18.03.1987
Sameinað þing: 65. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 4473 í B-deild Alþingistíðinda. (4299)

353. mál, þjóðarátak í umferðaröryggi

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Sem 1. flm. þessarar till. til þál. um þjóðarátak í umferðaröryggi vil ég þakka hv. allshn. fyrir afgreiðslu till. Ég sætti mig við þá brtt. sem nefndin flytur á þskj. 860 þó að ég telji að eins og till. var upphaflega orðuð hefði það ekki síður verið tryggt að þeir aðilar yrðu skipaðir í nefndina sem sérstaklega láta sig varða umferð og umferðaröryggi.

Ég ítreka þýðingu þess að strax í upphafi eftir að nefndin verður skipuð verði aðilar með sérfræðiþekkingu á sviði áróðurs- og auglýsingatækni hafðir með í ráðum til þess að slíkt þjóðarátak verði vel skipulagt, en sú var einmitt ástæðan fyrir því að lagt var til að einn af sjö aðilum í nefndinni yrði tilnefndur af Sambandi ísl. auglýsingastofa og eins var hugmyndin um fulltrúa frá Sambandi ísl. tryggingafélaga í nefndinni til komin til að leggja áherslu á þýðingu þess að fá samstarf við þá aðila m.a. með það í huga að bifreiðatryggingafélögin sæju sér hag í að leggja fram fjármagn í átakið. Ég get þó ekki séð að brtt. komi í veg fyrir að fulltrúar þessara aðila verði skipaðir í nefndina ásamt þeim öðrum sem láta sig varða umferð og umferðarmenningu.

Umferðarmál hafa verið mikið í umræðu á hv. Alþingi undanfarið vegna frv. til umferðarlaga sem væntanlega verður að lögum áður en þingi lýkur og því skiptir það miklu að þjóðarátakið hefjist í kjölfar þess að lögin taki gildi. Það er talið að á hverju ári slasist á þriðja þúsund Íslendingar í umferðinni. Ég heyrði ekki betur en í morgunfréttum hafi það komið fram að í febrúarmánuði hafi umferðardeild lögreglunnar haft afskipti af 544 óhöppum og í gær voru þau 30 á einum degi. Tilgangur þjóðarátaks í umferðaröryggi er að gerbreyta hegðun Íslendinga í umferðinni, jafnt ökumanna sem gangandi vegfarenda, þannig að tillitssemi við aðra vegfarendur og kunnátta sem greiði fyrir umferð og auki umferðaröryggi verði sjálfsagður þáttur í daglegri hegðun. Með þessu móti má nánast útrýma þeim umferðarslysum og óhöppum sem stafa af vankunnáttu, þjálfunarleysi og tillitsleysi við aðra vegfarendur.

Herra forseti. Nú þykir mér vera orðin dálítil ókyrrð í salnum. Að vísu er kannske ekki stórt mál á ferðinni, en það skiptir marga ákaflega miklu. Ég ætlaði þá að ljúka orðum mínum með því að endurtaka þakkir mínar til hv. allshn. og legg áherslu á að undirbúningi þessa þjóðarátaks í um ferðaröryggi verði hraðað svo að takast megi að hrinda því af stað í byrjun næsta árs.