11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 727 í B-deild Alþingistíðinda. (584)

133. mál, Sjóefnavinnslan á Reykjanesi

Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):

Herra forseti. Sú fsp. sem hér er lögð fyrir hæstv. iðnrh. og snýst um málefni Sjóefnavinnslunnar er þríþætt. Fyrirspyrjandi vill vekja athygli ráðherrans og Alþingis á afleiðingum laga um umrætt fyrirtæki frá 1981. Um leið og það hlýtur að vera einkennilegt að á sama tíma og ráðherrar hafa staðið blóðugir til axla að skera og selja hlut ríkisins í hverju stórfyrirtækinu á fætur öðru verja þeir hundruðum milljóna kr. í þetta hugarfóstur og skeyta engu um þó lífsstarf og lífsbarátta einstaklinga sé að velli lögð. Sjóefnavinnslan mun nú vera að standsetja hliðargrein, kolsýruverksmiðju með afkastagetu upp á 1560 tonna framleiðslu á ári, og hefur ríkið lagt tugi milljóna í þetta verkefni. Veit iðnrh. að s.l. 20 ár hefur þessi framleiðsla verið í höndum einstaklinga sem hafa varið þetta þjóðlífssvið og haldið því í landinu?

Árið 1984 flutti verksmiðjan Eimur sf. austur í Þorlákshöfn og byggði þar upp starfsemi sína. Verð á kolsýru hefur síðan farið lækkandi og mundi lækka verulega yrði verksmiðjan stækkuð, en ársnotkun er nú rúin 500 tonn í landinu. Einstaklingar hafa enn fremur stofnað fyrirtæki, Kolsýruvinnsluna hf., sem reisa mun verksmiðju við borholu að Hæðarenda í Grímsnesi og mun ætla að selja sína framleiðslu til garðyrkjubænda, en sá markaður er hvað stærstur í huga Sjóefnavinnslunnar. Ég vek athygli ráðherrans á því að stærstu notendur, gosdrykkjagerðirnar, munu fyrst og fremst spyrja eftir gæðum vörunnar. Kolsýran til blöndunar í gosdrykki verður að vera hrein og ómenguð. Margt bendir til að Sjóefnavinnslan ráði ekki við ýmis tæknileg atriði á því sviði svo að öruggt sé. Þau 16 ár sem Eimur hefur starfað hefur það aldrei komið fyrir að óhrein kolsýra hafi farið til viðskiptavina.

Ég vil að lokum enn og aftur minna hæstv. iðnrh. á að ríkið er að leggja tugi ef ekki hundruð milljóna af peningum almennings til að knésetja fyrirtæki í eigu einstaklinga, fer í skjóli laga í að stofna til rekstrar á sviði sem er fyrir í landinu. Hæstv. fyrrv. iðnrh. mun hafa ætlað að stöðva a.m.k. þennan þátt Sjóefnavinnslunnar.