10.11.1986
Neðri deild: 10. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 717 í B-deild Alþingistíðinda. (572)

71. mál, dagvistarheimili fyrir börn

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það væri sannarlega ánægjulegt ef fleiri létu skoðun sína í ljósi á þessu frv. en hv. flm. og sú sem hér stendur. Að vísu, ef ég man rétt, er víst hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson ekki einn flm. en hann talaði í málinu áðan og óskandi væru að fleiri hefðu skoðanir á þessu og létu þær í ljósi.

Ég verð að segja að ég er undrandi á þessum hörðu viðbrögðum og sárindum hjá hv. 1. flm. Ég hefði haldið að hún fagnaði því að fá tækifæri til þess að ræða þetta frá öllum hliðum. Það er engin ein skoðun endilega rétt á öllum málum og mér fannst rétt að það viðhorf, sem ég hef túlkað, kæmi hér fram í þessu máli, sem er vissulega álitamál. Hún getur vafalaust lagt fram bréf frá konum sem styðja hennar málflutning. Ég hef ekki aflað mér neinna bréfa en ég veit að þessi viðhorf eru fyrir hendi. Hvort þau verða ofan á eða þau sem hún hefur túlkað verður tíminn að leiða í ljós. Ég vil vitanlega eins og aðrir sem hafa talað að þessi mál verði skoðuð vandlega og um þau fjallað í nefnd og ekki hrapað að neinu. Þetta er töluverð breyting sem verið er að tala um að gera. Það er verið að tala um og á að leggja það beinlínis til að það verði stofnuð og löggilt ný stétt starfsfólks á dagvistunarheimilum og þetta er mál sem verðskuldar alla umræðu og skoðun frá öllum hliðum. Ég skil ekki í öðru en að allir séu sammála því að hér hafi allir jafnan rétt til þess að viðra sínar skoðanir og finnst eðlilegt og skil ekki í öðru en við getum rætt þessi mál í einlægni og skipst á skoðunum í fullri kurteisi og málefnalega.

Ég náði auðvitað ekki öllum orðum hv. 1. flm. áðan en mér fannst hún ansi eitthvað snegluleg í garð okkar Kvennalistakvenna að tala um forsjárhyggju og að við Kvennalistakonur teldum okkur hafa einkarétt, ef ég skildi hana rétt, á öllu sem varðaði málefni barna. Ég vil nú bara mótmæla því að við teljum okkur hafa nokkurn einkarétt a því. Það er vissulega rétt og öllum ljóst að það er mikið meginatriði í stefnu okkar og öllum störfum að vinna að bættum hag kvenna og barna. En að við teljum okkur hafa einkarétt á því er alls ekki rétt eins og hv. þm. hlýtur að sjá og skilja. Við getum satt að segja ekki hugsað okkur að hafa neinn einkarétt á því. Ég ætla að vona að áhugi og skilningur á málefnum kvenna og barna breiðist meira út en hefur verið. Okkur þykir það taka langan tíma að koma þeim áhuga og skilningi sem víðast um þjóðfélagið.

Við fáum sannarlega oft að heyra það að dagvistunarmál séu eina efnið sem við þykjumst hafa vit á og hið eina sem við látum okkur nokkru skipta. „Blessaðar talið nú um eitthvað annað en dagvistunarmál,“ er mjög algeng setning og algeng fullyrðing sem við fáum að heyra. Við slíkar athugasemdir er tvennt að athuga. Í fyrsta lagi er það auðvitað ekki rétt að við leggjum slíka ofuráherslu á dagvistunarmál að allt annað falli í skuggann. Það er nú síður en svo. Oft finnst okkur reyndar að við þyrftum að láta miklu meira frá okkur fara um þessi mál. Og í öðru lagi felst svo í slíkri fullyrðingu að dagvistunarmál séu alls ekki þess virði að eyða of miklum tíma í þau, hvað þá að hér sé um eitthvert forgangsmál að ræða.

Því miður skortir enn verulega á að þeir sem hafa mest völd og áhrif og peningaforráð í þessu landi skilji hve gífurlega brýnt hagsmunamál þetta er fyrir mikinn fjölda fólks, fyrir foreldra og börn. Það er að mínum dómi furðulegt að verkalýðsfélögin skuli ekki hafa staðið sig betur í að lagfæra þetta ástand. Nú veit ég vel að á þetta hefur verið lögð áhersla í samningum, a.m.k. var það svo í samningunum 1980 að þetta var gert að nokkuð miklu áhersluatriði. Aðilar vinnumarkaðarins gerðu um það samkomulag að gert yrði verulegt átak í uppbyggingu dagvistarheimila í landinu og ríkisstjórnin lagði sitt af mörkum með því að lofa markvissri uppbyggingu dagvistarheimila þannig að þörf fyrir dagvistarrými yrði fullnægt á tíu árum og um þetta var gerð áætlun. Við vitum nú hvernig við það hefur verið staðið. Mér finnst verkalýðsfélögin hafa staðið sig hörmulega í því að fylgja þessu eftir og nú er þessi áætlun orðin ansi rykfallin má segja. Við vitum hvert framlag ríkisins á að vera skv. frv. til fjárlaga fyrir næsta ár. Það á að vera 20 millj. kr. og dugir skammt upp í þessa ágætu áætlun — þ.e. uppbyggingu dagvistarheimila sem átti að vera lokið árið 1990 ef ég man rétt. Þetta eru nú efndirnar.

Hv. 7. þm. Reykv. talaði um þennan mikla skort á dagvistarheimilum og ég tek svo sannarlega undir það og við höfum staðið saman í því að reyna að fá ríkisvaldið til þess að leggja meira af mörkum svo að fullnægja mætti þessari þörf fyrir dagvistarheimili, þ.e. byggingar, en við það er vitanlega það að athuga að það þýðir lítið að hafa dagvistarheimili og hafa hús ef starfsfólk fæst ekki til að vinna störfin þar. Ég hygg að við séum sammála um að orsökin til þess að ekki fæst starfsfólk er fyrst og fremst kjörin.

Vafalaust særi ég einhvern upp í stólinn hérna með þeim orðum mínum en mér finnst það ekki stuðningur við baráttu fóstra fyrir bættum kjörum að leggja fram tillögu af þessu tagi sem hér er til umræðu þar sem mér finnst beinlínis felast í henni að við þurfum ekki að hafa svo vel menntað eða svo mikinn menntaðan starfskraft á þessum heimilum. Það dugi sem sagt alveg að mennta fósturliða, mennta fólk í eitt ár til þess að gegna þessum störfum. Halda hv. flm. og þeir fjölmörgu alþm. sem hér sitja og hlýða á mál mitt virkilega að þeir sem reka dagheimilin taki því ekki fegins hendi að fá nýja stétt, löggilta stétt fósturliða, svo að þeir þurfi ekki að greiða eins mikið fyrir þessa þjónustu?

Það eru örfá önnur atriði sem hér hafa komið fram, m.a. það sem hv. 7. þm. Reykv. talaði um. Hann minntist á þá hugmynd sem oft hefur verið hreyft að dagvistarheimili séu rekin í tengslum við fyrirtæki og það má vissulega velta slíku fyrir sér. Ég hef rætt þetta við margar konur og sumar eru hlynntar slíku og benda á það öryggi sem í því felst að hafa börnin í öruggri gæslu nálægt sér, að geta látið ná til sín hvenær sem er ef eitthvað kemur fyrir og jafnvel hitt þau í hádeginu eða í hléum sem gefast frá störfum. En á hinn bóginn er svo það sjónarmið ákaflega sterkt að slík þjónusta sem bundin er við vinnustað geti verkað og hljóti í mjög mörgum tilvikum að verka sem fjötur, þ.e. fjötur við vinnustaðinn. Foreldrið er þá að sjálfsögðu bundið við þetta fyrirtæki til þess að hafa tryggt pláss fyrir barnið því að um leið og starfsmaður hættir störfum við fyrirtækið hlýtur barnið að missa sitt pláss og það er nú öryggið þegar allt kemur til alls.

Á þessu eru sjálfsagt líka fleiri hliðar og þetta er ekki beinlínis mál sem þarf að ræða í tengslum við þetta þingmál sem er á dagskrá en auðvitað er ástæða til þess að ræða þessi mál öll í víðu samhengi. Tíma þingdeildarinnar er ekkert illa varið í slíka umræðu og samkvæmt dagskránni höfum við ekki annað að gera. Þess vegna finnst mér ekki síst að hv. flm. og sér í lagi hv. 1. flm. ætti að fagna öllum viðbrögðum og tækifærum til þess að ræða þetta mál. Ég vil ítreka það að ég vil að þessi mál séu rædd, umsagna verði leitað og málið skoðað frá öllum hliðum. En ég veit að það viðhorf sem ég hef túlkað hér er ekki einsdæmi og það er viðhorf sem á fyllilega rétt á því að heyrast og verða rætt eins og önnur viðhorf. Svo að ég ítreki það viðhorf sem ég er að túlka hérna svo að það fari ekkert á milli mála, því mér finnst óneitanlega nærri því eins og menn hafi misskilið það sem ég hef sagt, að mér finnst að við verðum að leggja áherslu á hlutverk fóstrunnar og að við megum ekki draga úr mikilvægi hennar starfa. Ég óttast það að ef við löggildum nýja stétt með minni menntun, sem mun að öllum líkindum fá lægri laun — ég sé ekki efni til annars — séum við e.t.v. að ráðast að fóstrustarfinu sjálfu.

Hv. flm., og ég reyndar líka í máli mínu um daginn, minntust á það ófaglærða starfsfólk sem hefur bjargað málunum, bjargað þessu ófremdarástandi sem ríkir á dagvistarheimilum, og það hefur sannarlega unnið gott verk. Það er því miður ekki hægt að taka próf í ást á börnum en eins og hv. 7. þm. Reykv. tók fram hér áðan er hún vitaskuld mest um verð þegar um umönnun barna er að ræða og margt fólk getur vitanlega reynst hið besta starfsfólk þó að það hafi ekki hlotið löggilta menntun. Ég tel rétt að styðja og styrkja þá starfsemi sem þegar hefur verið nokkuð iðkuð, þ.e. að gefa þessu ófaglærða starfsfólki kost á námskeiðum til þess að auka færni og skilning á því sem um er að ræða. Ég held að það sé einfaldlega sú leið sem við þurfum að fara fremur en að löggilda nýja stétt.

En ég ítreka enn og aftur að ég vil vitanlega láta skoða þessi mál og mér þykir það mikil ofætlan ef hv. flm. halda það að mín áhrif og okkar Kvennalistakvenna séu það mikil að við getum stöðvað þetta mál ef það verður niðurstaða allra þeirra sem leitað er til um umsagnir að þetta sé það besta fyrir börnin okkar. Verði sú niðurstaða af umfjöllun málsins mun ég beygja mig fyrir því. En með þetta eins og allt annað er það vitanlega samviskan sem ræður.