09.12.1987
Efri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1656 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

40. mál, Útflutningsráð Íslands

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um breytingu á lögum nr. 38 frá 1. maí 1986, um Útflutningsráð Íslands, sem er á þskj. 40 eins og kom fram hjá hæstv. forseta. Þær breytingar sem í frv. felast eru eingöngu formlegs eðlis. Í tillögunni, sem frv. geymir, felst að færa forræði Útflutningsráðs frá viðskrn. til utanrrn., en að öðru leyti er engu efnislega breytt hvað varðar starfsemi ráðsins eða lögum um það efnislega.

Það má segja að efni frv. sé fjórþætt.

Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því að eftir samþykkt frv. taki utanrrh. eða stjórn Útflutningsráðs ákvörðun um hversu oft skuli halda almenna fundi ráðsins og utanrrh. eða sá sem hann tilnefnir boði þessa fundi og stjórni þeim.

Í öðru lagi skal utanrrh. skipa stjórn ráðsins samkvæmt tilnefningu þeirra sem eiga aðild að því. Viðskrh. mun eftir sem áður tilnefna fulltrúa í stjórn Útflutningsráðsins og viðskrn. þar með eiga að því aðild.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir að Útflutningsráði Íslands sé heimilt að ráða viðskiptafulltrúa til starfa í sendiráðum að höfðu samráði við utanrrn. eitt í stað þess, sem áður var, að samráð skyldi haft bæði við utanrrn. og viðskrn.

Loks miða breytingarnar í fjórða lagi að því að utanrrh. geti samkvæmt tillögum stjórnar ráðsins sett nánari ákvæði um skipulag þess og starfsemi og reglugerð um starfsemina, en sú heimild er nú í höndum viðskrh.

Allar þessar fjórar breytingar eru formlegs eðlis og breyta litlu sem engu um starfsemi ráðsins. Útflytjendur greiða mestan hluta kostnaðar við það, en það er auðvitað skylda stjórnvalda að sjá til þess að árangur af starfsemi ráðsins verði sem mestur og bestur. Það er efnisþáttur þessarar tillögugerðar að með því að tengja Útflutningsráðið beint við utanríkisþjónustuna megi þar tryggja betri nýtingu á starfskröftum, bæði hjá Útflutningsráðinu og utanríkisþjónustunni.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.