20.11.1986
Sameinað þing: 19. fundur, 109. löggjafarþing.
Sjá dálk 1043 í B-deild Alþingistíðinda. (901)

Ákvörðun um fullvirðisrétt

Vigfús B. Jónsson:

Herra forseti. Mér finnst það fullrótgróinn siður hér á landi að ef illa gengur þarf endilega að hengja einhvern og þá ekki alltaf um það skeytt hvort það er bakarinn eða smiðurinn sem er hengdur. Mér finnst umræðan um þetta vandamál, bæði hér á Alþingi og úti um land á fundum, hafa farið of mikið í það að leita að sökudólgum og ásaka aðra. Við leysum engin vandamál með því. Við erum sammála um að hér er vandamál sem þarf að leysa. Við erum að berjast við kjötfjall sem er gríðarstórt. En ég vil vekja athygli á því að þetta kjötfjall er ekki bara úr lambakjöti. Þrátt fyrir að við bændur höfum fækkað fénu mjög, milli 20 og 30% á fáum árum, minnkar ekki fjallið. Samt beina menn geirunum nær eingöngu að sauðkindinni, þessari líka voðaskepnu sem á lífið í íslensku þjóðinni.

Það er ekki sama hvernig við komumst frá vandamálinu. Ég álít að þau lög sem sett voru um verðlagningu og sölu landbúnaðarafurða 1985 séu að því leyti gölluð m.a. að sá aðlögunartími sem bændum er ætlaður til búháttabreytinga er of stuttur. Það þarf enginn að segja mér að það sé hægt að breyta aldagömlum framleiðsluháttum á jafnstuttum tíma og lögin gera ráð fyrir. Ég er ekki með patentlausn á þessu máli; en ég held að það sem við verðum að gera sé að lengja umþóttunartímann í tíu ár, lengja hann um helming. Það kostar okkur auðvitað eitthvað. En ég held að hitt væri dýrara. Ef nú heldur sem horfir held ég að lausnin verði engin. Það bara skeður að vandamálið flyst til í þjóðfélaginu. Og hvert ætli það fari? Það fer beint inn á vinnumarkaðinn. Hvert á fólk að fara sem á ekki lífvænt í sveitunum lengur?

Ég tek undir orð Friðjóns Þórðarsonar. Mér finnst tími til kominn að menn fái hér viðunandi ræðutíma og menn ræði þetta af sanngirni. Þetta er ekki bara vandamál bændanna. Þetta er vandamál allrar þjóðarinnar. Við erum ein þjóð í þessu landi og við verðum að hafa tilfinningu fyrir því.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja þetta meira. Tíminn er hvort sem er svo stuttur að maður gerir þessu máli engin viðunandi skil.