29.10.1986
Efri deild: 7. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í B-deild Alþingistíðinda. (362)

85. mál, sveitarstjórnarlög

Kolbrún Jónsdóttir:

Virðulegi forseti. Því miður missti ég af parti af jómfrúrræðunni, en ég ætla samt að þakka hv. þm. sérstaklega fyrir að hafa vakið athygli á þessu máli. Ég held að það sé mjög brýnt að við ræðum um beinna lýðræði en það sem við búum við. Víða erlendis er það tíðkað samfara sveitarstjórnarkosningum og þingkosningum að nota tækifærið til að kanna hug almennings til annarra brýnna mála. Þetta hefur engan kostnað í för með sér, en er til þess að fólk hafi meiri áhrif á sitt umhverfi. Við megum ekki gleyma því að sveitarstjórnir fara með fé almennings. Því ættum við, sem búum í viðkomandi sveitarfélagi, þá ekki að hafa meiri áhrif en nú er á framkvæmdir sem þar eru látnar njóta forgangs? Mér dettur í hug eitt dæmi. Það eru íþróttabyggingarnar sem við horfum upp á víðs vegar um landið. Það er kannske byggt íþróttahús í 380 manna sveitarfélagi sem kostar yfir 40 millj. Þar er ég að tala um verðlag í fyrra. Þakið kostar eitt og sér 8 millj. Það er engin goðgá að spyrja fyrir fram um hug þess fólks sem á að standa undir 60% af þessum kostnaði, hvort það vilji leggja út í slíka framkvæmd. Ég held að þetta sé mjög brýnt.

Hins vegar vildi ég gera athugasemdir varðandi t.d. töluna 1000 íbúar. Það er reiknað með 1/10 hluta kjósenda eða þriðjungi sveitarstjórnar ef íbúar eru yfir 1000, en aftur á móti fjórðungi ef íbúar eru undir 1000. Það eru ýmis svona tæknileg atriði sem mætti gera athugasemdir við, en ég ætla ekki að orðlengja það. Ég á ekki sæti í þeirri nefnd sem mun fjalla um þetta þannig að ég vildi nefna þetta.

Eins velti ég fyrir mér hvort þetta ætti að gilda, ef þetta væri sett í lög á annað borð, um sveitarfélög sem hafa yfir 500 íbúa. Í sveitarfélögum undir 500 íbúum er lýðræðið kannske meira. En það dæmi sem ég tók áðan er staðreynd. Ég veit ekki til þess að þar hafi allir íbúar viðkomandi sveitarfélags haft tækifæri til að segja sinn hug um það mál.

Það eru eins og ég segi ýmis atriði sem má velta fyrir sér, en ég held að þetta sé gott fyrir okkur að ræða um og gott að setja einhver svona ákvæði inn í sveitarstjórnarlögin. Ég ætla ekki að fara nánar út í sveitarstjórnarmálin því þar er mjög margt sem þarf athugunar við. Vonandi verða þau mál endurskoðuð frá grunni. Meira að segja er ekki hægt að framkvæma suma þætti þeirra laga því að það eru gallar í þeim lagabálk sem var samþykktur hér á síðasta vetri.