10.12.1987
Neðri deild: 21. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1873 í B-deild Alþingistíðinda. (1369)

110. mál, lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er svo friðsælt núna í þingsölum að maður stenst ekki mátið að ræða málin í „ro og mag“ eins og sagt er. Það voru eiginlega orð hv. 13. þm. Reykv. sem urðu til þess að ég kvaddi mér hljóðs aftur. Hún hefur minnt tvisvar sinnum á að þessi mál eru ekki í fyrsta skipti í þingsölum og það var okkur vissulega ljóst, enda var umræða eigi alllítil hér í fyrra á síðasta þingi og okkar mál mun hafa verið með í þeim þingskjalabunka sem vísað var til ríkisstjórnarinnar til umfjöllunar með ósk um að tekið yrði á þessu máli. Engu að síður hefur síðan verið mynduð ný ríkisstjórn og við vitum öll að hún hefur nóg á sinni könnu og aldeilis ekki víst að hún fari ofan í allar skúffur strax á fyrsta ári. Við sáum ekki ástæðu til þess að hafast ekki að einungis vegna þess að við vissum af einhverjum pappírum í skúffum ráðherra og við vildum leggja áherslu á á hvern hátt Kvennalistinn vill láta leysa þessi mál.

Ég held að það hafi verið komið inn á það áðan með viðmiðunina og ég sé ekki að það sé til mikilla vandræða þó þarna hafi verið bent á ákveðinn launaflokk hjá Verkamannasambandinu. Það er hárrétt að það er búið að fella hann niður, en það er hægur vandinn að lagfæra það í nefnd eins og annað sem menn kunna að sjá athugavert við þetta.

Það voru enn fremur orð hv. 13. þm. Reykv. þar sem hún sagðist ekki skilja alveg stefnu Kvennalistans í þessu máli frekar en stundum áður. Hún minntist á þá hugmynd að launa húsmæður. Það er alveg hárrétt að kvennalistakonur sjá enga lausn í því máli að launa húsmóðurstörfin, þ.e. að launa aðeins þeim konum sem eru heima fyrir. Húsmóðurstörfin eru unnin á öllum heimilum hvort sem einhver er heima allan daginn og launalaus eða á vinnumarkaði og það væri mjög erfitt að taka á því máli á þann hátt að launa heimilisstörfin beint. Við höfum hins vegar viljað taka á því að konur, í langflestum tilvikum eru það konur, missa iðulega réttindi við það að vera heima. Það finnst okkur algerlega óþarft og ég veit að við erum sammála um það, við hv. 13. þm. Reykv., og vonandi flestir aðrir hv. þm. Það er á því réttindaleysi sem við viljum taka og reyna að bæta þar úr.

Við höfum flutt ýmis þingmál þar að lútandi. Síðasti ræðumaður minnti á þingmál okkar, sem fékk mjög mikla umfjöllun hérna fyrir tveimur árum, þar sem við lögðum til að starfsreynsla heimavinnandi húsmæðra væri metin til starfsreynslu og starfsaldurs þegar út á vinnumarkaðinn væri komið og við vildum láta það gilda í hvaða störf sem húsmæður færu. Þannig gæti þjóðfélagið sýnt að það kynni að meta þessi störf húsmæðranna. Enn fremur reyndum við á síðasta þingi að fá lögfest að foreldrar sem vildu taka launalaust leyfi til að sinna ungum börnum ættu rétt á sama starfi eftir tveggja ára fjarveru. Það komst ekki heldur í gegn, en þetta er eitt af því sem við viljum gera til að tryggja að fólk missi ekki réttindi við það að sinna heimili og umönnun barna. Enn fremur að heimavinnandi húsmæður sitji við sama borð hvað varðar greiðslur í fæðingarorlofi, þeim sé ekki mismunað vegna þess að þær hafi ekki gegnt launuðum störfum úti á vinnumarkaði þegar þær tóku fæðingarorlofið. Og fleira slíkt mætti telja.

En að lokum minntist hv. þm. á afstöðu okkar í skattamálum. Það er eitt af þeim atriðum sem okkur greinir á við mjög marga aðra í þeim efnum. Hún minntist á það þegar breytt var reglum hvað varðar skattgreiðslur útivinnandi kvenna. Það er ekki hægt að skrifa á reikning Kvennalistans sem ekki var til þegar þeim var breytt. Hins vegar man ég að Kvenréttindafélagið og Rauðsokkurnar börðust mjög ákaft fyrir því að útivinnandi konur gegndu sömu skyldum og aðrir í þjóðfélaginu og hélt ég að það félli heim og saman við skoðanir hv. 13. þm. Reykv. að konur og karlar gegndu sömu skyldum.

Síðan hefur komið til ýmiss konar tilhögun í þrepum inni á Alþingi í sambandi við breytingar á skattalögunum þar sem verið er að taka á mismun á skattgreiðslum heimila eftir því hvort einn eða fleiri vinna fyrir tekjunum. Það hefur verið leyst hér, eins og hv. þm. vita, með því að hægt sé að færa ónýttan persónuafslátt á milli hjóna eða sambýlisfólks. Þessu höfum við verið andvígar og margir eiga erfitt með að skilja þá afstöðu vegna þess að með því er sagt að við styðjum það óréttlæti að heimili þar sem annar aðilinn er tekjulægri eða tekjulaus þurfi að greiða hærri skatta. Vissulega er erfitt að skýra það. En málið er að heimili er ekki til sem skattaðili og hver einasti þjóðfélagsþegn á að vera sjálfstæður aðili í skattalegu tilviki sem öðrum tilvikum. Við getum rétt skoðað hvernig á því stendur að það er tekjumunur á hjónum eða sambúðaraðilum.

Fyrst og fremst er annar aðilinn tekjulaus vegna þess að hann er heima bundinn yfir ungum börnum. Þann þátt málsins viljum við leysa með hærri barnabótum og höfum alltaf, þegar þessi mál hafa komið inn á borð í þingsölum, komið með tillögur um að nota þá upphæð, sem ríkið er að leggja þar af mörkum, til að hækka barnabæturnar til heimilanna svo að þau eigi frekar val um hvernig þau haga umönnun sinna barna.

Í öðru lagi geta þetta verið heimili þar sem hjónin einfaldlega velja það að annar aðilinn sé heima og það er þá væntanlega þeirra mál.

Í þriðja lagi getur annar aðilinn verið bundinn heima vegna umönnunar aldraðra eða sjúkra og það finnst okkur ekki heldur vera mál til þess að leysa í gegnum skattalögin heldur tryggingarnar. Fleiri tilvik mætti nefna og svo síðast en ekki síst þann mun sem er á körlum og konum í launum. Það hljótum við að reyna að leysa í samningum á vinnumarkaði en ekki í gegnum skattalögin.

Þetta eru okkar röksemdir í þessu máli. Við leggjum mikla áherslu á að konur verði fjárhagslega sjálfstæðar eins og allir þegnar þjóðfélagsins eiga rétt til og þetta er þáttur í þeirri skoðun og þeirri afstöðu okkar.