06.11.1986
Sameinað þing: 13. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 641 í B-deild Alþingistíðinda. (522)

17. mál, lífeyrissjóður allra landsmanna

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Trúlega má halda því fram að fyrsta heildarlöggjöfin um almannatryggingar frá árinu 1936 sé stærsta félagslegt mannréttindamál sem Alþfl. hefur nokkru sinni náð að festa á lögbækur. Sú löggjöf leysti af hólmi fátækralöggjöf sem m.a. fól það í sér að einstaklingar og fjölskyldur máttu þola það að vera svipt mannréttindum, kosningarrétti, kjörgengi, fluttar hreppaflutningi þegar þau atvik bar að höndum í lífinu að fjölskyldufaðirinn eða fyrirvinnan gat ekki sökum elli, sjúkdóma eða lífsins áfalla séð fjölskyldu sinni farborða.

Baráttan fyrir almannatryggingum var löng og hún var ströng og hún var hörð hér í þingsölum. Ef ég þekki þá sögu rétt flutti faðir almannatrygginganna, Haraldur Guðmundsson, þetta mál fyrst hingað inn í þingsali árið 1929 og tókst að vinna því brautargengi í ríkisstjórn Alþfl. og Framsfl. 1934-1937 sem stundum er kölluð hin eina sanna vinstri stjórn, ríkisstjórn hinna vinnandi stétta.

Mér dettur í hug vegna þessarar forsögu málsins að rifja upp að fyrir nokkrum dögum var haldið hátíðlegt hálfrar aldar afmæli Tryggingastofnunar ríkisins. Að vísu var þar boðað að saga almannatrygginganna og saga baráttunnar fyrir almannatryggingum yrði rifjuð upp í tilefni þessa afmælis betur síðar á bók, en engu að síður þótti mér það fremur tómlegt á þeirri stundu að verða að því vitni að nafn Haralds Guðmundssonar var ekki einu sinni nefnt við hátíðlegt hálfrar aldar afmæli Tryggingastofnunar ríkisins.

Nú vildu vafalaust margir, sem beittu sér hér í þingsölum gegn þessari löggjöf, gjarnan að þau ummæli yrðu gleymd vegna þess að heita má að nú sé ekki lengur nein hugmyndafræðileg andstaða gegn þessari meginuppistöðu velferðarríkisins. Ekki hugmyndafræðileg andstaða. Henni er lokið. Því stríði er lokið með fullum sigri. Það er miklu fremur að spurningarnar sem lúta að almannatryggingum og þá reyndar líka því máli sem hér er til umræðu, lífeyrissjóðamálinu, lúti að tæknilegri spurningum um hvernig þetta kerfi er starfandi, hverjir eru gallar þess, hvaða breytingar þarf að gera á því til þess að það gegni hlutverki sínu betur en nú er.

Allt frá því að almannatryggingalöggjöfin var fyrst sett má segja að við höfum að því er varðar þennan þátt velferðarríkisins búið við tvíþætt kerfi, kannske þríþætt. Í fyrsta lagi eru almannatryggingarnar sjálfar, sem eru partur af tekjujöfnunarkerfi ríkisins, ekki byggðar á grundvallarreglum tryggingastarfsemi heldur tekjujafnandi í þeim skilningi að án tillits til framlaga njóta allir sömu réttinda. Í annan stað hefur síðan orðið þróun við uppbyggingu lífeyrissjóða sem byggja á öðrum grundvallarreglum, nefnilega þeim að lífeyrissjóðirnir séu tryggingakerfi sem byggir á iðgjaldagreiðslum og réttindi því iðgjöldum tengd þannig að þegar kemur að ellilífeyri komi í hlut hvers og eins ákveðið hlutfall af þeim iðgjöldum sem til sjóðsins hafa verið greidd. Þetta er það kerfi sem við höfum búið við lengst af að viðbættum kannske þriðja þættinum þó lítið kveði að honum í okkar þjóðfélagi sem væri viðbótartryggingar tryggingafélaga hvort sem þær tilheyra einkageiranum eða ekki.

Nú má, herra forseti, út af fyrir sig spyrja einfaldrar spurningar sem varðar kjarna þessa máls og hún er þessi: Eigum við yfirleitt nokkuð að vera að hafa lífeyrissjóði sem byggjast á lögskyldaðri þátttöku? Til eru þeir menn sem svara því blátt áfram neitandi. Löggjafinn á ekki að skylda fólk til skyldusparnaðar á starfsaldri til að búa það undir ævikvöldið t.d. Þetta á að vera hverjum einstaklingi í sjálfsvald sett. Þetta sjónarmið nýtur trúlega nokkurs stuðnings í okkar þjóðfélagi, einkum og sér í lagi á seinni árum, af mjög einfaldri, augljósri og auðskilinni ástæðu - nefnilega þessari: Lífeyrissjóðakerfið hefur þróast, ekki samkvæmt fyrir fram gerðri áætlun heldur minnir það á byggingu sem byggð hefur verið skúr við skúr eða á fat sem breytt hefur verið í tímans rás og stagbætt bót við bót þannig að kerfið er eiginlega ekki á ábyrgð neins og eins og kom fram í máli hv. flm. mörgum illskiljanlegt. En það er þó ekki það versta heldur hitt að í þróun þessara mála hefur það falist að í staðinn fyrir að vera fyrst og fremst spurning um réttindi og skyldur hefur kerfið þróast með þeim hætti að hinum ýmsu þjóðfélagshópum hefur verið gróflega mismunað. Og í annan stað: Einstakir sjóðir sem byggja á skyldusparnaði hafa verið leiknir svo grátt í eldi stjórnlausrar óðaverðbólgu að í raun og veru finnst mér ekki ofmælt að segja að þarna hafi farið fram lögboðinn þjófnaður á eignum fólks á löngum tíma. Lögboðinn þjófnaður er alvarlegt mál, herra forseti. Þetta er m.a. ein ástæðan fyrir því að þegar þær raddir heyrast að við ættum einfaldlega að hverfa frá þessu kerfi og segja sem svo að þetta ætti að vera einstaklingsbundið hagsmunamál hvers einstaklings eða fjölskyldu hefur það sjónarmið fengið þó nokkrar undirtektir.

Það er alveg ljóst að við flm. þessa máls tökum ekki undir það. En við viljum ekki berja höfðinu í steininn eða loka augunum fyrir því að núverandi kerfi er með öllu ótækt. Og ég er þeirrar skoðunar að alveg eins og almannatryggingamálið, sem ég nefndi í upphafi, er e.t.v. stærsta baráttumál Alþfl. fyrr og síðar og burðarás eða undirstaða þess velferðarríkis sem við a.m.k. tölum um að hér sé við lýði er ég þeirrar skoðunar að ný skipan og endurskipulagning lífeyrissjóðakerfisins sé eitt stærsta félagslegt réttindamál almennings í þessu landi og þetta mál þess vegna eitt þýðingarmesta mál sem lagt hefur verið fram hér á Alþingi.

Herra forseti. Mér gefst ekki kostur á að ræða þetta mál í einstökum smáatriðum frekar tímans vegna, en ég tek undir með hv. flm. að ég hvet hv. alþm. eindregið til þess að kynna sér þetta mál vandlega. Hv. 1. flm. vakti athygli á því að mál sem varða endurskipulagningu lífeyrissjóðanna hafa verið flutt fyrr á hinu háa Alþingi. Þarna er um að ræða mörg athyglisverð mál eins og t.d. það mál sem flutt var árið 1975 og 1978 að frumkvæði hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar. Ég óska eftir því að hér á hinu háa Alþingi gæti tekist veruleg samstaða milli manna af ólíkum stjórnmálaflokkum um að veita þessu máli brautargengi og ég þykist mega segja það fyrir hönd flm. að við viljum halda öllum dyrum opnum til að hlusta á athugasemdir, gagnrýni og viðbótartillögur um það hvernig við getum náð þeim stóra áfanga að hverfa frá núverandi kerfi með öllum þess göllum og til þess að tryggja öllum almenningi á Íslandi jafnan rétt í einum samfelldum lífeyrissjóði þar sem allir menn geta treyst því að hinar ólíku stéttir og starfshópar sitji við sama borð.