15.10.1987
Sameinað þing: 3. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 142 í B-deild Alþingistíðinda. (101)

Síðustu efnahagsákvarðanir ríkisstjórnarinnar

Hreggviður Jónsson:

Hæstv. forseti. Það er ekki að ástæðulausu sem þessi utandagskrárumræða hefur verið hafin hér í dag. Fjárlagafrv. ríkisstjórnarinnar hefur verið lagt fram eins og alþjóð veit. Þar er boðuð ný stefna sem sérstaklega er beint að hinum launalægstu, þeim sem hafa það lakast, þeim sem hafa minnstar tekjurnar og síst skyldi ráðist á. Söluskatturinn á matvæli þýðir hjá fjögurra manna fjölskyldu að skatturinn er nálægt því að vera heil mánaðarlaun þeirra sem lægstu launin hafa og þau eru aðeins tekin af matvælum einum saman á einu ári. Og nú í dag er að koma inn um bréfalúguna bifreiðaskattur sem er lagður á þann mikla fjölda bifreiða sem ef til vill efnalítið fólk hefur keypt sér í þeirri von að það gæti rekið bíl. Hæstv. forseti. Ég spyr: Er þetta refsing Alþfl. til launafólksins í landinu?

Íslenska þjóðin er í vanda stödd. Stöðugir erfiðleikar í áratugi hafa sett mark sitt á íslenskt efnahagslíf. Þjóðarbúið hefur margsinnis orðið fyrir alvarlegum áföllum. Góðæri hafa verið illa notuð og ómarkviss stjórn þjóðfélagsins hefur leitt til þess gífurlega vanda sem nú er staðið frammi fyrir. Síðustu mánuðir síðustu ríkisstjórnar og þeir fyrstu hjá núv. ríkisstjórn munu reynast þjóðinni dýrir. Sá árangur sem náðist með eins konar þjóðarsátt í efnahagsmálum hefur nú glatast og nú situr ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar með alþýðuflokksformanninum hæstv. fjmrh. ásamt helsta efnahagssérfræðingi íslenskra stjórnvalda, hæstv. viðskrh. og dómsmrh., og útbýr nýja skatta á alþýðu landsins. Árás Alþfl. á launafólk mun ekki gleymast. Sú lausn ríkisstjórnarinnar að skattleggja þjóðina ber vott um skammsýni. Sú lausn mun þegar til lengri tíma er litið leiða til minnkandi áhuga þjóðarinnar til athafna. Ríkisstjórn Íslands er að gefa þjóðinni deyfilyf.

Þá fyrst mun taka steininn úr í skattheimtu á næsta ári þegar staðgreiðslukerfið tekur gildi. Það verður ekki glæsilegt ástandið á alþýðuheimilunum fyrstu mánuði næsta árs þegar staðgreiðslukerfið kemst í fullan gang samhliða því að innheimt verða fasteignagjöld og innheimta tryggingagjalda hefst.

Það er ljóst að mikill innflutningur þessa árs mun knýja fram gengisfellingu innan fárra mánaða. Fram hjá þessari staðreynd verður ekki litið. Það er einnig ljóst að með síðustu aðgerðum ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum er hún að brjóta kjarasamningana og jafnframt að kalla yfir sig ófrið á vinnumarkaðnum. Og það verður að teljast dæmalaust að nokkur ríkisstjórn lýsi nánast stríði á hendur launþegum. Og það sem meira er, að Þorsteinn Pálsson hamrar í síbylju á fastgengisstefnu að því er virðist án nokkurs tilgangs nema vegna þess að hann hefur fullyrt að tilgangslaust væri fyrir aðila vinnumarkaðarins að biðja um gengisfellingu. Það mætti halda að aðilar vinnumarkaðarins hefðu ráðið óstjórninni í efnahagsmálum þjóðarinnar síðustu mánuði. Því fer fjarri því að á vinnumarkaðnum hefur verið tiltölulega friðsamt á þessu tímabili.

Það er marklaust hjal hjá ríkisstjórn Íslands að setja fram rekstrarafgang í fjárlögum. Það er álíka gáfulegt og þegar fjmrh. Alþfl. fyrir nokkrum árum frestaði flestum greiðslum ríkissjóðs um tiltekin mánaðamót og stærði sig svo af í fjölmiðlum að greiðslustaðan væri góð. Nei, þetta er ólánssöm ríkisstjórn og lánlaus þjóð að eiga slíka stjórn. Aðgerðir hennar eru slíkar að engu er líkara en kerfisbundið sé unnið að því að vinna allt til óhagræðis fyrir þjóðina. Það er slæmt, jafnvel þó um andstæðinga sé að ræða, því framtíðarhagur þjóðarinnar er í veði.

Það sem er verið að gera og það sem verður að gera er að leita samstarfs við aðila vinnumarkaðarins um nýja þjóðarsátt. Það verður að minnka beina skattheimtu en taka í þess stað upp neysluskatta. Það verður að stuðla að meiri framleiðni í öllum atvinnugreinum og örva einstaklinga í þjóðfélaginu til athafna því að einungis á þann veg verður mögulegt að endurreisa efnahagslífið. Ef þegnarnir bregðast við á þann veg að þeir sjá ekki tilgang í því að berjast og bera sanngjarna umbun úr býtum mun illa fara. Það þarf að berjast um á hæl og hnakka, en ríkisstjórnin gerir rangt með því að segja þjóðinni stríð á hendur. Það verður því að ná þjóðarsátt, en því miður sýnist ríkisstjórnin reyna allt annað en það. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa hér á eftir úr þjóðhagsáætlun fyrir árið 1988, úr forsendum fjárlagafrv. 1988. Í þjóðhagsspá stendur:

„Mikið góðæri hefur ríkt í íslenskum þjóðarbúskap á þessu ári. Framleiðsla hefur farið vaxandi og stefnir jafnvel í meiri hagvöxt í ár en í fyrra sem þó var einstaklega gott ár. Þjóðartekjur hafa aukist enn meira en landsframleiðsla vegna batnandi viðskiptakjara.“

Þá segir enn fremur: „Á hinn bóginn hefur sigið á ógæfuhliðina varðandi verðbólgu og viðskiptahalla. Verðbólgan frá upphafi til loka árs stefnir nú í 25% samanborið við 13% í fyrra, en það var minnsta verðbólga hér á landi á heilu ári í hálfan annan áratug.“

Og í athugasemdum með fjárlögum 1988 segir: „Til þess að koma í veg fyrir að hagvaxtarskeiðið snerist upp í ofþenslu, verðbólgu og viðskiptahalla hefði þurft að grípa til strangra aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum og peningamálum þegar í upphafi ársins 1987. Sú staðreynd að ekki var gripið til aðgerða fyrr en með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar eftir mitt árið veldur því að vandinn sem við er að fást er verri viðureignar og kallar á stórtækari aðgerðir en ella hefði verið nauðsynlegt.“

Hæstv. forseti. Ég spyr: Áfellisdómur á hvern og hverja er þetta? Af hverju hafa fjölmiðlarnir ekki yfir höfuð fjallað um þetta mál? Hvar er þessi vandaða, ábyrga, hlutlausa umfjöllun fjölmiðlanna nú eða eru þeir múlbundnir gömlu flokkunum? Í mesta góðæri sögunnar, mesta afla, með besta verð fyrir hann, lágt olíuverð, hagstætt gengi, stuðning aðila vinnumarkaðarins og stuðning fjölmiðla hefur alger óstjórn ríkt í fjármálum þjóðarinnar. Þetta er álit núverandi ríkisstjórnar á verkum ríkisstjórnarinnar á þessu ári. Þetta er skjalfest í þeim þskj. sem hér hafa verið lögð fram.

Borgarafl. fordæmir árás ríkisstjórnarinnar á láglaunafólkið og landsbyggðina, þessarar skattpíningarstjórnar, sem er að refsa almenningi fyrir óstjórn ríkisstjórnarinnar í fjarmálum 1987, og þetta er einnig álit ríkisstjórnarinnar sjálfrar.

Hæstv. forseti. Við í Borgarafl. erum sammála áliti núv. stjórnarflokka á sjálfum sér. Það hefur verið óstjórn í fjármálum þjóðarinnar og ég spyr: Hvernig eiga þeir menn að stjórna landinu sem geta ekki stjórnað sjálfum sér?