10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1752 í B-deild Alþingistíðinda. (1283)

164. mál, Löggildingarstofa ríkisins

Fyrirspyrjandi (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svör við fsp. minni. Vonandi verður rekstri Löggildingarstofu ríkisins þannig háttað að þessum ferðakostnaði, sem um var talað, verði jafnað út á verk og fullkomin hagræðing verði höfð í hennar verkum. Ef dæmið, sem ég nefndi í inngangsorðum, er óvenjulegt, þá er það vel og þá er væntanlega auðvelt að laga hlutina. Ég vil leggja áherslu á að það verði gert og þess verði gætt að þessi kostnaður komi sem jafnast niður og hef ég í sjálfu sér ekkert annað en gott um þá svæðaskiptingu að segja sem kom fram í svari við fsp. að ríkir hjá Löggildingarstofunni.

Hv. 4. þm. Vesturl. vék að taxta Löggildingarstofunnar almennt og að henni sé ætlað að standa undir rekstrarkostnaði sínum með hækkandi töxtum. Það eru í sjálfu sér e.t.v. tilfinnanleg útgjöld, en þó vil ég ekki leggja dóm á hvort taxtarnir eru á eftir tímanum eða hvort þeir eru eðlilegir miðað við núgildandi verðlag. Það var í sjálfu sér ekki efni fsp. minnar. Ég spurði aðeins um mismuninn á þeim ferðakostnaði sem um ræðir. Ég veit ekki hvort það er satt að segja rétt stefna að ríkið sé að niðurgreiða sjálft verkið við stillingu á verslunaráhöldum og fleiru og hafnarvogum líka. Ég er ekki sannfærður um að það sé rétt stefna og ætlaðist ekki til þess. En ég vil að þessi aukakostnaður komi réttlátt niður. Það var það sem var mergurinn málsins í því máli sem ég var að flytja.

Hitt er annað mál, sem menn geta deilt um endalaust og er reyndar miklu stærra mál en það sem fsp. gefur tilefni til, hvort ríkisfyrirtæki eigi að vera með taxta og selja út sína þjónustu eða hvort þeirra þjónusta á að vera niðurgreidd. Það er hægt að ræða það undir öðrum dagskrárliðum.