16.12.1987
Efri deild: 26. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2323 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

Vinnubrögð í efri deild

Júlíus Sólnes:

Virðulegi forseti. Í gær stóð ég hér, í þessum ræðustóli og talaði um húsnæðismál. Ég var að reyna að flýta umræðu um húsnæðismál með því að sameina það sem ég ætlaði að segja við 2. umr. um húsnæðismál í Ed. og það sem ég ætlaði að segja við 1. umr. Fyrir þetta fékk ég litlar þakkir. Að lokinni ræðu minni í hv. Ed. í gær fór fram umræða um þingsköp þar sem ég fékk miklar ákúrur fyrir það að tala lengi og tefja gang mála hér á Alþingi.

Nú ber svo við að hv. þm. Alþfl. hafa hafið hér málþóf. Þeir tala hér sjö langa og sjö breiða og eru raunverulega að tefja þingstörf. Ég vil mælast til þess að hv. sjálfskipaður verkstjóri þinghaldsins, 3. þm. Vesturl., verði kallaður hér í salinn til þess að reyna að hafa einhvern hemil á sínum þm. og reyna að koma þingstörfunum áfram þannig að við getum lokið þeim verkefnum sem við þurfum að koma frá fyrir hátíðar.