20.10.1987
Sameinað þing: 5. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (135)

21. mál, staðgreiðsla opinberra gjalda fyrirtækja

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Staðgreiðsla opinberra gjalda hefur verið til umræðu og undirbúnings hjá öllum stjórnmálaflokkum og í kerfinu í fjöldamörg ár. Bæði drög og heilleg frv. hafa verið lögð fram og mikil vinna unnin á vegum ráðuneyta. Það var þó ekki fyrr en á síðasta þingi að fyrsta skrefið var stigið og samþykkt lög um staðgreiðslu opinberra gjalda einstaklinga sem taka eiga gildi um næstu áramót. Allir þingflokkar lýstu stuðningi við það mál, en gagnrýndu jafnframt harðlega flaustursleg vinnubrögð og slæman undirbúning málsins.

Tímans vegna er ekki hægt að rekja öll þau atriði sem þm. gagnrýndu þá, en flestum ætti að vera sú umræða í fersku minni. En eitt af því sem þm. stjórnarandstöðu gagnrýndu hvað mest var að þessi skattkerfisbreyting skyldi eingöngu ná til launamanna. Skattlagningu á fjármagnstekjur og fyrirtæki var frestað og því borið við að þar væri um svo flókið mál að ræða að meiri tíma þyrfti til að vinna það, en að því yrði unnið áfram og var helst að skilja að frv. um lagabreytingar í þá veru yrði tilbúið á haustdögum. Að vísu var erfitt um loforð á þeim tíma þar sem menn vissu ekki hver mundi fara með lyklavöld í fjmrn. næstu árin. Þau eru nú í höndum formanns Alþfl., en alþýðuflokksmenn voru einmitt ákafir gagnrýnendur þess hvernig staðið var að málum og ekki síst að eigendur fyrirtækja og fjármagns voru undanskildir. Í nál. fulltrúa Alþfl. í fjh.og viðskn. Nd., hv. þm. Kjartans Jóhannssonar, sagði m.a.:

„Ríkisstjórnin hefur einnig heykst á flutningi frv. um skattlagningu á fjármagns-, eigna- og hlunnindatekjur ásamt skattlagningu á fyrirtæki og því verður ekki hægt að flytja greiðslubyrði af launafólki yfir á herðar þeirra sem meira mega sín fjárhagslega í tíð þessarar ríkisstjórnar.“

Í nál. hv. þm. er raunar gert ráð fyrir heildarlöggjöf um skatta á eignir og eignatekjur og fyrirtæki á hausti komanda, eins og það er orðað, og síðan segir orðrétt, með leyfi forseta:

"Alþfl. ætlast til að þar megi auka tekjur ríkissjóðs um 400–500 millj. kr. og nota þá tekjuaukningu til að aflétta sköttum af almennum launatekjum. Það er heilbrigt sjónarmið í blönduðu hagkerfi að gera þá kröfu til eigenda fyrirtækja og fjármagns að umsvif þeirra skili arði sem nægi til að létta skattbyrði launþega þeirra.“

Það hefði því, herra forseti, mátt ætla að hæstv. fjmrh. sætti sig ekki við neinn seinagang í þessum efnum, en um það fáum við væntanlega að heyra í svari hans við fsp. minni á þskj. 21 sem hljóðar svo:

„Hvað líður undirbúningi lagafrv. um staðgreiðslu opinberra gjalda fyrirtækja og fjármagnseigenda?"