18.11.1986
Sameinað þing: 18. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

154. mál, afnám einokunar ríkisins á innflutningi áfengis

Helgi Seljan:

Herra forseti. Aðeins örfá orð þó ég viðurkenni að hér sé um mál að ræða sem þarfnast mikillar umræðu og snertir vitanlega áfengislög okkar í heild og áfengismálastefnu okkar í heild.

Ég vil fyrst þakka hv. flm. þessarar till. fyrir hreinskilna ræðu áðan. Það er óvenjulegt að heyra jafnmikla hreinskilni og hér kom fram varðandi hina svokölluðu frjálshyggju. Hér var hún sögð umbúðalaust og ekkert dregið af, en hv. flokkssystkin hennar hér á Alþingi vefja þetta gjarnan í fallegar umbúðir eða vilja þá jafnvel ekki viðurkenna að nein frjálshyggja sé á ferðinni hjá þeim. Það er full ástæða til að þakka fólki í hvert skipti sem það kemur til dyranna eins og það er klætt, en vefur sig ekki innan í einhverjar flíkur sem eiga að fela innrætið eins vel og unnt er.

Þetta var að vísu sérkapítuli. Auðvitað getum við alltaf deilt um það endalaust á Alþingi hversu mikil ríkisafskipti skuli vera í heild sinni og að hversu miklu leyti markaðurinn skuli ráða og ekki ætla ég að fara út í þá umræðu hér. Það er vissulega ýmislegt sem þarf að athuga varðandi það fyrirkomulag sem er á sölu áfengis hér á landi og snertir bæði innflutning umboðssalanna, það fyrirkomulag sem er varðandi umboðssalana, sem eru á sínum stað með sína þóknun og sín umboðslaun þrátt fyrir að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sé með þessa verslun. Auðvitað má segja að síst ætti maður að mæla því bót að ríkið sem slíkt fari með sölu á þessari vöru sem maður telur að sé ógæfuvaldur í þjóðfélaginu, eins og hv. síðasti ræðumaður kom inn á og benti réttilega á og vildi greinilega fara miklu gætilegar í sakirnar varðandi þessi mál en flokkssystir hans. Í raun og veru kom mér ræða hans á óvart fyrir það hvað hann vildi fara varlega í sakirnar því hingað til hefur hann farið nokkuð geyst í þessum ræðustól varðandi áfengismál og ekki sýnt mikla varkárni í þeim efnum. Nú var varkárni á hverju strái. Ég vona að það hafi ekki verið beinir hagsmunir ríkissjóðs sem hafa haldið fyrir honum vöku sem varaformanni Sjálfstfl.

En það situr síst á mér að mæla yfirleitt með einu eða neinu sérstöku fyrirkomulagi á sölu þessa varnings. Hins vegar verð ég að segja að miðað við þann mikla kostnað sem ríkið hefur af völdum áfengis, þann stórkostlega kostnað sem ríkið hefur þar af, er

það kannske einlægast, úr því að menn eru með þetta á annað borð, að það sé þá með þann „gróða“ í huga sem af þessu kann að vera.

Hins vegar held ég að það þurfi að gera heildarúttekt á öllu þessu, bæði innflutningi og sölufyrirkomulagi. Það þarf einnig - við eigum að taka okkur tíma í það og gera það einhvern tímann í alvöru - að skoða gróðahliðina og kostnaðarhliðina í þessu efni því það er gjarnan bent á hversu mikill gróði ríkissjóðs sé af sölu áfengis en hinu er hins vegar gleymt hversu gífurlegur beinn kostnaður er af þessu fyrir utan þann mannlega harmleik sem við horfum oft upp á af þess völdum.

Því verð ég að segja að af tvennu illu vil ég þó heldur að ríkið sé með þetta en að einstaklingar fari út í þetta og hirði enn meiri „gróða“ af þessu. Síðan verði í framhaldi af því öllu sleppt lausu enn meira en nú er. Það er sá ótti sem ég ber í brjósti varðandi það ef slíkt fyrirkomulag yrði tekið upp.