03.11.1986
Neðri deild: 8. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (412)

70. mál, stjórnarskipunarlög

Flm. (Kristín S. Kvaran):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands nr. 33 17. júní 1944. Þetta er 70. mál þingsins og er að finna á þskj. 70.

Það kom fram við umræður um þetta frv., sem nú er endurflutt, á 108. löggjafarþingi að áður hefur komið fram tillaga sem geri: ráð fyrir að ráðherrar láti af þingmennsku þann tíma sem þeir gegna ráðherraembætti. Þessi þáltill. var á sínum tíma eða 1972 flutt af Sigurði Blöndal og Helga Seljan og fjallaði um það að alþm. gegndu ekki öðrum fastlaunuðum störfum í opinberri þjónustu á meðan á þingmennskunni stæði. Þar segir m.a., eftir að raktar hafa verið helstu breytingar sem orðið hafa síðan starf þm. varð fullt starf og nokkur atriði um að menn gegni ekki öðrum launuðum störfum meðfram, með leyfi herra forseta:

„Í nánum tengslum við þetta mál er staða ráðherra sem jafnframt eru alþingismenn. Enda þótt þeir haldi óskertu þingfararkaupi auk ráðherralauna taka þeir ekki þátt í nefndarstörfum á Alþingi sem er vissulega gildur þáttur þingmennskunnar. Það er skoðun flm. að Íslendingar ættu að taka upp þann hátt, sem hafður er á í Noregi, að ráðherrar víki úr þingsæti er varamaður taki sæti, en varamaður taki sætið meðan ráðherradómur hans stendur. En auðvitað verður ráðherra eftir sem áður að hafa rétt til að sitja þingfundi og taka þátt í umræðum eftir því sem hann telur þörf á. Þessi breyting á skipan mála gæti líka réttlætt endurskoðun á launakjörum ráðherra sem vitaskuld eiga að hafa hin hæstu laun svo sem ábyrgð starfsins og erfiði gefa tilefni til.“

Svo mörg voru þau orð úr þessari þáltill. sem flutt var árið 1972. Það er gott til þess að vita að þessu máli skuli hafa verið hreyft hér áður og gengið í gegnum umræður í þinginu vegna þess að þær eru oft upphafið að öðru meira.

Það er nauðsynlegt að skilja með skýrum hætti á milli starfa þm., sem vinnur að löggjafarstörfum, og þess sem vinnur að framkvæmdavaldsstörfum sem handhafi þess í formi ráðherraembættis vegna þess að með því verður löggjafarstarfsemi þingsins styrkt og sjálfstæði þess aukið. Það gerist af sjálfu sér með því að þm. sinni ekki jafnframt ráðherrastörfum eða öfugt, að ráðherrar sinni ekki jafnframt þingmennsku. Ekki veitir þeim af öllum kröftum sem þeir ráða yfir til að gegna þeim skyldum sem ráðherraembættinu fylgja og vart þurfa þeir að efast um að sá varamaður sem tekur við þingsæti þeirra muni ekki gegna þeim skyldum sem þingmennskunni fylgja af bestu samvisku. Auðvitað er í þessu falið að ef ráðherra lætur af embætti á kjörtímabilinu og hættir sem ráðherra tekur hann sitt sæti aftur og varamaður hverfur af þingi.

Að mörgu leyti má segja að þetta frv. fjalli um stöðu þingsins gagnvart framkvæmdavaldinu. Það leiðir af sjálfu sér að menn væru þá ekki jafnbundnir af því frumkvæði sem nú tíðkast af hálfu framkvæmdavaldsins í sjálfum þingstörfunum og af leiddi að um yrði að ræða mun virkara og ábyrgara frumkvæði í lagasetningu af hálfu þingsins en tíðkast hefur síðustu áratugi sem meðfram hefur stafað af að þingið hefur að nokkru leyti orðið að sjálfvirkri afgreiðslustofnun fyrir framkvæmdavaldið.

Hv. þingdeildarmönnum er auðvitað kunnugt um að tillögur stjórnarskrárnefndar fela í sér að við búum áfram við óbreytt ástand, þ.e. að ráðherrar gegni jafnframt þingmennsku. Mér er satt að segja í raun óskiljanlegt að þeir núv. hæstv. ráðherrar og fyrrv. ráðherrar sem eiga sæti á þingi skuli ekki sjá í hendi sér að auðvitað gegna þeir í raun og veru ekki þingmennsku meðfram. Það getur ekki verið vegna þess að ef svo væri veit ég ekki hvað það er sem við erum að gera hin sem eigum að heita þingmenn. Að vissu leyti má leiða að því rök að með því að gegna ráðherraembætti jafnframt þingmennsku sýni menn starfi þingmanna lítilsvirðingu. Ég veit ekki hvernig menn ætla sér að fara að því að skilgreina að það sé hægt að sinna þingmennsku meðfram svo veigamiklu starfi sem starf ráðherra er.

Herra forseti. Ég sagði frá því við umræðurnar í fyrra og tel rétt að áréttá það nú að ég minntist þess að hafa þá nýlega heyrt einn af ráðherrum þessarar ríkisstjórnar geta um það í útvarpsviðtali, sem átt var við hann, að hann gæti ekki af eðlilegum orsökum sinnt þingmannsstarfi sínu sem skyldi og í raun og veru engan veginn. Það kom einnig fram í viðtalinu að hann vonaðist til þess að kjósendur hans fyrirgæfu honum. Þarna erum við aftur komin að kjarna málsins. Ráðherra á auðvitað ekkert að þurfa að vonast til þess að kjósendur hans fyrirgefi honum. Hann er að sinna mjög merku og mikilvægu starfi og hann á ekki að þurfa að hafa af því áhyggjur að eiginlega eigi hann að gegna öðru starfi meðfram, starfi sem er fullt starf. Ég hef ekki heyrt að neinn hér inni, sem gegnir þingmennsku, tali um annað en að það sé fullt starf og launin auðvitað í samræmi við það.

Það er óviðunandi að ráðherrar skuli þurfa að vera upp á náð kjósenda sinna komnir vegna þess að þeir séu að sinna öðru starfi meðfram þingmennskunni, sem er ráðherradómur.

Ráðherrar eru og eiga að vera æðstu menn framkvæmdavaldsins og þess vegna er ekkert eðlilegra en að þeir eigi sæti á Alþingi. Það verður að gera ráð fyrir því að eðlileg tengsl skapist á milli löggjafans og framkvæmdavaldsins, en ég tel það vera að sama skapi óeðlilegt og óæskilegt að þeir hafi þar áhrif á gang mála með atkvæði sínu. Þetta frv. gerir sem sagt ráð fyrir aðild ráðherranna að öllu leyti nema að því er tekur til atkvæðagreiðslunnar.

Frv. snertir því mjög starfshætti þingsins. Þessi breyting, yrði hún samþykkt, mundi án alls efa styrkja að miklum mun löggjafarstarfsemi þingsins og ekki hvað minnst auka á sjálfstæði þess gagnvart framkvæmdavaldinu. Ég er þess einnig nánast fullviss að sú þverrandi virðing, sem vart hefur orðið á síðari árum í garð Alþingis og að mörgu leyti verðskulduð, gæti farið vaxandi. Þessi skipan, sem hér er lögð til, mundi án alls efa auka á virðingu Alþingis. Alþingi hefði á þann hátt raunhæfan möguleika á því að öðlast að nýju það traust og þá virðingu sem slíkum valdþætti ber. Alþingi á að vera traustvekjandi stofnun í þjóðfélaginu. Það hlýtur þess vegna að vera sjálfsögð og eðlileg krafa að virðingu þessarar stofnunar sé í sem fæstu og helst engu ábótavant.

Það er m.a. samband þessara tveggja valdþátta sem þetta frv. tekur til, sambandið milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds, sem orðið hefur til þess að stuðla að þverrandi virðingu löggjafans. Með frv. er lagt til að um þessi tengsl verði losað. Það er lagt til að það verði bundið í stjórnarskrá að gerist alþingismenn ráðherrar gegni þeir ekki þingmennskunni samtímis. Ráðherrar geta auðvitað aldrei stöðu sinnar vegna gegnt stöðu þingmanna svo fullnægjandi geti talist meðfram embætti sínu. Í því sambandi er nægilegt að benda á störf fastanefnda þingsins. Eins og nú er eiga ráðherrar ekki sæti þar og ég spyr: Af hverju er það? Jú, það er vegna þess að það er alls ekki gert ráð fyrir að þeir hafi möguleika á því að sinna þeim störfum sem þar fara fram, enda þótt þau störf sem þar fara fram séu afskaplega mikilvægur og tímafrekur þáttur í störfum þingmannsins. Ég hef ekki heyrt neinn andmæla því að þessi störf séu mikilvægur hlekkur í störfum þingsins og jafnvel mikilvægasti hlekkurinn. Ég hef heldur ekki heyrt neinn þingmann geta um að hann hafi yfrið nægan tíma til að sinna störfum sínum. Það er frekar hitt að maður heyri því fleygt að sólarhringurinn nægi ekki til þeirra starfa sem honum eru ætluð. Þess vegna tel ég það vera rökrétta ályktun að ekki sé á bætandi þó að störf og skyldur ráðherra bætist ekki við í ofanálag.

Herra forseti. Ég vil að lokum aðeins segja þetta: Það er trú mín að breyting sem þessi yrði til þess að styrkja starfsemi löggjafarþingsins og að virðing þess og ábyrgð yrði augljósari.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og allshn.