16.10.1986
Sameinað þing: 4. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 127 í B-deild Alþingistíðinda. (80)

Stefnuræða forsætisráðherra

Ólafur G. Einarsson:

Herra forseti. Góðir áheyrendur. Á s.l. vori, þegar kjörtímabilið var liðlega hálfnað, fóru að venju fram almennar stjórnmálaumræður hér á Alþingi. Í þeim umræðum reyndi ég að meta hvað áunnist hefði í samstarfi Sjálfstfl. og Framsfl. Niðurstaða mín var að mjög margt hefði áunnist þrátt fyrir að ýmis mál hefðu tekið lengri tíma en ætlað var í fyrstu. Ég þarf ekki að endurtaka það sem ég sagði þá, en áhrif þeirrar lagasetningar, sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir á fyrri hluta kjörtímabilsins, eru að koma æ sterkar í ljós.

Frjáls verðmyndun var komin til framkvæmda á öllum almennum verslunarvörum nema landbúnaðarvörum. Sú breyting leiddi sannanlega til verðlækkunar á mörgum vörutegundum og þegar á heildina er litið höfðu vörur með frjálsri verðmyndun hækkað minna en almennt verðlag. Dregið var úr hömlum á gjaldeyrisviðskiptum, útflutningur iðnaðarvara ekki lengur háður leyfum ráðuneytis. Sjóðakerfi sjávarútvegs og iðnaðar hefur verið endurskipulagt og einfaldað. Úttekt hefur farið fram á rekstri og hagkvæmni ríkisfyrirtækja sem leitt hefur til stórfellds sparnaðar. Ríkisfyrirtæki hafa verið endurskipulögð og sum seld og færð í hendur einstaklinga og félaga.

Hækkun ellilífeyris og annarra bóta hefur komið til framkvæmda jafnskjótt og launataxtar hafa hækkað og jafnan hefur hækkunin verið meiri en hækkun launataxta. Tekjutrygging er u.þ.b. tvöfaldur lífeyrir. Með breyttum lögum hefur núverandi ríkisstjórn stuðlað að því að verulega hefur fjölgað þeim lífeyrisþegum sem tekjutryggingar njóta. Aldrei hefur hærra hlutfall af þjóðartekjum farið til almannatrygginga en nú. Samt er í síbylju klifað á því að ríkisstjórnin níðist á öldruðum og öryrkjum og reynt að koma þeirri skömm sérstaklega á Sjálfstfl. sem hefur þó haft forustu um þessar úrbætur allar. Ég fullyrði í þessu sambandi að sjónarmið Sjálfstfl. í velferðarmálum eru mannúðlegri en annarra flokka sem vilja að ríkið sjái um allt. „Það sem allir annast, það annast enginn," sagði Sigurður Nordal.

Sjálfstfl. vill auka einkaframtakið á sviði sjúkraþjónustu, barnagæslu, skólamála og á ýmsum fleiri sviðum sem heyra undir ríkið eða sveitarfélögin. Þetta viljum við ekki gera til að leggja niður opinbera þjónustu við einstaklinginn heldur til að blása lífi í velferðina og auka áhrif venjulegs fólks. Í stuttu máli: Að auka persónulega velferð fólks.

Þeir sem starfa í þágu hins opinbera eru auðvitað venjulegt fólk sem finnur fyrir skattbyrðinni eins og aðrir. Þetta fólk má ekki ætla að verið sé að eyðileggja verðmæti sem aldrei verði bætt ef hluti starfseminnar er opnaður fyrir einkaframtaki og samkeppni.

Herra forseti. Fyrir rúmu ári lét ég þau orð falla í þinginu að framtíð ríkisstjórnarinnar ylti á því hvernig færi um þá margháttuðu löggjöf sem þá var til meðferðar í þinginu en hafði ekki náð fram að ganga. Þar átti ég við frumvörp um Byggðastofnun, Framkvæmdasjóð og Þróunarfélag, um viðskiptabanka og sparisjóði, Framleiðsluráð landbúnaðarins og ný útvarpslög. Öll þessi mál hafa náð fram að ganga þrátt fyrir mikla andstöðu hér í þinginu. Með afgreiðslu þeirra var tryggt að ríkisstjórnin sæti til loka kjörtímabilsins. Enn eru þó nokkur viðamikil mál óafgreidd. Þar nefni ég sérstaklega nýskipan fjárfestingarsjóða, virðisaukaskatt, tollalög og vonandi breytta tekjuskattslöggjöf. Þótt þetta sé eftir er það þó staðreynd að ríkisstjórnin hefur þegar komið á þeirri löggjöf sem hún lagði mesta áherslu á í upphafi kjörtímabils. En það sem þó best hefur tekist er árangur þessarar stjórnar í baráttunni við verðbólguna. Í þjóðhagsáætlun, sem lögð hefur verið fram á Alþingi, segir að landsframleiðsla fari vaxandi þriðja árið í röð. Tekjur heimilanna séu meiri en fyrr, atvinnuástand gott, árshraði verðbreytinga kominn niður undir 10% og mun að líkindum fara niður fyrir þá tölu um næstu áramót. Er nema mannlegt að stjórnarandstæðingar séu súrir og jafnvel stundum reiðir þegar þeir hafa þessar staðreyndir fyrir framan sig? En stórmannlegt er það ekki.

Ég efast ekki um að allan þann tíma sem þeir voru í stjórn, og þá reyndar alltaf með framsókn, vildu þeir ná verðbólgunni niður. Það gekk hins vegar aldrei vegna þess að athafnir þeirra voru ósamrýmanlegar því markmiði. Því fór sem fór. Og svo mun enn fara þegar og ef gerð verður enn ein tilraunin með vinstri stjórn hér á landi með eða án framsóknar.

Herra forseti. Ný útvarpslög voru sett á síðasta þingi. Þau tryggja það m.a. að ekki verður aftur skrúfað fyrir útvarp og sjónvarp þótt opinberir starfsmenn fari í verkfall. Til fróðleiks fyrir kjósendur tek ég nokkur sýnishorn af málflutningi mestu afturhaldsþingmannanna sem létu ljós sitt skína í umræðunum um útvarpslagafrv. Með leyfi hæstv. forseta: Stefán Valgeirsson í þingræðu 11. mars 1985:

„Ég held að ástandið í þjóðfélaginu sé heldur ekki þannig að ástæða sé til að leyfa mörgum nýjum útvarpsstöðvum og jafnvel sjónvarpsstöðvum að taka til starfa.“

Hjörleifur Guttormsson í þingræðu 17. október 1984: „Ríkisútvarpið er og verður áfram sameiningarafl í þjóðfélaginu. Frjáls fjölmiðill opinn öllum landsmönnum. Ekkert má gera sem teflir þessu hlutverki ríkisútvarpsins í hættu.“

Páll Pétursson hafnaði frv. með svofelldum orðum í þingræðu 13. maí 1985: „Hagsmunagæslan fyrir gróðaráðherrana hefur nú keyrt langt úr hófi.“

Kvennalistinn var hvað harðastur í afstöðu sinni. Sigríður Dúna Kristmundsdóttir í þingræðu 17. okt. 1984: „Í stefnuskrá Samtaka um kvennalista er tekinn sérstaklega fram stuðningur við þá hugmynd að einkarétti Ríkisútvarpsins verði við haldið.“

Svo mörg voru þau orð. Menn leggi þau á minnið og hverjir mæltu þau.

Sú gróska sem nú er í fjölmiðlum á Íslandi er tilkomin vegna frelsisins. Sjálfstfl. stóð heill og óskiptur með frelsinu. Þar er hans staður jafnt í þessu máli sem öðrum.

Herra forseti. Sá árangur í efnahagsmálum sem ég áðan lýsti hefur náðst af þremur ástæðum: Vegna hagstæðra ytri skilyrða, vegna samræmdrar efnahagsstefnu og vegna kjarasáttmála ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins. Stjórnarandstæðingar hafa reynt eftir mætti að gera lítið úr þætti ríkisstjórnarinnar í þessum kjarasáttmála; sagt að valdið hafi verið flutt frá Alþingi og ríkisstjórn upp í Garðastræti. Hið rétta er að þetta er í fyrsta sinn í óralangan tíma sem samið er í samræmi við efnahagsstefnu ríkisstjórnar en hún ekki sprengd í loft upp sem oftast áður. Þetta er ein skýringin á geðvonsku sumra Alþýðubandalagsmanna. Þeim tókst ekki að eyðileggja þann árangur sem náðst hafði í verðbólgubaráttunni.

Þessari efnahagsstefnu hefur fylgt aukin framleiðsla og vaxandi umsvif í þjóðarbúskapnum og gott atvinnuástand. Einu tímabilin sem einhver árangur hefur orðið í efnahagsmálum frá því verðbólgubrjálæðið hófst með vinstri stjórninni 1971 eru árin 1974 til 1978 og svo nú á þessu kjörtímabili. Þetta eru árin sem Sjálfstfl. hefur verið í stjórn. Nú geta menn velt fyrir sér hvers vegna svo hörmulega hefur tekist til á vinstristjórnarárunum. Fáum við e.t.v. skýringar við þessa umræðu. Það væri um leið verðmæt vitneskja fyrir kjósendur hvort þeir flokkar sem útiloka vilja Sjálfstfl. frá stjórnarstörfum hafi fundið nýjar leiðir til að blekkja kjósendur til fylgis við sig. Og meðal annarra orða, hefur e.t.v. verið samið nú þegar um næstu stjórn? Jón Baldvin hefur stigið í vinstri vænginn upp á síðkastið. Svavar Gestsson telur samvinnu við Sjálfstfl. útilokaða og Páll Pétursson mun ekki mæla með áframhaldandi samstarfi við Sjálfstfl. Ég hef hérna blaðaúrklippur þessu til staðfestingar.

Kjósendur eiga að læra af reynslunni. Við þessu vinstra brölti eiga þeir aðeins eitt svar. Það er að efla svo Sjálfstfl. að engin stjórn verði mynduð í þessu landi án hans forustu. Það er jafnframt hin eina trygging fyrir frelsi og framförum. - Góðar stundir.