09.12.1987
Efri deild: 18. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

54. mál, útflutningsleyfi

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. um útflutningsleyfi o.fl. í fjarveru utanrrh. Eins og hér hefur komið fram er þetta frv. flutt á grundvelli samkomulags stjórnarflokkanna um að flytja útflutningsverslunina frá viðskrn. til utanrrn. Með því er stefnt að því að nýta utanríkisþjónustuna í ríkari mæli en áður hefur verið gert til að sinna viðskiptahagsmunum landsins.

Auðvitað hefur utanríkisþjónustan á hverjum tíma sinnt þessum hagsmunum sem eru að sjálfsögðu mikilvægustu hagsmunir okkar á sviði utanríkismála þar sem við erum háðari utanríkisviðskiptum en flestar aðrar þjóðir í heiminum. Það er því eðlilegt að lítið land sem okkar endurskipuleggi þessi mál í ljósi þeirra staðreynda og reyni að nýta þann mannafla sem við höfum yfir að ráða til að sinna okkar mikilvægustu hagsmunum.

Ég er með þessu ekki að gera lítið úr öðrum hagsmunum á sviði utanríkismála, sem að sjálfsögðu þarf að sinna, en ég tel mikilvægt að breyting eins og hér er gert ráð fyrir eigi sér stað.

Það frv. sem hér liggur fyrir, um útflutningsleyfi o.fl., er í sjálfu sér afleiðing þessarar breytingar þar sem í framhaldi af því þykir rétt að útflutningsleyfin varði skipulag útflutningsmálanna, hverjir fari með útflutningsverslunina, hvaða skilyrði eru sett til að stunda slík viðskipti og með hvaða hætti okkar útflutningshagsmunum er best komið. Þessi mál tengjast í mjög ríkum mæli þessari starfsemi, þ.e. leyfin sem slík, og því eðlilegt að þau séu á þeim stað í okkar stjórnskipulagi þar sem fjallað er um útflutningsverslunina.

Frv. er sem sagt afleiðing þessara breytinga, eðlileg afleiðing sem kemur fram í því einfalda og skýra frv. sem liggur fyrir.

Ég vil að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, leggja til að frv. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. og 2. umr.