29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (358)

85. mál, sveitarstjórnarlög

Ragnar Arnalds:

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. flm. þessa frv. fyrir ágæta ræðu og um leið vil ég lýsa stuðningi mínum við þá meginhugsun sem þar kemur fram. Ég minnist þess að þegar ég settist fyrst á þing fyrir rúmlega 20 árum var þetta eitt fyrsta málið sem ég flutti í þinginu. Það var frv. til l. um breytingu á stjórnarskránni. Það var ekki nákvæmlega eins og þetta frv., en það stefndi í mjög svipaða átt og gekk út á það að þjóðaratkvæðagreiðsla skyldi fara fram um tiltekið mál ef fimmtungur kosningarbærra manna í landinu krefðist þess eða ef fimmtungur alþm. óskaði eftir því - eða hvort það var fjórðungur alþm., ég man ekki nákvæmlega hvernig það var. En það er augljóst mál að hér er sami þankagangurinn á ferðinni, þ.e. að kjósendum sé gefinn kostur á því í auknum mæli að hafa bein áhrif á hinar stóru ákvarðanir sem teknar eru, hvort heldur er á vegum ríkisstjórnar og Alþingis eða á vegum sveitarstjórnar.

Þegar stjórnarskrárnefndin, sem starfaði undir forustu dr. Gunnars Thoroddsens heitins, fjallaði um breytingar á stjórnarskránni komum við Alþýðubandalagsmenn einmitt með tillögu af þessu tagi inn í þá umræðu. Hún gekk út á það að fimmtungur atkvæðisbærra manna gæti gert kröfu um að þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram um tiltekið mál. Þó töldum við að vissar ákvarðanir ættu að vera þar undanþegnar. Það væri t.d. ekki hægt að bera fjárlögin undir þjóðaratkvæði, eins og liggur kannske í hlutarins eðli. Sum mál eru ekki þess eðlis að þau verði lögð undir þjóðaratkvæði. Það þurfa að vera einfaldar einstakar spurningar sem óskað er að þjóðin svari en ekki nein flókin reikningsdæmi eða margliðuð frumvörp þar sem menn kannske hafa jákvæða afstöðu til sumra atriða og neikvæða afstöðu til annarra.

Ég tel að það sé mjög vel til fundið að reyna atkvæðagreiðslur af þessu tagi, þ.e. skjóta mikilvægum málum beint til kjósenda, að reyna það fyrirkomulag í sveitarstjórnum, og að reynslan af því gæti kannske orðið leiðbeinandi á þjóðmálasviðinu. Ég viðurkenni að mál af þessu tagi eru vandmeðfarin og það er ekki alveg sama hvernig að þessu er staðið. Það skiptir t.d. ákaflega miklu máli hvernig spurningin er orðuð sem fyrir kjósendur er lögð. Orðalag spurningarinnar getur ráðið býsna miklu um hvort kjósendur hafa tilhneigingu til að svara á þennan veg eða ekki. Það er ekki alveg einhlítt að meiri hluti eigi hverju sinni að hafa úrslitavald á því hvernig spurningin er orðuð. Það getur verið þörf á því að líka hvað það snertir hafi minni hlutinn ákveðinn rétt, að minni hlutinn hafi rétt til þess að hlutast til um á hvern veg kjósendum er ætlað að svara þeim spurningum sem fyrir þá eru lagðar.

Að öðru leyti þarf ég ekki að fjölyrða frekar um þetta mál. Ég tel að sjálfsagt sé að það verði rætt með jákvæðu hugarfari í þingnefnd. Ég ætti kannske að bæta því við að þegar um þetta var fjallað í stjórnarskrárnefndinni á sínum tíma var þar samstaða um að taka upp í frv. til stjórnarskipunarlaga ákvæði í þessa átt. Þess vegna tel ég að frv. það sem hér hefur verið lagt fram sé í fullu samræmi við þann vilja sem þar var á ferð. Að öðru leyti hef ég ekki neinu við að bæta.