10.12.1987
Sameinað þing: 30. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (1286)

169. mál, atvinnuleyfi erlendra leiðsögumanna

Fyrirspyrjandi (Kristín Einarsdóttir):

Herra forseti. Á sl. árum hefur fjöldi erlendra ferðamanna hér á landi vaxið ört og er áætlað að á þessu ári séu þeir um 130 þús. Ef reiknað er með svipaðri aukningu næstu ár og undanfarin ár verður fjöldi erlendra ferðamanna hér á landi árið 1992 um það bil 260 þús. eða svipaður og íbúafjöldi landsins.

Stærsti hluti þeirra erlendu ferðamanna sem hingað koma ferðast í hópum skipulögðum af innlendum eða erlendum ferðaskrifstofum. Í fylgd með þessum hópum eru leiðsögumenn sem hafa mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Hlutverk leiðsögumanna er ekki eingöngu að vera til þjónustu við ferðamenn heldur er starf þeirra ekki síður mikilvægt varðandi náttúruvernd og umgengni við landið. Það er því mjög mikilvægt að þeir leiðsögumenn sem fara með hópa um landið hafi þekkingu á þeim lögum og reglum sem hér gilda.

Það hefur færst í vöxt undanfarið að með erlendum ferðahópum starfi eingöngu erlent starfsfólk, þar með taldir leiðsögumenn. Það er ástæða til að hafa áhyggjur af slíkri þróun og vara við þeirri þróun að ferðaþjónustunni verði stýrt erlendis frá með erlendu vinnuafli.

Sjötta náttúruverndarþing 1987 sá ástæðu til að lýsa undrun sinni og óánægju með hve slælega lögum nr. 26 frá 1982, um atvinnuréttindi útlendinga, væri framfylgt, en þar stendur í 3. gr., með leyfi forseta:

„Félmrh. veitir atvinnurekendum atvinnuleyfi fyrir útlendinga ef sérstakar ástæður þykja mæla með því, svo sem ef um erlenda sérfræðinga er að ræða eða aðra kunnáttumenn sem ekki verða fengnir innan lands eða ef atvinnuvegi landsins skortir vinnuafl sem ekki er fáanlegt innan lands.“

Jafnframt hefur Náttúruverndarþing margoft ályktað um nauðsyn íslenskra leiðsögumanna með erlendum ferðahópum um landið. Vegna þess að einhver misbrestur virðist hafa orðið á veitingu atvinnuleyfa fyrir erlenda leiðsögumenn sem starfa hér á landi og hve mikilvægt við teljum að haldið sé vel á þessum málum höfum við hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir leyft okkur að spyrja hæstv. félmrh. eftirfarandi spurninga sem eru á þskj. 183:

„1. Hvernig er háttað framkvæmd laganna um atvinnuréttindi útlendinga að því er varðar atvinnuleyfi fyrir erlenda leiðsögumenn á Íslandi?

2. Hvernig er gengið úr skugga um að erlendir leiðsögumenn, sem hér starfa, þekki lög og reglur sem gilda um umgengni við landið?"