10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1739 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

145. mál, ólöglegur innflutningur myndbanda

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hv. 6. þm. Reykv. beinir til mín fsp. varðandi ólöglegan innflutning á myndböndum. Í fyrsta lagi er spurt hver orðið hafi málalok leitar sem dómsmrn. og lögreglan lét gera á myndbandaleigunum á höfuðborgarsvæðinu 22. des. 1986.

Því er til að svara að málalok eru enn ekki ljós orðin. Þessi mál eru öll á rannsóknarstigi eins og sagt er. Rannsókn þeirra er vel á veg komin. Ákvörðun um málshöfðun í flestum þessara mála bíður úrslita í opinberu máli sem stofnaðist við fyrri leit á myndbandaleigu og nú er til meðferðar í Hæstarétti, auk þess sem vitaskuld er beðið eftir niðurstöðum í rannsóknunum. Rannsókn á þessum málum beinist að tvenns konar brotum, þ.e. annars vegar hvort um hafi verið að ræða útleigu á grófum klám- og ofbeldismyndum, sbr. það mál sem hér var rætt næst á undan þessu, og hins vegar eru svo brot gegn höfundarréttarlögum með útleigu á ólöglega fjölfölduðum myndböndum.

Hér er að sjálfsögðu um tvö ákaflega mismunandi mál að ræða. Það að m.a. er beðið eftir úrslitum í opinbera málinu, sem ég nefndi áðan og er nú fyrir Hæstarétti, byggist einkum á því að í undirréttardómunum tveimur, sem áfrýjað var, var í öðru tilfellinu máli vísað frá dómi en í hinu tilfellinu var tildæmd refsing mjög lág. Ákæruvaldið telur sig greinilega þurfa skýrari línur frá dómstólunum og bíður því einkum dóms Hæstaréttar í síðarnefnda málinu, þ.e. þar sem hin tildæmda refsing var ákveðin mjög lág.

Ég þarf ekki að fjölyrða um það að hér er um nýtt málasvið að ræða þar sem línurnar eru ekki alls kostar skýrar og þá á ég við um höfundarréttinn og hvert hlutverk hins opinbera sé í málarekstri af því tagi. En út úr hinum væntanlega dómi Hæstaréttar má vonandi lesa einhvern skilning á því máli.

Í öðru lagi er svo spurt hversu mörg myndbönd lögreglan hafi tekið sem talið var að brytu í bága við lögin um höfundarrétt, hegningarlög eða lög um bann við ofbeldiskvikmyndum.

Svarið er að í Reykjavík var lagt hald á 6904 myndbönd þann 22. des. 1986 og svo í framhaldsleit þann 14. jan. 1987 var lagt hald enn á 2028 myndbönd. Af þessum myndböndum voru 278 tekin vegna þess að um var að ræða meint klám; 60 voru á bannlista Kvikmyndaeftirlitsins, 378 voru talin ólöglega fjölfaldað efni og 7624, þ.e. langflest, voru tekin vegna gruns um meint brot á höfundarréttarlögum. Lögreglan í Hafnarfirði lagði hald á 2236 myndbönd, lögreglan í Keflavík lagði hald á 1894 myndbönd og í Kópavogi var lagt hald á 1137 myndbönd. Þannig var í heild lagt hald á 14 199 myndbönd.

Í þriðja lagi var svo spurt hvort ég hygðist beita mér fyrir slíkri skyndileit aftur.

Í dómsmrn. hefur verið fjallað um það hvernig best sé að haga eftirliti með myndbandaleigum, og m.a. um þörfina fyrir að herða það, þar sem aftur sé farið að bera á ólöglegu efni í þessum leigum. Hefur m.a. verið rætt um þetta við lögreglustjórann í Reykjavík og það orðað að reglulegt eftirlit með myndbandaleigunum verði aukið, en eins og kom hér fram áðan í orðaskiptum hv. 6. þm. Reykv. og menntmrh., þá er það slíkt reglubundið eftirlit með innihaldinu, sem verið er að leigja, sem helst skiptir máli.

Ég tel ekki rétt að ræða þetta mál frekar á þessu stigi. Ég vil auðvitað ekki útiloka frekari leitir, sem einkum myndu þá beinast að því hvort verið væri að leigja grófar klám- eða ofbeldismyndir.

Í fjórða lagi er svo spurt hvaða aðrar aðgerðir ég hafi á prjónunum til að hefta ólöglegan innflutning myndbanda.

Því er til að svara varðandi þann hluta þessa máls sem er á verksviði míns ráðuneytis, þ.e. hvað varðar ólöglegan innflutning, að mestu máli skiptir að löggæslan sé virk og henni sé fylgt eftir með skjótri dómgæslu. Ég mun gera það sem í mínu valdi stendur til þess að hvort tveggja sé í lagi og myndbandaleigurnar fari að lögum, en hvað innflutninginn varðar er þar auðvitað um tollgæsluverkefni að ræða.