14.12.1987
Sameinað þing: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2162 í B-deild Alþingistíðinda. (1513)

1. mál, fjárlög 1988

Júlíus Sólnes:

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir brtt. á þskj. 265 sem er breyting á þskj. 244, fjárlög 1988. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Við 71.b, Byggingar sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða. Við bætist nýr liður, Seltjarnarnes 15 millj. kr.“

Ég sé mig knúinn til að flytja þessa brtt. þó svo ég fyrir fáeinum dögum hafi tekið þátt í því ásamt öðrum þm. Reykjaness að færa fjárveitingu til þessa verkefnis til annarra verkefna innan kjördæmisins. Og ég mundi enn á ný gera slíkt hið sama á næsta ári ef það yrði úthlutað fé til þessarar framkvæmdar með sama hætti og nú var gert.

Þessi heilsugæslustöð hefur ákaflega sérkennilega stöðu í kerfinu. Það var fyrir rúmlega tíu árum að tekin var ákvörðun um að byggja heilsugæslustöð á Seltjarnarnesi. Bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi ákváðu þá að 500 fermetra stöð mundi duga fyrir Seltjarnarnes, en heilbrmrn. tók þá ákvörðun án þess að bæjarstjórn óskaði eftir og heldur ekki borgaryfirvöld í Reykjavík að byggð skyldi stærri stöð, 1000 m2, sem mundi þjóna stórum hluta vesturbæjar Reykjavíkur ásamt Seltjarnarnesi. Í dag eru 550 m2 stöðvarinnar innréttaðir og þar starfa nú tveir læknar. Þeir þjóna þeim tæplega 4000 íbúum sem búsettir eru á Seltjarnarnesi ásamt tæplega 2000 Reykvíkingum í vesturbæ Reykjavíkur. Um 300 m2 eru óinnréttaðir, en fulleinangraðir og með hita. Þetta mun vera ódýrasti heilsugæslustöðvarkostur sem til er í landinu því þarna má koma fyrir tveimur læknum og sinna væntanlega einum 3000 eða fleira fólki sem býr á þessu svæði. Þetta minnir einna helst, ef maður hugsar um virkjanakosti, á stíflugerð í Laxárdal fyrir Laxárvirkjun. Sá er munur þar á að ríkisvaldið gerði samning á sínum tíma við bændur um að þeirri framkvæmd (Gripið fram í: Það eru fjórir læknar.) Það má rétt vera. Ég get vel ímyndað mér að það hafi verið rétt hjá hæstv. ráðherranum. En ef ég held áfram með virkjunarkosti í Laxárdal minnir þessi heilsugæslustöðvarkostur einna helst á stíflugerð í Laxárdal, en sá munur er á að ríkisvaldið gerði á sínum tíma samninga við bændur um að sú framkvæmd yrði stöðvuð, en það væri hægt að hefjast handa við að innrétta 300 m2 í heilsugæslustöðinni á Seltjarnarnesi þegar á morgun.

Það er svo að sá hluti sem er óinnréttaður, þessir 300 m2, er eingöngu ætlaður fyrir íbúa í Reykjavík. Seltirningar hafa í sjálfu sér fengið sína heilsugæslustöð og þeir þurfa ekki meira. Þess vegna er ofur skiljanlegt að í hvert sinn sem úthlutað er fjármagni til þessarar stöðvar á kvóta Reykjaneskjördæmis hljóta þm. þess af eðlilegum ástæðum að flytja það til annarra verkefna í kjördæminu. Reykvíkingar virðast heldur ekki hafa áhuga á því að þessi stöð verði kláruð. Þeir vilja leysa sín heilsugæslustöðvarmál með öðrum hætti. Þar með höfum við þarna þessa heilsugæslustöð, þ.e. þessa óinnréttuðu 300 m2, á milli vita. Og hvað á við þetta að gera?

Það eru ýmsir möguleikar. Bæjaryfirvöld á Seltjarnarnesi hafa m.a. rætt það sem raunhæfan möguleika að ríkisvaldið skili Seltjarnarnesbæ þessum 300 m2 og það verði þá gerður sérstakur samningur þar um. Bæjaryfirvöld fái þá ráðstöfunarrétt yfir þessum 300 m2 og geti notað þá til annarra verkefna eða Reykjavíkurborg gæti hugsanlega tekið þessa 300 m2 á leigu og innréttað þá og nýtt þá eins og þeim þykir best henta. Alla vega verður að finna lausn á þessum gordíonshnút sem þarna er, því annars fer sem fór nú, að þó fé verði veitt til þessarar stöðvar á næstu árum verður það jafnharðan af þm. Reykjaness flutt til annarra verkefna. Reykjavíkurborg og Reykjavíkurþm. hafa ekki áhuga á að fé verði veitt til þessa verkefnis. Ég skora því á hæstv. heilbrmrh. að finna lausn á þessu vandamáli og finnist hún er ég reiðubúinn að draga þessa till. til baka.