innheimtu.

8. Því verði lýst yfir, eins og ég vék að áðan, að stóráfangi í áttina að því marki að afnema tekjuskatt til ríkisins af almennum launatekjum verði ákveðinn þegar virðisaukaskattur verður tekinn upp.

Herra forseti. Ég vil að lokum vekja athygli á því að í því sem ég hef nú sagt koma fram mörg svipuð sjónarmið og fram koma á þskj. 773, sem er nál. 2. minni hl. Ed. um tekjuskatt og eignarskatt og undirritað er af hv. þm. Ragnari Arnalds. Við teljum það koma til álita þó að þessi mál verði ekki afgreidd til fullnustu, þau koma jú ekki til framkvæmda fyrr en um áramót, og það er ljóst að hvað svo sem líður. . . (Gripið fram í.) Kjarni málsins er sá að það er fyrirsjáanlegt að málin fara hér trúlega í gegn með öllum þeim vanköntum og missmíðum sem við höfum hér tíundað. Eftir stendur að það verður verkefni nýrrar ríkisstjórnar á þeim tíma sem liður áður en til framkvæmda kemur um næstu áramót að taka þessi mál til endurskoðunar.

Í raun og veru segjum við: Það kemur til álita að taka upp annað skattþrep, það kemur til álita, við höfum ekki gert upp hug okkar um það. En hitt er augljóst að um leið og gerðar yrðu nauðsynlegar og aðkallandi breytingar á núverandi gildi óbeinna skatta, þ.e. söluskattskerfinu, þarf að stíga stórt skref í þá átt að auka skattfrelsismörk í tekjuskatti. Það er naumast unnt að gera á þessum tíma vegna þess ósköp einfaldlega að það liggur ljóst fyrir að það er enginn vilji fyrir því og enginn tími til þess að koma í gegn svo viðamikilli breytingu. M.ö.o. þær tillögur sem Alþb. leggur hér til munu ekki komast í framkvæmd að því er varðar að afla í staðinn nýrra tekna frá fyrirtækjum til þess að bæta upp þann tekjumissi sem ríkið yrði fyrir við það að hækka skattfrelsismörkin að þessu sinni.

Í ljósi þessa finnst mér skynsamleg sú tillaga sem fram kom í máli hv. 3. þm. Reykv. að skipuð verði milliþinganefnd til þess að fylgja eftir þeirri heimavinnu sem vinna verður sýnilega áfram í þessu máli. Það væri í raun og veru prófsteinn á það hvort Alþingi vill tryggja að jákvæð afstaða þess í grundvallaratriðum til þessa máls verði ekki misnotuð. Það er nauðsynlegt, þegar svona illa er um hnútana búið, að Alþingi fái aðstöðu til þess, t.d. með starfi milliþinganefndar að framhaldi málsins, að fylgjast með því og fá þar með tækifæri til að koma á framfæri ábendingum og tillögum og koma í veg fyrir ófyrirséðar afleiðingar sem ekki er unnt að gera á grundvelli þeirra upplýsinga sem nú liggja fyrir.