10.12.1987
Neðri deild: 22. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 1898 í B-deild Alþingistíðinda. (1405)

Frumvarp um Húsnæðisstofnun ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil aðeins taka fram til að það valdi ekki misskilningi að það er ekki mín óskamálsmeðferð að umræðan um þetta mál sé slitin í sundur með þeim hætti sem raun verður á væntanlega. Hins vegar mótmæltum við því og vildum ekki að þessi umræða færi hér fram af þeim ástæðum að bæði nál. og brtt. voru ýmist rétt að berast eða enn ókomin þegar við ræddum saman, forsetar og formenn þingflokka. En vegna mikils þrýstings frá forsetum, sem mér skildist að væri ættaður beint frá hæstv. ríkisstjórn, gat ég á endanum fallist á það fyrir mitt leyti í tengslum við víðtækara samkomulag um fleira á þinginu að sá háttur yrði hafður á að mælt yrði fyrir nál. meiri hl., sem mér skildist að væri mikið sáluhjálparatriði, varðaði jafnvel svo miklu sem lífi hæstv. ríkisstjórnar að talað yrði fyrir þessu nál. hér í kvöld, enda yrði þá ekki haldið lengur fram umræðunni þannig að mönnum gæfist eftir sem áður kostur á að undirbúa sig betur undir hana og hún færi þá fram nk. laugardag.

En ég undirstrika að auðvitað er þetta ekki æskileg málsmeðferð og auðvitað væri miklu æskilegra ef hv. stjórnarliðar féllust á að hafa alla þessa umræðu samfellda, en ég stend samt að því samkomulagi fyrir mitt leyti, sem ég féllst á í kvöld, að láta það gott heita að þessi háttur yrði hafður á.