10.12.1987
Efri deild: 19. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1861 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

198. mál, tollalög

Júlíus Sólnes:

Herra forseti. Ég tók ekki tollskrána með mér í ræðustól svo þm. geta andað léttar. Ég ætla að gera hér örfáar athugasemdir við það tollafrv. sem hér hefur verið lagt fram. En áður en ég geri það vil ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðherrans í ræðu minni áðan, að ég fái upplýsingar um það hvað þurfi að leggja mikið vörugjald á öll tollnúmer, sama vörugjaldið, til þess að ná sömu tekjum og fyrirhugaðar eru með því að leggja einungis vörugjald á þá hluti sem eru til heimilanna. Óska ég eftir að fá svör við þessari spurningu.

Ég tek undir með hv. 7. þm. Reykv. að ég tel alveg fráleitt að ætla það að þingheimur afgreiði þetta tollalagafrv. fyrir hátíðar. Við höfum rétt aðeins getað gluggað í þetta mikla verk, jólabókina í ár, sem tók þrjá daga að prenta. Engu að síður höfum við séð ýmsa hluti þar sem betur mættu fara, en af eðlilegum orsökum getum við á þessari stundu ekki sagt mikið um sjálft frv.

Það er þó eitt sem ég hefði viljað vekja athygli á og benda hæstv. ráðherranum á að kanna og taka til athugunar á milli umræðna. Væri ekki athugandi að hverfa frá cif-tollun og fara yfir í fob-tollun? Okkur hefur verið refsað fyrir það Íslendingum að búa hér norður í Dumbshafi. Tollur er lagður ofan á flutningskostnað til landsins af fullum þunga og þannig skapast ýmislegt misrétti vegna þess að flutningskostnaður á vörum til Íslands er mjög mismunandi. Oft og tíðum er um að ræða að vörur sem væri ákaflega hagkvæmt að kaupa t.d. langt að, sem eru mjög ódýrar í innkaupi í fjarlægum löndum. Þær verða óþarflega dýrar þegar hingað er komið vegna þess að tollur er lagður ofan á flutningskostnað. Ég vil biðja hæstv. ráðherrann að taka þessa ábendingu til athugunar. Það er ekkert sem segir að við þurfum að hafa hér cif-tolla. Mig grunar að það þurfi ekki að hækka tolla, þ.e. tollana sjálfa, nema örlítið til þess að mæta því tekjutapi sem ríkissjóður yrði fyrir ef horfið yrði frá því að tolla flutningsgjöld, og tekin væri upp svokölluð fob-tollun.

Það er annað atriði sem ég mundi vilja sjá í þessu frv. sem hér hefur verið lagt fram í hv. deild. Meðan bandaríkjadollar er svona lágur í verði, eins og hann er þessa stundina, því þá ekki að hafa inni heimildir í tollalögum til þess að lækka tolla einhliða, við skulum segja á bandarískum vörum, því það er alveg ljóst að þessa stundina og þessi árin er hægt að gera geysilega hagkvæm innkaup á ýmiss konar iðnaðarvörum í Bandaríkjunum. En því miður eru tollar enn þá á þeim og reyndar vörugjald líka sem ekki er á hliðstæðum vörum t.d. frá Efnahagsbandalaginu og Fríverslunarbandalaginu. Það er að sjálfsögðu vegna þeirra samninga sem við höfum gert við bæði Fríverslunarbandalagið og Efnahagsbandalagið. En það er enginn sem mundi banna okkur að lækka tolla einhliða á bandarískum vörum ef okkur þætti það sjálfum hagkvæmt. Ég mundi óska eftir því að það yrði kannað hvort ekki væri ráðlegt að hafa slíka heimild inni í þessum lögum.

Ég sé í sjálfu sér ekki ástæðu til að fara að orðlengja um þetta tollalagafrv., til þess þurfum við stjórnarandstöðuþm. miklu, miklu meiri tíma til þess að geta kynnt okkur frv., þessa stóru og þykku bók. Svo ég læt máli mínu lokið að sinni.