11.11.1986
Sameinað þing: 14. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 733 í B-deild Alþingistíðinda. (592)

45. mál, umsóknir um húsnæðislán

Félagsmálaráðherra (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Vegna athugasemda hv. fyrirspyrjanda þóttist ég skilgreina það að samtals voru 3100 umsóknir sem bárust stofnuninni. Þar af voru umsóknir um kaup á notuðu húsnæði 2400 sem þýðir að umsóknir um nýbyggingar eru 700 talsins.

Í sambandi við þetta mál tók ég fram að að sjálfsögðu segja þessar upplýsingar ekki allt um það sem verið er að vinna úr. Það er fyrst og fremst verið að koma þessu inn á nýtt tölvukerfi í stofnuninni sem tekur sinn tíma og það verður að sjálfsögðu hægt að greina frekar frá hvernig þessar umsóknir koma til með að verða meðhöndlaðar, þ.e. hvernig lánsréttur er o.s.frv., strax þegar þessari tölvusetningu er lokið og það skal ekki standa á ráðherra að gefa þær upplýsingar hingað inn á Alþingi um leið og stofnunin er fær um að láta þær frá sér. Ég vil benda hv. alþm. á það að hér er alveg um nýtt form að ræða og það hlýtur að vera eðlilegt að það taki nokkurn tíma hjá stofnuninni að vinna úr því þannig að það sé hægt að gefa tæmandi upplýsingar og þær lágu alls ekki fyrir þegar fsp. var borin fram en úr því verður örugglega bætt.