03.12.1987
Sameinað þing: 25. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1436 í B-deild Alþingistíðinda. (1024)

134. mál, heildarendurskoðun erfðalaga

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa fsp. hv. 13. þm. Reykv. Ég vil upplýsa að heildarendurskoðun erfðalaga er ekki í undirbúningi hjá dómsmrn. sem stendur. Ég hlýddi hins vegar með athygli á þau rök sem fram voru færð fyrir nauðsyn á slíkri endurskoðun. Ég vil taka fram að nú stendur hins vegar yfir heildarendurskoðun laga nr. 20/1923, um réttindi og skyldur hjóna, og er gert ráð fyrir að nefnd, sem vinnur að því verkefni, muni skila álitsgerð sinni með vorinu.

Samkvæmt upplýsingum formanns nefndarinnar, en hann er Ármann Snævarr, fyrrv. hæstaréttardómari, er það m.a. eitt af markmiðum nefndarstarfsins að vinna að breytingu á þessum lögum einmitt í því skyni sem fram kom í fsp. hv. 13. þm. Reykv., að tryggja betur réttarstöðu langlífari maka í hjónabandi, einkum hvað varðar rétt til setu í óskiptu búi og fleiri slík atriði sem því tengjast.