10.12.1987
Neðri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1869 í B-deild Alþingistíðinda. (1365)

110. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég tel að það sé orðið brýnt að Alþingi Íslendinga taki afstöðu til þess máls hvernig haga beri lífeyrisgreiðslum til húsmæðra. Ég er hlynntur því meginmarkmiði, sem hér kemur fram, að það verði ríkið sem greiði iðgjaldið sem atvinnurekandi í þessu sambandi. Mér finnst einnig eðlilegt að vista þetta í Söfnunarsjóði lífeyrisréttinda.

Hin atriðin sem hér eru sett fram eru þess eðlis að þau vekja ýmsar spurningar. T.d. er það spurning hvort er hægt í lagatexta að binda það við einhver laun í frjálsum samningum sem ríkið veit náttúrlega ekkert um hvort gætu dottið út hvenær sem væri og taxtinn ekki verið til, hvort það hljóti ekki að vera eðlilegra að finna sér einhverja aðra viðmiðun sem annaðhvort er í launatöflum ríkisins eða einhverja enn aðra viðmiðun í því efni við hvaða stofn skuli miðað.

Einnig tel ég að þegar frá þessu máli er gengið hljóti það að vera skýlaust að það verði afgreitt á þann veg að þeir sem t.d. eru í 60% starfi hækkist upp eins og þeir sem eru undir hálfu starfi, að það fari ekki milli mála að það er verið að tala um það með þessu móti að lífeyrisréttindi kvenna, hvort sem þær vinna hálft starf, 60% úr starfi eða minna, verði hækkuð upp í að um fullt starf sé að ræða.

Ég held að það sé mjög brýnt að Alþingi Íslendinga taki afstöðu til þessa máls. Hvert ár sem líður mun auka á það misrétti sem er þó ærið fyrir í íslenska lífeyrissjóðakerfinu gagnvart þeim einstaklingum sem þar eru fyrir utan. Ég vænti þess að sú nefnd, sem fær þetta mál til vinnu, skili málinu til Alþingis til atkvæðagreiðslu hér í þingsal en láti það ekki velkjast í nefndinni svo lengi að ekki sé hægt að taka afstöðu til þess í báðum deildum þingsins.