20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í B-deild Alþingistíðinda. (124)

18. mál, viðskipti við Suður-Afríku

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram við hæstv. utanrrh. fsp. varðandi viðskipti við Suður-Afríku. Það mál hefur áður komið á dagskrá á hv. Alþingi, snemma á þinginu 1985–1986. Nánar tiltekið svaraði hæstv. þáv. utanrrh. Geir Hallgrímsson 22. okt. árið 1985 fsp. frá þeim sem hér talar varðandi viðskipti við Suður-Afríku og aðrar aðgerðir gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnunni þar.

Hæstv. þáv. utanrrh. vitnaði sérstaklega í aðild Íslands að sameiginlegum aðgerðum allra Norðurlanda sem eiga rætur að rekja allt aftur til ákvörðunar á árinu 1978, en sú ákvörðun hafði, þegar þessar tilvitnuðu umræður fóru fram í okt. 1985, nýlega verið ítrekuð, útvíkkuð og hert. Ákvörðunin gengur út á það að draga með skjótari hætti úr efnahagslegum sem og öðrum samskiptum við Suður-Afríku. Á þeim tíma voru einnig ræddir möguleikar á því að ganga lengra og setja algert viðskiptabann ef þessar ráðstafanir næðu ekki tilætluðum árangri.

Í skýrslum sínum til Alþingis bæði vorið 1986 og 1987 ítrekaði hæstv. þáv. utanrrh. Matthías Á. Mathiesen þessa samþykkt og áætlanir Norðurlandaþjóða um aðgerðir gegn kynþáttaaðskilnaðarstefnunni, m.a. þær að draga úr öllum efnahagslegum samskiptum við Suður-Afríku.

Fleiri aðilar hafa lagt hönd á plóginn, svo sem verkalýðsfélög og ýmis önnur félagasamtök, skólafólk, æskulýðsfylking Alþb. og félög fleira ungs fólks í stjórnmálaflokkunum og ýmsir aðrir hafa með áróðri og umfjöllun reynt að fá fram minni viðskipti og minni samskipti við Suður-Afríku til þess að þvinga stjórnvöld þar til að falla frá sinni ómanneskjulegu kynþáttaaðskilnaðarstefnu.

Það vekur því og vakti nokkra furðu mína, herra forseti, þegar ég rakst á það í Hagtíðindum, sem gefin eru út af hinni virðulegu Hagstofu Íslands, að á fyrri hluta þessa árs hafa viðskipti eða innflutningur vöru frá Suður-Afríku verið til muna meiri en hann var á sama tíma á síðasta ári. Ég hef því leyft mér í framhaldi af þessu að bera fram við hæstv. utanrrh. svofellda fsp. með leyfi þínu, herra forseti, á þskj. 18:

„1. Hvernig samrýmist það þeirri yfirlýstu stefnu íslenskra stjórnvalda að draga úr samskiptum við Suður-Afríku og taka þátt í samnorrænum aðgerðum af því tagi — að verslun með vörur frá Suðu-Afríku hefur stóraukist á fyrri hluta þessa árs?

2. Hyggst ríkisstjórnin í ljósi þessa grípa til sérstakra aðgerða, svo sem innflutningsbanns á suður-afrískar vörur?"