12.11.1986
Efri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 786 í B-deild Alþingistíðinda. (669)

119. mál, umferðarlög

Landbúnaðarráðherra (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. alþm. fyrir góðar undirtektir við þetta frv. og þann áhuga sem kemur fram hjá þeim á að unnt verði að afgreiða málið á þessu þingi. Ég mun að sjálfsögðu ræða við þá aðila sem þar hafa áhrif á, nefndir beggja deilda og þingflokka og reyna að koma því þannig fyrir að vinnubrögð verði með þeim hætti að slíkt markmið megi nást.

En vegna spurningar hv. 8. landsk. þm. um mitt viðhorf til skráningar ökutækja minnir mig að ég hafi látið það koma fram á síðasta þingi að mér sýnist vera það mikið hagræði við breytingar þar á og þau rök séu svo þung á metunum að það hljóti að verða þar breyting. Það eru orðin svo ólík vinnubrögð nú frá því sem var þegar upphaflega var farið að skrá bifreiðar hér á landi að það hlýtur að vera eðlilegt að eitthvað þurfi að breyta því kerfi. Og það má ekki standa í vegi fyrir því þó að eitthvað hafi verið tekið upp snemma á öldinni öðruvísi en æskilegt er talið nú. Hitt er hins vegar alveg ljóst að þó að frv. verði að lögum a þessu þingi verður undirbúningur reglugerða ekki kominn svo langt að það verði hægt að gefa þær út fyrr en þessu kjörtímabili lýkur þannig að það verður óvíst hver þá muni undirrita þær.