03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1425 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

87. mál, orkusala erlendis

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Á þskj. 91 hef ég borið fram svohljóðandi fsp. til iðnrh. varðandi orkusölu erlendis:

„1. Hvað hefur verið gert af hálfu ráðuneytisins eða stofnana, sem undir það heyra, til þess að fylgjast með möguleikum á orkusölu erlendis?

2. Eru fyrirhugaðar sérstakar athuganir á þessu máli á næstunni?"

Það hefur alloft á undanförnum árum verið rætt um möguleika okkar á orkusölu til útlanda. Möguleikar á því að senda raforku frá Íslandi um streng til Vestur-Evrópu voru kannaðar á 8. áratugnum og í byrjun þess 9. án þess þó að gefa ótvíræða niðurstöðu um að slíkur orkuflutningur væri hagkvæmur. Þessi umræða um orkusölu erlendis hefur yfirleitt verið í tengslum við framtíðaráform okkar í orkumálum, en við ráðum eins og kunnugt er yfir miklum auði í vatnsorku þó á ýmsu hafi gengið um nýtingu orkunnar og e.t.v. hafi stundum verið farið meira af kappi en forsjá. Umræður um orkusölu til útlanda á síðustu vikum komu upp í byrjun nóv. og hófust með frétt sem birtist í dagblaðinu Tímanum á þeim tíma um að enska fyrirtækið North Venture hafi sýnt íslensku rafmagni áhuga og lagningu sæstrengs um Færeyjar til Skotlands.

Hér skal að sjálfsögðu ekki lagður neinn dómur á þessa frétt og þessi áform. Satt að segja voru umræður um það magn sem selt skyldi dálítið stórkostlegar og fyrstu áformin uppi í skýjunum. Það skal undirstrikað að fyrirspyrjandi er ekki svo bjartsýnn að ætla það að við verðum ríkir af orkusölu til Færeyja og Bretlands á næstu árum. Eigi að síður finnst mér full ástæða til þess að færa þetta mál hér inn í þingsali og kaus að gera það í fyrirspurnarformi og fá þar með opinberar yfirlýsingar um það hjá þeim sem eiga að hafa forustu í þessum málum, frá iðnrh., hvernig hafi verið unnið að þessum málum í hans ráðuneyti á undanförnum árum og einnig hjá Landsvirkjun sem hefur sérstaklega með þessi mál að gera og hefur framkvæmt þær athuganir sem gerðar hafa verið, einnig að fá yfirlýsingar um það hvort sérstök áform séu uppi í náinni framtíð um sérstakar athuganir í ljósi þeirrar umræðu sem farið hefur fram um þessi mál að undanförnu.