04.11.1986
Sameinað þing: 12. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (459)

12. mál, frysting kjarnorkuvopna

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni vil ég taka fram að það er alveg sjálfsagt að ég greini hæstv. utanrrh. frá þeirri umræðu sem hér fer fram. Hitt liggur líka í hlutarins eðli að þegar till. þessi kemur til hv. utanrmn. verður hún þar tekin fyrir og rædd í viðurvist ráðherrans eins og allar tillögur sem til þeirrar nefndar koma og verður afgreidd með þinglegum hætti eins og öll mál sem til nefndarinnar hafa komið, a.m.k. á síðari árum. Þau hafa öll verið afgreidd með þinglegum hætti.

Um þessa till. sérstaklega er þess að geta að ég veit ekki hvort samhljóða till. hefur komið fram á allsherjarþinginu sem nú situr. Það mun ég að sjálfsögðu kynna mér og við öll sem um þessi mál fjöllum sérstaklega. Sjálfsagt verða einhverjar tillögur bornar upp um þessi mikilvægustu mál mannkyns á því allsherjarþingi sem nú situr. Ef ég man rétt voru tillögur þær sem fluttar voru um þessi mál í fyrra milli 70 og 80 talsins og ekkert okkar er í stakk búið til að dæma um það á þessari stundu hver af þeim tillögum, sem nú er fj allað um á þinginu eða verður fjallað um, verður sú sem við helst gætum stutt.

Það er líka rétt í þessu sambandi að minna á að við Íslendingar stigum mikið gæfuspor þegar við sameinuðumst um eina stefnu, allir þingflokkar og allir þingmenn, hinn 23. maí á s.l. ári. Ég hygg að sú till. sé enn í fullu gildi og þó að við ræðum málin áfram er ég ekki viss um að sérstakt tilefni sé til þess að álykta um einn þátt þessa efnis frekar en annan heldur að halda okkur við þá tillögugerð sem þegar er einróma samþykkt af Alþingi. Það kann þó allt að breytast og auðvitað höfum við augun opin. En líklega eru fáir fremur en Íslendingar um þessar mundir sem gera sér ljóst að það eru stórveldin, risaveldin sjálf, sem ráða mestu um gang mála þó að okkur beri skylda, hinum smærri, að reyna að hafa á þau áhrif. Við urðum auðvitað öll vör við að málin eru ráðin af þessum risaveldum og það verðum við að sætta okkur við þó að ég endurtaki að við eigum að beita áhrifum okkar.

Ég ætla ekki að fara í mikla efnislega umræðu um þetta mál hér og nú. Það kemur til nefndarinnar og verður þar rætt. Ég kemst þó ekki hjá að andmæla því að Íslendingar hafi verið ósjálfstæðir eða huglausir í utanríkismálum. Ég held þvert á móti að mjög vel hafi verið haldið á utanríkismálum Íslendinga frá því að við öðluðumst okkar frelsi og raunar áður því að auðvitað öðluðumst við okkar fullveldi og stofnuðum lýðveldi vegna þess að vel var haldið á okkar málum gagnvart erlendum þjóðum og það munum við reyna að sameinast um að gera áfram. Ég held að við ættum að sleppa slíkum fullyrðingum, að það sé eitthvert hugleysi þó að menn séu á öndverðum meiði hver við annan. Ég er ekki að bera neitt hugleysi á neinn þeirra sem hafa aðrar skoðanir en ég á þessum málum og ætlast til að það sé heldur ekki borið á t.d. liðna leiðtoga þessarar þjóðar.

Umræðu (atkvæðagreiðslu) frestað.