12.11.1986
Neðri deild: 11. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 818 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

137. mál, verðlag, samkeppnishömlur og órettmætir viðskiptahættir

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. 4. þm. Reykv. fyrir efnislegar undirtektir þó að hann hefði vissa fyrirvara á um stuðning við það tiltekna fyrirkomulag sem hér er lagt til. Ég get út af fyrir sig vel skilið að mönnum sé það nokkuð ný hugsun að setja ítarlegar reglur af þessu tagi. Það er ofur eðlilegt að menn velti fyrir sér í því sambandi bæði framkvæmd og kostnaðarhlið þess máls, þ.e. hvort það sé í raun nægjanlega auðvelt í framkvæmd og eins hvort það kæmi ekki til með að kosta of mikið að vera með slíka ítarlega upplýsingamiðlun til neytenda á öllum stigum í vörusölu. En ég bendi á móti á að náist sæmilega stöðugt verðlag yfir höfuð í einu þjóðfélagi mundu slíkar reglur draga mjög úr löngun manna til að hringla með vöruverð. Menn gæfu sér þá væntanlega svigrúm til að geta haft vöruverð fast yfir lengri tímabil og hækkuðu það þá meira í senn til að vera ekki sífellt að breyta því. Held ég að það markmið væri í sjálfu sér mjög æskilegt, þ.e. ná því fram að vöruverð væri stöðugra yfir lengri tímabil á tilteknum tegundum og vörum, því að það er án efa eitt af því sem ruglar verðskyn almennings hvað mest hversu tíðar vöruverðsbreytingarnar eru. Það væri þar af leiðandi mjög æskilegt út frá ýmsum öðrum sjónarmiðum að ná fram meiri stöðugleika og að verðbreytingar væru ekki eins örar.

Ég tek einnig undir það sem hann sagði um þann misbrest sem er á um framkvæmd laga og reglna um verðmerkingar. Mér er vel kunnugt um að þar er mikill misbrestur á, bæði vegna þess að ekki er farið eftir þeim reglum sem í gildi eru í verslunum og eins, tel ég vera, vegna hins að Verðlagsstofnun og verðlagsyfirvöld nýta sér ekki heimildir í lögum til að hafa eftirlit og til að fylgja fram lögunum í þessum efnum, eins og ég hef þegar bent á t.d. hvað varðar viðskipti með afborgunarskilmálum þar sem í lögum eru ótvíræðar heimildir Verðlagsstofnunar til að setja reglur og hafa eftirlit sem ekki eru nýttar sem skyldi. Það er vissulega alvarlegt ef satt er að þess finnist dæmi að allt að 70% af vörum í tilteknum verslunum séu ekki verðmerktar eins og reglur gera ráð fyrir.

Ég tek einnig undir að það kemur í hugann að kannske væru tvær leiðir, fyrir utan þá, sem alltaf er fyrir hendi, að reyna að efla verðskyn almennings og hafa það virkasta og beinasta verðlagsaðhald í gegnum það sem til er. Kemur þá sérstaklega til álita í þessum efnum að efla starfsemi samtaka á vegum neytenda sem sjálfstætt og óháð geta haft verulegu hlutverki að gegna og gera það víða í nálægum löndum og einnig að efla Verðlagsstofnun þó að mér liggi e.t.v. við að orða það, með leyfi herra forseta, þannig að þá þurfum við að stappa stálinu í Verðlagsstofnun m.a. til að nýta sér þau lög sem þegar eru í gildi til að hafa eftirlit með verðlagi.