16.12.1987
Efri deild: 27. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2345 í B-deild Alþingistíðinda. (1709)

196. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Það er það sama að segja um þetta eins og það mál sem hér var síðast fjallað um að það var athugað í nefnd í tengslum við tvö hliðstæð frumvörp um vörugjald og tollalög og er einn liður í þeirri samræmingu á tekjuöflunarkerfinu sem nú er unnið að. Nefndinni bárust ýmsar ábendingar og það er rétt að það komi fram að fulltrúar launþegasamtakanna, bæði frá Alþýðusambandi Íslands og BSRB sérstaklega mótmæltu mjög harðlega þeim hugmyndum sem í þessu frv. felast um matarskatta. Sérstaklega hefur verið gagnrýndur sá skattur sem leggja á á fisk og grænmeti og skyldar vörur og gróft brauð o.s.frv., bæði út frá því almenna sjónarmiði að þessar vörur séu viðkvæmar neysluvörur og eins frá því sjónarmiði að þær séu hollar og mig minnir að sá hv. þm. sem best skynbragð ber á hollustu, hv. 6. þm. Reykv., hafi haft sérstakt orð á því að fiskmeti væri mjög gott fyrir efstu tasíuna á þm. og brosti með þeim hætti að maður gat vel skilið sem svo að ýmsum af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar veitti ekki af því að borða meiri fisk og eru það kannski bestu rökin sem ég hef heyrt fyrir því að hækka þá vöru ekki mjög í verði.

Á hinn bóginn hefur verið bent á það að þegar framfærsluvísitalan er metin í heild, þær hækkanir sem þessum breytingum öllum fylgja, kemur í ljós að útgjöld vísitölufjölskyldu haldast í jafnvægi og byggingarvísitala lækkar um 1,5% eða svo sem auðvitað þýðir allt saman náttúrlega lækkun á lánskjaravísitölunni sem auðvitað hefur sína þýðingu.

Í sambandi við þær brtt. sem hér eru lagðar fram vil ég segja í fyrsta lagi að fellt er inn í þær ákvæði þess efnis að hæstv. fjmrh. sé heimilt að fella niður söluskatt af vörum sem erlendir ferðamenn hafa keypt hér á landi um leið og þeir hverfa úr landi. Það fór tvennum sögum af því hvort hæstv. fjmrh. hefði heimild til þess arna. Til þess að taka af öll tvímæli var þessari heimild bætt inn í. Er heimildin í brtt. og leggur meiri hl. nefndarinnar áherslu á að þeirri heimild verði breytt. Ég tek sérstaklega fram að hagsmunir ullariðnaðarins eru taldir mjög miklir í þessu sambandi en sá rekstur er mjög viðkvæmur eins og þm. vita, hefur átt í miklum erfiðleikum og veitir sannarlega ekki af því að fá einhverja vítamínsprautu. Ég veit ekki hvort þetta ræður neinum úrslitum en þetta gæti kannski hjálpað til og skal ég ekki blanda mér inn í þær merkilegu umræður sem hér hafa annars farið fram í deildinni um það hvaða afleiðingar gengislækkun hafi en mér hefur skilist bæði á hv. 7. þm. Reykv. og hæstv. fjmrh. að menn verði bara að sætta sig við það ef gengið fer eitthvað úr skorðum því að það hefnir sín alltaf að hreyfa við genginu.

Þá er tekið inn í frv. annar kafli brbl. um ráðstafanir í fjármálum og er hér gert ráð fyrir því að á margvíslegri þjónustu sérfræðinga sem hefur verið með 10% söluskatt verði hann hækkaður í 12%. Ég veit ekki hvort þarf að hafa um þetta mörg orð. Þessi skattlagning hefur auðvitað alla þá galla sem það hefur að leggja almennan skatt af þessu tagi á þjónustu sem erfitt er að skilgreina og raunar ómögulegt og það eru rökin fyrir því að skattprósentan er lægri, en auðvitað dregur úr þeim göllum sem fylgja þessari skattlagningu þegar virðisaukaskatturinn kemur sem ákveðið er að verði um áramótin 1988–1989, 1. janúar það ár. Var það raunar skilyrði ýmissa sem hafa fallist á þessa miklu breikkun söluskattsstofnsins að virðisaukaskatturinn yrði tekinn upp að ári.

Í brtt. er gefin heimild til ráðherra til að setja fyllri ákvæði um skattskyldu samkvæmt þessum kafla og um önnur atriði sem lúta að framkvæmdinni. Ég þarf ekki að taka fram að manni er auðvitað óljúft að standa að lagaákvæði af þessu tagi en það réttlætist af þeim miklu framkvæmdaerfiðleikum sem eru við álagningu söluskattsins, þeirri miklu hættu á því að skatturinn komi ójafnt niður og að undanbrögð frá skattinum verði almenn.

Ég tek líka fram að eftir megni ber fjmrn. skylda til að skattleggja innri vinnu þessara sérfræðinga, t.d. þannig að það dugi ekki að taka lögfræðing eða verkfræðing af launaskrá, með því falli söluskatturinn niður. Það gengur ekki, heldur hlýtur það að vera tilgangurinn að skattleggja vinnuna, þjónustuna sjálfa, hvernig sem hún er látin í té, hvort sem hún er látin öðrum í té eða þjónustan er hluti af innra starfi fyrirtækisins. Við getum tekið stórt fyrirtæki eins og t.d. Samband ísl. samvinnufélaga. Auðvitað hlýtur sambærileg vinna hjá SÍS, vinna verkfræðinga, bókhaldara, endurskoðenda, náttúrufræðinga, lögfræðinga o.s.frv. að vera skattskyld með sama hætti og ef smáfyrirtæki keypti þjónustu frá öðru smáfyrirtæki.

Á fund okkar komu tveir menn, formaður og starfsmaður Félags ráðgjafarverkfræðinga, og lýstu áhyggjum sínum af þessu sem gefur tilefni til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort það sé ekki réttur skilningur hjá nefndinni að það sé ekki skilyrði fyrir skattlagningunni að þjónustan sé aðkeypt, heldur sé þjónustan skattskyld þó ekki komi bein greiðsla fyrir. Sama lögfræðiþjónustan sé m.ö.o. skattskyld hvort sem hún er látin í té af sérstöku lögfræðifyrirtæki eða látin í té af lögfræðingi sem er á launaskrá hjá viðkomandi fyrirtæki, m.ö.o. sé ekki um selda þjónustu að ræða í þeim skilningi orðsins heldur haldist skattstofninn. Um þetta eru mörg hliðstæð ákvæði. Ég er þeirrar skoðunar að skattlagningin hljóti að vera almenn, það sé óhugsandi að mismunandi fyrirtæki sitji þar við mismunandi borð eftir stærð. Það er ekki hlutverk söluskattsins að hafa áhrif á verkaskiptingu fyrirtækjanna heldur að skattleggja sömu þjónustuna hvar sem hún er látin í té. Ég veit að hæstv. fjmrh., sem hefur lagt mjög mikla áherslu á einmitt þetta atriði, að skattskyldan sé almenn, réttlát og skilvirk, er sammála mér um nauðsyn þessa sem ég hef nú sagt og vildi ég gjarnan fá að heyra álit hans á því.

Þá vil ég sérstaklega taka fram varðandi 4. gr. að þar er talað um greiðslur samkvæmt samningum um fjármögnunar- eða kaupleigu véla, tækja og búnaðar til atvinnurekstrar. Þetta var látið inn til þess að koma í veg fyrir tvísköttun.

Ég held að ég þurfi ekki, herra forseti, að hafa fleiri orð um þetta. Við leggjum sem sagt til að þetta frv. verði samþykkt sem er auðvitað einn liður í nauðsynlegri tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Ég legg áherslu á það að við í mínum flokki höfum fallist á þessa skattheimtu alla saman, fallist á að ríkissjóður verði rekinn með greiðsluafgangi í trausti þess að hæstv. fjmrh. haldi lántökum í hófi þannig að mikil eftirspurn hins opinbera eftir innlendu sparifé eða lánsfé verði ekki til þess að hækka almenna vexti eins og verið hefur sérstaklega upp á síðkastið, heldur geti raunvextir farið lækkandi á næsta ári, sem er auðvitað forsenda þess að hægt sé að fallast á alla þá skattheimtu sem við erum nú að greiða atkvæði með.