18.12.1987
Neðri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2592 í B-deild Alþingistíðinda. (2003)

198. mál, tollalög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég veit ekki nema að væri rétt að ég beindi þeim tilmælum til virðulegs forseta í upphafi máls míns að hafa á því athugun ef ég kynni að ruglast í ræðu minni og fara að ræða um einhverja aðra skatta eða eitthvert annað mál af því tagi en nákvæmlega er til umræðu á dagskrá núna, að biðja þá virðulegan forseta að gera mér viðvart því það hlýtur að koma að því að hv. þm. fari að ruglast á því hvar þeir eru staddir í skatta-, tolla- og vörugjaldssúpunni og það væri leiðinlegt ef maður færi að halda hér langa ræðustúfa um einhver önnur mál sem annaðhvort ætti eftir að afgreiða eða væri rétt búið að afgreiða. En ég held að við séum að ræða núna frv. til l. um breytingu á tollalögum. Er það ekki rétt, virðulegur forseti? Það er þessi litla bók upp á 340 bls. ef ég man rétt sem var dengt inn í þingið fyrir viku eða svo, tíu dögum hið mesta. Þetta er upp á 340 síður og víða er nú letrið fremur smátt. Kemur það sér að vísu vel að sá sem hér talar hefur góða sjón. En svo smátt er það að ég býst við að ýmsum gengi erfiðlega að lesa það uppréttir í þessum ræðustól nema að beygja sig þá eitthvað niður að bókinni. Og ástæðan er auðvitað einföld. Hún er sú að hér er óhemju magni upplýsinga eða efnisatriða troðið inn í eitt frv., nákvæm sundurliðun á nánast öllum þeim varningi sem hugsast getur í henni veröld og er fskj. eða viðauki við lög um tollamál, svonefnd tollskrá, og hefur lagagildi sem slík. Þetta gefur manni ærin tilefni til að ræða ofurlítið um störf okkar á löggjafarsamkundunni, til hvers við erum þar saman komin og hvert á að vera okkar hlutverk í stjórnkerfi landsins, og það vakna auðvitað ýmsar efasemdir á dögum eins og þessum, sem við lifum nú í starfi þingsins, en þó sennilega sjaldan eins og í tengslum við meðferðina á þessu tollafrumvarpi í þinginu.

Það gefur auga leið að hv. þm. hafa haft næsta litla möguleika á að setja sig inn í þetta mál eins og skyldi. Ég leyfi mér að fullyrða, án þess að ég ætli með því að særa einn eða neinn, að enginn einasti af þeim 63 mönnum sem sitja á Alþingi hafi lesið þetta gagn spjaldanna í millum. Ég býst við að þeir allra vöskustu hafi náð að fletta því kannski síðu af síðu og skálesa, eins og sagt var hérna í skólanum í gamla daga þegar menn voru orðnir tímalitlir fyrir próf og fóru á hundavaði yfir efnið, þá var það kallað að skálesa, a.m.k. í mínum hópi, og þannig hafi menn gripið niður í plagginu, hlaupið yfir það, en það er einfaldast að viðurkenna, a.m.k. vil ég gera það fyrir mína hönd, að það er langt í frá að ég hafi skoðað þetta eins og vert væri og skylt.

Það getur vel verið að einhverjum þyki með öllu ástæðulaust að gera mikið mál úr því að verið sé að afgreiða nýja tollskrá án þess að menn hafi lesið hana vandlega og kynnt sér hana, en er það tilfellið? Er ekki ástæða til þess fyrir hv. þm., sem eru að setja lög í landinu, að fara ofan í saumana á þessari flokkun og á þeim tollaprósentum sem meiningin er að leggja á einstaka flokka og einstakar vörutegundir? Ég segi jú. Hér er nefnilega verið að setja með lögum ákvæði sem hafa bein áhrif á verð varnings í landinu, bein áhrif á lífskjör almennings, bein áhrif á samkeppnisstöðu atvinnugreina, bein áhrif á möguleika íslensks iðnaðar og svo mætti áfram telja. Það skiptir t.d. býsna miklu máli fyrir iðnað, sem er að vaxa úr grasi eða er að berjast í bökkum eða bönkum á Íslandi í dag, hvort samkeppnisvarningur eða vörur, sem ætla má að keppi að meira eða minna leyti um markaðshlutdeild við þá framleiðslu, lenda í tollflokki 0 og vörugjaldi 0 eða kannski 30 og 171/2 eins og mér skilst nú að toppurinn sé á þessu.

Nú eru í gildi ákvæði um tollun á samkeppnisiðnaði og allt það sem við vitum að er misjafnlega mikið mark tekið á, en hitt er alveg ljóst að hér er um ýmsar skyldar vörutegundir að ræða oft og tíðum sem keppa hver við aðra með beinum eða óbeinum hætti og innan t.d. þess stóra hluta varningsins, sem notaður er í landinu, sem einu nafni má kalla matvörur, innan þess málaflokks ríkir samkeppni. Hún þarf ekki endilega að vera spurningin um hvort menn kaupa mismunandi tegund af sömu matvöru undir mismunandi vörumerkjum. Hún getur nefnilega snúist um hvort menn kaupa eina tegund í staðinn fyrir aðra. Ef verðlag á einni mjölvöru er hátt geta menn farið yfir í aðra mjölvöru og jafnvel yfir í allt aðra tegund, yfir í mjólk eða kjöt eða eitthvað annað í staðinn fyrir brauð. Þetta vita menn. Það er hægt að taka svona dæmi utan endis um að þessi flokkun hér og það í hvaða tollflokki varningurinn lendir hefur bein og óbein áhrif með ýmsum hætti á alla stöðu verslunar, alla lífsafkomu almennings, samkeppnisstöðu atvinnugreina o.s.frv.

Þess vegna, herra forseti, tel ég það alvarlegra mál en ýmsir hafa kannski viðurkennt eða samþykkt að þessu frv. er hent inn á þessu stigi málsins og meiningin er að reka það í gegn á örfáum dögum og gera það að lögum. Ég tel það mjög alvarlegt mál vegna þess að þrátt fyrir allt er tollskráin mjög mikilvægt plagg.

Þegar maður reynir að líta í þetta og flettir þessum dálkum eru sitt á hvað tölur um tolla, í dálki A, sem kemur nokkuð oft fyrir, allt frá 0, 5, 10, 15, 20, 30 o.s.frv. Reyni maður svo að skoða innan ýmissa tollflokka hvort það sé eitthvert rökrétt samhengi í því hvaða varningur lendir hvar. Auðvitað býst maður við að finna út úr slíkri yfirferð eitthvert innra rökrétt samhengi um þessa tollflokkun. Ég hef leitað talsvert að slíku, en ég verð að segja að mér gengur alveg bölvanlega, herra forseti, að finna nokkuð slíkt. Það litla sem maður les út úr þessu virðist það margt vera býsna öfugsnúið, t.d. sú árátta þeirra höfunda, sem hér kemur berlega fram, að velja sér allar vörur sem hafa orðið „heimilis“ einhvers staðar nálægt sér til sérstakrar meðferðar í sambandi við tolla og reyndar vörugjöld líka sem koma sjálfsagt til umræðu á eftir. Og hvers vegna er það nú svo að þessi vöruflokkur, þar sem orðið „heimili“ eða „heimilis“ kemur fyrir, verður svona fyrir barðinu á höfundunum? Ég held að ástæðan sé ekki nein mannvonska eða markviss stefna um að skattleggja sérstaklega varning heimilanna. Ég held að ástæðan sé ósköp einfaldlega sú að menn voru ekkert að velta slíkum hlutum fyrir sér. Það var allt annað sem réði því þegar tollflokkun var negld hér niður en slíkt.

Það er mergurinn málsins að mínu mati að það vottar ekki fyrir í þessari flokkun nokkru sem heitir heimilisstefna eða fjölskyldustefna. Hvar er fjölskyldustefna hæstv. ríkisstjórnar ef lesa ætti hana út úr þessu tollafrumvarpi? Ég er hræddur um að hún þætti harla skrýtin ef menn tækju sig til og færu í gegnum þetta frv. með það fyrir augum að finna hvernig fjölskyldustefna hæstv. ríkisstjórnar, sem hv. þm. Karvel Pálmason styður svona öðru hverju að hluta, er í þessu tollafrumvarpi. Þá yrði eftirtekjan skrýtin. Ég er nefnilega ansi hræddur um að t.d. þessi mikla árátta til að tolla og skattleggja heimilisvörur þætti skjóta nokkuð skökku við fögur fyrirheit í stjórnarsamningi ríkisstjórnarinnar.

Annar flokkur, þ.e. matvaran, veldur manni nokkru hugarangri þegar maður ætlar að lesa út úr flokkuninni manneldisstefnu hæstv. ríkisstjórnar, manneldisstefnuna sem nú er mjög í tísku og Landssamband framsóknarkvenna ku hafa alveg sérstakan áhuga á eins og upplýst var fyrr í umræðunni. Hvar er manneldisstefna hæstv. ríkisstjórnar eins og hún birtist í þessu tollafrumvarpi? Kannski kemur hæstv. fjmrh. upp á eftir og svarar okkur þessu eða hæstv. heilbr.- og trmrh. Það ætti að koma mál við hann hvernig með þessa flokkun er farið. Jú, ætli megi ekki draga manneldisstefnuna saman í nokkur orð, herra forseti, og segja sem svo að hún felist aðallega í því að skattleggja og tolla hollustuvörur en lækka verð á sykri, sælgæti og gosdrykkjum og öðru slíku. (Gripið fram í.) Hann hækkar nú ekki mikið, hv. þm. Einhverjum hefði nú þótt ástæða til að hafa sykur í hæsta tollflokki, en svo ku ekki vera.

Nei, það er alveg ljóst að allt slíkt rökrænt samhengi, sem byggir á einhverri stefnumörkun, vantar. Það er ekki fyrir hendi í plagginu. Og ég vil spyrja hæstv. ráðh., af því það kom ekki fram í hans agnarlitlu framsöguræðu: Hvaðan er þetta tollfrumvarp komið, hvaðan er það ættað, hverjir eru foreldrarnir? Það læðist að manni sá lúmski grunur við lestur plaggsins að hér sé um næstum því að segja hráa þýðingu að ræða á einhverju erlendu plaggi. Það getur vel verið að það komi fram að höfundarétturinn sé virtur einhvers staðar í fskj. eða grg. Ég hef ekki lesið hana nægjanlega vel til að ganga úr skugga um það til að þora að fullyrða að það komi ekki einhvers staðar fram, en ekki fann ég það við fljótan yfirlestur. Þó er mikið nefnt hér EFTA og EBE og væri svo sem ekki ólíklegt að farið hefði verið í smiðju þangað og einhverjir pappírar af því taginu þýddir yfir á íslenska tungu. Ástæðan fyrir því að mér þykir það mjög sennileg tilgáta að hér sé um þýðingu að ræða er m.a. sú að hér eru svo myndarlega sundurliðuð ákvæði um tolla ef skyldi koma til innflutnings á ýmsum varningi sem ekki hefur verið daglegur hér á Íslandi, svo sem eins og skriðdrekar og kjarnakljúfar og ótalmörg alls konar vopn, næstum því að segja öll þau morðtól sem nöfnum tjáir að nefna. (Gripið fram í.) Jahá, það er nefnilega það. Þar af leiðandi er það væntanlega svo að hér er um einhvers konar staðlaða skrá að ræða sem menn hafa svo tekið sig til og hent niður í einhverjum tollaflokkum eða tollaprósentum af handahófi að því er virðist. Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt og skynsamlegt að hafa í íslensku tollskránni skýr ákvæði um innflutning á skriðdrekum og kjarnakljúfum og það má svo sem standa þar mín vegna þó að ég telji að það hefði verið allt í lagi að íslenska ríkið léti það koma fram, m.a. með því að neita að taka slík ákvæði upp í sína tollskrá, að það stæði ekki til að standa í innflutningi á slíkum vörum til Íslands.

En hvað um það. Þetta rennir að mínu mati allt stoðum undir að hér sé á ferðinni einhver aðsend stöðluð erlend skrá sem hafi verið þýdd yfir á íslensku. Þýðingin hefur sjálfsagt tekist þokkalega, ég er ekki að efa það, en tollflokkunin er væntanlega íslensk eða hvað og það er væntanlega manneldis-, heimilis- og fjölskyldustefna hæstv. ríkisstjórnar sem birtist í tollflokkuninni. Eða ætlar hæstv. ríkisstjórn líka að afneita því? Ber kannski að skilja það svo að líka tollprósenturnar séu fengnar að láni einhvers staðar utan úr heimi?

Ég tel alveg nauðsynlegt, herra forseti, að hæstv. fjmrh. útskýri þetta fyrir deildinni. Nú er þetta mál til meðferðar í seinni þingdeild og hún hefur ekki marga sólarhringa til að starfa, þessi þingdeild. Hér sitja þó 2/3 hlutar þm. Ég tel ekki ganga annað en að hæstv. fjmrh. greiði fyrir umræðunni eins og hann getur með því að koma með þær upplýsingar sem hann er beðinn um með þessum hætti. Ég vona að hæstv. ráðh. hafi tekið niður þessar athugasemdir og upplýsi okkur um hvernig þessum málum er háttað, hvaðan þessi tollskrá er ættuð, í hvaða samhengi hún er við okkar alþjóðlegu skuldbindingar gagnvart Fríverslunarbandalagi og samstarfi okkar við Efnahagsbandalag og aðra, hvort það er t.d. af þeim sökum talið nauðsynlegt að hafa ítarleg ákvæði um innflutning á kjarnakljúfum og skriðdrekum í skránni, byssum og öðrum slíkum morðtólum eða hvort það er einfaldlega vegna þess að menn nenntu ekki að vera að skera út úr skránni það sem var í henni fyrir þegar hún var sett í þýðingu.

Það er að mínu mati mjög mikilvægt að það sé tryggt, þegar sett eru ný tollalög í landinu, að farið hafi verið yfir þau eins rækilega og kostur er með tilliti til þess að þau séu í sem bestu samræmi við okkar þarfir og okkar hagsmuni á sviði framleiðsluiðnaðar í landinu. Ég held að það sé þegar til kastanna kemur e.t.v. stærsta málið sem að verulegu leyti er til lykta ráðið þegar ákvæði um tollskrá eða tolla og vörugjöld eru sett niður hvernig á þeim málum er haldið með tilliti til samkeppnisstöðu og möguleika íslensks framleiðsluiðnaðar. Við höfum á Íslandi horft upp á iðngreinar vaxa og við höfum horft upp á iðngreinar deyja. Það er t.d. ekki langt síðan húsgagnaiðnaður var í mínu kjördæmi mjög stór atvinnugrein og veitti hundruðum manna atvinnu, jafnvel á Akureyri einni. Nú hafa menn horft upp á það á seinni árum að þessi iðngrein hefur dalað og næstum að segja liðið undir lok, a.m.k. í þeirri mynd sem hún var hér áður með myndarlegri framleiðslustarfsemi. Menn skulu ekki halda að það séu hlutir sem ekki þarf að hafa augun á að staða, grundvöllur slíkra atvinnugreina getur oft verið veikari en margan grunar. Þar má stundum minna út af bera en menn halda til þess að illa fari.

Þarna finnst mér að ýmislegt skorti á. A.m.k. virðist mér við þá fljótaskrift sem þetta mál hefur fengið á hinu háa Alþingi að það hafi ekki fyrir sitt leyti fengið tíma til að ganga úr skugga um það svo sem skylt væri að fara yfir þetta dæmi. Nú er það að vísu svo að þær fréttir hafa borist Alþingi utan úr bæ að ákveðinn hluti heildarsamtaka atvinnulífsins eða aðila vinnumarkaðarins, eins og það er stundum orðað, hafi fengið að koma nálægt samningu plaggsins og það eru stórkaupmenn og Kaupmannasamtökin, Verslunarráð og Félag ísl. iðnrekenda. Það kemur fram í nál. minni hl. fjh.- og viðskn. Ed. að þessir aðilar hafi haft þrjár vikur til að skoða frv. utan þings áður en það kom inn á borð Alþingis. Það er sem sagt væntanlega þannig að stórkaupmenn hafa haft jafnmargar vikur og hv. Nd. á að fá sólarhringa til að skoða þetta mál áður en það er gert að lögum. En þó að ég hafi talað mikið um iðnaðinn og nauðsyn þess að það sé tryggt þegar tollastefnan er mörkuð að hagsmuna hans, hins innlenda framleiðsluiðnaðar, sé gætt eins og kostur er við mörkun tolla- og vörugjaldsstefnunnar, þá eru fleiri aðilar sem eiga mikið í húfi. Þar eru til að mynda samtök neytenda og samtök launamanna. Hefði ekki verið eðlilegt að þeir aðilar hefðu a.m.k. haft jafnlangan tíma stórkaupmönnunum og iðnrekendum til að fara yfir tollskrá? Það kemur ekkert fram um það að svo mikið sem við þá hafi verið talað annað en það, sem er upplýst í nál. minni hl., að þessir aðilar hafi ekki fengið tækifæri til að koma að málinu fyrr en fulltrúar stjórnarandstöðunnar kölluðu þá til viðtals í fundi fjh.- og viðskn. Ed. Þessi vinnubrögð eru ámælisverð ekki síst vegna þess að sá hæstv. ráðh. sem hér mælir fyrir þessu frv. er formaður Alþfl. — með stórum staf. Svona fellur nú hæstv. ráðh., formaður Alþfl., á prófinu gagnvart því að gæta hagsmuna alþýðunnar, neytendanna. Eða er það ekki rétt, hæstv. fjmrh., sem fram kemur í þskj. 310? Er þar ekki rétt frá sagt fundum fjh.- og viðskn. að fulltrúar Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Stéttarsambands bænda og reyndar Sambands ísl. samvinnufélaga líka hafi í fyrsta sinn séð tollskrána eða komist til þess að láta álit sitt í ljós á fundum fjh.- og viðskn. þangað kallaðir af stjórnarandstöðunni? Ég tel rétt að hæstv. ráðh. upplýsi það á eftir, svari því eða staðfesti hvort það sé ekki rétt. Ég sé Neytendasamtökin hvergi nefnd og ef það er svo að m.a.s. fjh.- og viðskn. Ed. hafi ekki kallað þau til, hvað þá að þau hafi komið nálægt plagginu á fyrri stigum, þá tel ég alveg óhjákvæmilegt að Nd. sjái þá til þess að samtök neytenda í landinu fái að líta á plaggið — eða er það svo að þeim sem eiga að kaupa allan varninginn komi þetta ekkert við, það sé bara nóg að þeir sem eiga að selja hann séu ánægðir, þá megi einu gilda? Það er nefnilega að mörgu að hyggja þegar verið er að breyta ákvæðum í jafnvíðfeðmum málaflokki og allur vöruinnflutningur til landsins er.

Ég óttast mjög að það sé slík fljótaskrift á þessu að það muni koma í ljós, og það er reyndar þegar farið að koma í ljós, að urmull af vitleysum og augljósri rangsleitni sé í þessu frv. 40 brtt. hv. þm. stjórnarliðsins í Ed. benda til þess að það þurfi ekki langan lestur, menn þurfi ekki lengi að skoða þetta til að finna ýmislegt sem betur má fara — eða hvað? Það er ekki á hverjum degi sem fullburðugt stjfrv. birtist og nokkrum dögum seinna eru komnar fram við það 40 brtt.

Herra forseti. Það væri hægt að flytja mjög langt mál um það efnisinnihald sem frv. felur í sér. Ég verð þó að segja alveg eins og er og játa það í fullri hreinskilni og tel mig ekki mann að minni þó ég geri það að ég hef ekki enn náð að kynna mér frv. svo vel að ég treysti mér til að fara út í ítarlega og nákvæma efnisyfirferð á því. Ég held að ég hljóti því að geyma þann hlutann að verulegu leyti til 2. umr. Ég vona að mér gefist eitthvert tóm til þess á nefndarfundum í fjh.- og viðskn. að lesa plaggið efnislega og fara yfir það. Ég sat í hv. þingnefndum á síðasta kjörtímabili með hv. 6. þm. Norðurl. e. Stefáni Valgeirssyni og sá hv. þm. hafði eina skynsamlega reglu sem nefndarformaður. Hann neitaði að afgreiða frá sér frv. nema hafa lesið þau í gegn. Það var vinnuregla hv. þm. og fyrrv. nefndarformanns að afgreiða aldrei út úr sínum nefndum frv. nema þau hefðu verið lesin í gegn. (Fjmrh.: Las hann þau upphátt.) Frá orði til orðs upphátt að öllum nm. viðstöddum. Með þessum hv. þm. fór undirritaður, sá sem hér stendur, í gegnum marga þykka lagabálka, eins og siglingalög og sjómannalög, (Gripið fram í: Og búvörulög.) búvörulög og ýmislegt fleira gott. Það kom í ljós ævinlega þegar það var farið í gegnum frumvarpsbálkana frá orði til orðs, og þetta kannast margir hv. þm. við sem minnast þessara ánægjulegu stunda með brosi, að þetta skilaði árangri. Þessi vinnuregla hv. þm. leiddi án undantekninga, leyfi ég mér að fullyrða, til þess að það komu í ljós ýmsir brestir, ýmislegt sem þurfti að lagfæra, og ég tel þennan hv. þm. mann að meiri fyrir að láta aldrei undan með þessa vinnureglu sína.

Ég hef þá tilfinningu að hv. 1. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson gæti ýmislegt af þessum fyrrv. flokksbróður sínum lært. Og hvernig færi nú með afgreiðslu málsins, hæstv. fjmrh., ef formaður fjh.og viðskn. Nd. héti ekki Páll Pétursson heldur Stefán Valgeirsson og setti hnefann sinn aldinn í borðið og segði: Nei takk, þetta frv. fer ekki út úr minni nefnd fyrr en það hefur verið lesið í gegn? Þá væri mál að huga að starfi nefndarinnar um miðjan febrúar, trúi ég, herra forseti. Og ég er alveg viss um það, jafnnákvæmlega sannfærður um það og ég var þegar við vorum búnir að ljúka yfirferð siglingalaganna, sjómannalaganna, laga um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum o.s.frv., að eftir slíka yfirferð hefði fjöldamargt komið í ljós sem nauðsynlegt væri að breyta í þessu frv. Þannig á auðvitað að vinna málin og hv. Alþingi má ekki endalaust niðurlægja sjálft sig með því að vanda ekki nógu vel sín vinnubrögð. Auðvitað horfir öll þjóðin upp á það, þegar Alþingi er á tíu eða tólf dögum að afgreiða 340 blaðsíðna frv., að þar er kastað til höndunum. Menn gera sér grein fyrir því að það er hroðvirkni að senda slíkt plagg frá sér eftir svo stutta athugun. Það er eiginlega tæplega nóg að hæstv. ráðh. hafi beðist afsökunar einhvers staðar í fjölmiðlum og ef ég man rétt líka í þessum ræðustóli á þessari framkomu við þingið. Það þarf eiginlega meira til. Það er að vísu virðingarvert af hæstv. ráðh. að viðurkenna að það er ámælisvert að standa svona að hlutunum, en það er samt ekki nógu gott.

Ég vona, virðulegi forseti, að þær vangaveltur sem ég tel mér óhjákvæmilegt að hafa um málsmeðferðina vegna þess hvað frv. er stórt og málið er mikið og tengist þingræðinu og stöðu þess gagnvart framkvæmdarvaldinu, hvernig þessa hluti ber að, teljist vera innan ramma dagskrármálsins, að fjalla um það m.a. með þessum hætti. Ef ekki, þá væri nauðsynlegt að eiga einhvern tíma á þessum sólarhringum orðaskipti um þingsköp. Það hefur hvarflað að þeim sem hér talar alloft á undanförnum sólarhringum að einn lærdóm ættu menn að draga af þessum dögum nú fyrir jólaleyfi. Hann er sá að forustumenn um þingstarfið ættu að taka sér tíma til að hittast í jólaleyfinu og ræða þá stöðu sem hér er komin upp og ekki bara að tala um að tryggja að þetta komi ekki fyrir aftur heldur líka með það í huga að reyna að gera eitthvað í málinu. Ég á þá m.a. við það að breyta lögum um þingsköp Alþingis, sem reyndar var breytt síðast fyrir tveimur árum eða þremur og tryggja hreinlega með ákvæðum í þingsköpum að svona lagað sé ekki hægt — líka vegna ríkisstjórnanna, ekki bara vegna þingsins, líka til þess að venja þingbundnar ríkisstjórnir í þingræðislandi á að koma ekki svona fram við löggjafarsamkomuna, líka til þess því það er alveg greinilegt í hvaða far sækir með vinnubrögðin að þessu leyti. Og þó að maður sé svo góðviljaður hæstv. ríkisstjórnum að maður ætli þeim ekki að gera það viljandi að leggja málin svona seint fram, þó maður sé það, þó því sé ekki að neita að það læðist stundum að manni sá grunur að þetta sé orðin „taktík“ eins og það heitir núna og menn úr knattspyrnuheiminum kannast líka vel við það orð, „taktík“. (Gripið fram í.) Leikaðferð, þakka, ákveðin leikaðferð að koma svo seint fram með málin að það sé í raun og veru hægt að keyra þau í gegnum þingið meira og minna ólesin og óathuguð. Hvort sem heldur er, og ég vil auðvitað trúa því fyrrnefnda, að þetta sé nú slysni, aulaskapur, skortur á verkstjórn en ekki eitthvað annað verra, þá er öllum fyrir bestu að koma í veg fyrir að slíkt eigi sér stað. Og ég hefði talið að það væri lágmark að setja þá reglu að fyrir 20. nóv. á hverju hausti skuli öll þau frv. sem ríkisstjórnin ætlar að gera að lögum fyrir áramót vera komin inn í þingið og það þurfi tvöfaldan eða þrefaldan meiri hluta þingmanna til að samþykkja afbrigði frá slíkri reglu. Og ég tala nú ekki um ósköpin ef frv. eru af þessari stærðargráðu. Það væri hugsanlegt að hafa undanþágur hvað varðaði framlengingu laga, gildistímabreytingar o.s.frv., en þegar heilum lagabálkum á að snúa á haus upp á fleiri hundruð blaðsíður hugsanlega og gera það á örfáum sólarhringum er það ekki orðið neitt þingræði. Það er ekki orðin nein löggjafarsamkoma í reynd sem lætur bjóða sér það, ég tala nú ekki um ár eftir ár, að fara svoleiðis með sig. Þegar Alþingi Íslendinga er með þeim hætti breytt í einhvers konar færiband eða stimpil fyrir framkvæmdarvaldið, sem á í raun og veru enga skoðun að hafa á málunum, á bara að reka þau í gegn, á bara að stimpla þau, er illa farið fyrir þessari elstu löggjafarsamkomu heimsins sem er líklega a.m.k. jafngömul færeyska lögþinginu og getur þar af leiðandi með rétti kallað sig elstu löggjafarsamkomu heimsins eða aðra af tveimur elstu.

Nei, herra forseti. Þetta mál vekur vissulega upp ýmsar spurningar og, eru menn þó mörgu vanir og ekki öllu góðu hér. Ég vona að hæstv. forseti íhugi mál mitt og komi því á framfæri í hópi forseta þingsins að í jólaleyfi verði tækifærið notað og skotið á fundi forustumanna þingsins og e.t.v. formanna þingflokka ásamt með skrifstofustjóra og öðrum starfsmönnum og það verði rætt í fullri hreinskilni hvort nú sé ekki bakkafullt og barmafullt fatið, nú sé ekki óhjákvæmilegt að taka þessi mál til skoðunar í fullri alvöru.

Herra forseti. Það er eitt atriði sem fullyrt er að felist í þessu frv., ein stefna sem með fullri vitund á að vera falin í tollflokkun frv. Það er hugmyndin um að flytja verslunina inn í landið, að innleiða Glasgow-verðið á Íslandi. Það ku vera leyndardómurinn á bak við þá ráðstöfun sem birtist hins vegar almenningi sem alveg sérstök tollalækkun á ýmiss konar lúxusvarningi og ýmiss konar smávörum sem ekki verður talið í hópi brýnustu lífsnauðsynja, eins og ýmiss konar rafmagnstækja og jafnvel rakvéla sem ræðumaður telur ekki í hópi brýnustu nauðsynja eins og sjá má. En þetta er rökstutt með því að það eigi að flytja verslunina inn í landið og koma á Glasgow-verði á Íslandi. Ég leyfi mér að draga í efa að þessar æfingar í tollamálum breyti óskaplega miklu um það. Ég leyfi mér að draga í efa að íslenska verslunin muni að þessum tolla- og vörugjaldsbreytingum fengnum bjóða upp á Glasgow-verð.

Eins og einhver nefndi áðan mun ekki meiningin að frv. breyti neinu um verðlagningu á fötum. Samt er það svo að ekki síst hafa menn farið til Glasgow að sögn til að fata sig upp. Þar ku vera hægt að kaupa hin ágætustu jakkaföt fyrir andvirði einna buxna á Íslandi. Og ætli þetta breytist þá mikið? Nei, það breytist ekki neitt. Ég held að þeir menn sem taka svona stórt upp í sig með vilja sinn til að bjóða upp á Glasgow-verð heima á Íslandi ættu þá að vera sjálfum sér samkvæmir og taka verslunina í landinu til skoðunar í heild sinni. Og ætli það sé nú ekki eitthvað fleira sem þarf að gera til þess að hægt sé að bjóða almenningi á Íslandi upp á Glasgow-verð? Það er ég hræddur um. Úr því ekki er hægt að bjóða upp á Glasgow-verð á fötum, af hverju ætti þá frekar að vera hægt að bjóða upp á það á ýmsum öðrum sviðum?

Ég held að það sé alveg ljóst að verslunin í landinu er svo útþanin og dýr að hún er ófær um það af innri orsökum að bjóða upp á Glasgow-verð. Skyldi það ekki vera álagningin í þessum verslunarbúðum öllum, sem selja ekkert að ráði af varningi nema nokkra daga fyrir hver jól, sem er aðalþrándur í götu þess að hér sé þetta margnefnda Glasgow-verð? Ég verð að segja að mér finnast þessi rök harla léttvæg, harla veik þegar þeim er teflt gegn öllum hinum sjónarmiðunum, sem sagt þeim, sem ég var að rekja í upphafi máls míns, að reyna að stýra neyslunni inn á hollar vörur, að reyna að sjá til þess að nauðsynjavarningur heimilanna sé sanngjarnt verðlagður og reyna að draga einhver mörk milli þess sem teljast lífsnauðsynjar og annarra hluta sem ekki eru eins nauðsynlegir. Það er algjör uppgjöf í þessu tollafrv. hvað þessa þætti varðar.

Sú hugsun sem stuðst hefur verið við í þessum efnum um áratuga skeið í íslenskri tollalöggjöf er þurrkuð út úr frv. með öllu. Varaliturinn er jafnrétthár brauðinu rétt eins og menn éti bara varalit og geti lifað á honum dögum saman, enda birtist skopmynd í einu dagblaðanna þar sem húsbóndinn sat við borðið og bað um meiri rakspíra út á varalitsstöppuna eða eitthvað svoleiðis sem hann ætlaði að fara að borða. Það er von að menn gantist með þetta með þeim hætti.

Hér hef ég fyrir framan mig ljósrit úr grg. með tollskrá 1973. Þar er verið að fjalla um að það sé eðlilegt að reyna að líta á heimilisvörur, heimilistæki sem daglegar nauðsynjavörur, því verði ekki lengur haldið fram að algengustu heimilistæki séu munaðarvara og því sé skynsamlegt að taka tillit til þess í tollaákvæðum. En nú er sem sagt horfið frá þessu öllu. — Er, virðulegi forseti, hæstv. fjmrh. langt í burtu? (HBl: Hann er í ræðustól í Ed.) Ég heyrði ekki þessi ummæli, enda hefur maðurinn ekki málfrelsi í deildinni.

Virðulegi forseti. Það væri æskilegt að fá um þetta upplýsingar. Ég geri ekki kröfur um að hæstv. fjmrh. sé dreginn úr ræðustól ef hann skyldi vera þar staddur, en það er óþægilegt að halda lengi áfram þessari umræðu ef hæstv. ráðh. getur ekki verið viðstaddur og það þyrfti að reyna að samræma störf deildanna þannig að ekki væru á dagskrá samtímis báðum megin mál sem hæstv. fjmrh. þarf nauðsynlega að vera viðstaddur og taka þátt í. (ÁrnG: Hann er í ræðustól í Ed.) (Gripið fram í.) Ef hæstv. iðnrh. vill taka til máls í umræðunum veit ég að það yrði öllum fagnaðarefni. Nú sé ég að hæstv. ráðh. hefur lokið við að skrifa utan á öll sín jólakort og er farinn að lesa Morgunblaðið. Þá er væntanlega stutt í að hann geti gefið sér tíma til að fylgjast hér með eins og aðrir og jafnvel að undirbúa sig undir að taka þátt í umræðum. Það var rætt nokkuð um samkeppnisstöðu iðnaðarins og þau áhrif sem tollabreytingar gætu haft á stöðu iðnaðarins í landinu. Það er þá væntanlega fagnaðarefni að hæstv. ráðh. er nú farinn að taka svo eftir umræðunni að hann telur mig ekki lengur vera að tala um dagskrárefnið eða atriði sem eiga erindi við hæstv. fjmrh. (Iðnrh.: Ég sagði eingöngu að hv. ræðumaður hefði ekki tekið eftir fjarveru ráðherra fyrr en hann fékk boð frá Borgarafl. um það af því að hann var að tala um efni sem ráðherra þurfti ekkert að hlusta á.) Ég tel, herra forseti, að þetta innlegg hæstv. iðnrh. hafi verið svo mikilvægt að það sé nauðsynlegt að halda því til haga, þó án þess að það verði tekið af ræðutíma hæstv. iðnrh. Ég vil endilega að hann eigi eftir hér eins margar umferðir og hann getur. En hæstv. ráðherra er nú vel vaknaður til lífsins og búinn að loka jólaútgáfu Morgunblaðsins og ber að fagna því öllu og fer þá væntanlega að styttast í að hann biðji um orðið úr því að honum liggur ýmislegt á hjarta.

Hæstv. forseti hefur ekki gert athugasemdir við mín ræðuhöld og talið mig væntanlega þar með halda mig innan dagskrárrammans þannig að ég held að áhyggjur hæstv. iðnrh. séu óþarfar að þessu leyti. Það er ég sem ræð því hvenær í máli mínu ég kem að hlutum sem ég ætla að spyrja hæstv. fjmrh. að og hvenær ekki. Það er ekki hæstv. iðnrh. að fjarstýra mínum efnistökum úr sæti sínu. (Iðnrh.: Ég veit að hv. ræðumaður tekur boð frá öðrum.) Það er heldur ekki ástæða fyrir hæstv. iðnrh. að hafa af því miklar áhyggjur þó að menn sendi skilaboð sín á milli, enda er það algengt. Það kemur fyrir að menn vantar einhver gögn og þeir biðja aðra um að koma þeim áleiðis til sín í ræðustól eftir að þeir hefja mál sitt (Iðnrh.: Það er þessi viðurkenning sem rétt er að fá fram.) og hlýtur að vera til bóta að geta þannig flýtt fyrir umræðum, þurfa ekki að gera hlé á máli sínu t.d. til að sækja sér gögn í sæti eða eitthvað annað. (Iðnrh.: Hárrétt. ) Ég veit að hæstv. iðnrh. er svo þingvanur maður að hann áttar sig á þessu, enda gæti hugsast að hann hefði einhvern tíma fyrr á þingferli sínum tekið þátt í slíku. Það er alveg mögulegt. (ÓÞÞ: Hvaða mál er á dagskrá, forseti?) Eftir því sem best er vitað er á dagskrá, hv. þm. Vestf., frv. til l. um breytingar á tollalögum. Og vill ekki hv. þm. setja sig og fylgjast svolltið með umræðum úr því að hann er í svona góðu skapi? (Gripið fram í.) Það er gott.

Herra forseti. Ég vona að innan tíðar komi að því að hæstv. fjmrh. gangi í salinn, en úr því að hæstv. iðnrh. er hér og er svo skemmtilegur er varla verjandi að gera meiri kröfur en þær að hafa hans návist.

Ég ætla þá aðeins að ræða betur um iðnaðinn. Þegar hæstv. ráðherra er búinn að ljúka fundi sínum með hv. 2. þm. Norðurl. e., sem er reyndar í Ed., ætla ég að fá athygli ráðherrans. Ég ætla að spyrja hæstv. iðnrh. um hvernig þeirri skoðun frv. hafi verið háttað sem á að tryggja það og hlýtur að hafa farið fram, annað getur ekki verið, að staða innlendra framleiðslugreina verði sem sterkust innan ramma þess sem á okkar valdi er að gera með ákvörðunum í sambandi við tolla og vörugjöld. Nú kinkar hæstv. ráðherra ákaft kolli og ég tek það til marks um að hann hafi skilið spurninguna, hann hafi náð þessu og muni svara og það gleður mig stórlega.

Það mætti t.d. spyrja hæstv. iðnrh.: Hvers vegna eru tæki sem virðast við fyrstu sýn vera svo náskyld, eins og til að mynda leiktækja- og fjárhættuspilaútbúnaður og áhöld til að fremja töfrabrögð og sjónhverfingar, felld úr 80% tolli niður í 0, (Iðnrh.: Þetta eru hjálpartæki hæstv. fjmrh.) en þau tæki sem yfirleitt þarf að nota með þessum aðföngum, sjónvörp og myndbandstæki og eru algeng heimilistæki, eru sett í 30% toll? Eru einhverjar iðnaðarástæður fyrir þessu eða er þetta heimilisstefna hæstv. ríkisstjórnar? Þá auðvitað vísar hæstv. iðnrh. á félmrh. eða heilbr.- og trmrh. og við fáum þau hingað í salinn til að svara þessum þætti. Ef þetta er ekki iðnaðarstefna er þetta eitthvað annað því að einhver rök hljóta að vera fyrir þessu.

Það er allt fullt af svona hlutum, herra forseti, sem vekja athygli við yfirferð frv. Það vekur t.d. athygli að reiknivélar, símar og fjarritar og ljósritunarvélar og ýmislegt fleira slíkt eru felld úr 35–50% tollum og niður í 0 og vörugjaldið úr 20–30% niður í 0, en heimilistæki fá ekki sömu meðferð. Sem sagt: heimilin eru í einhvers konar öðrum flokki hvað svona hluti varðar.

Svo sé ég í ágætu plaggi sem ég hef að rakvélar og hárklippur fyrir heimili beri bæði toll og vörugjald skv. þessum frv., en sams konar áhöld fyrir rollur séu undanþegin gjöldum. Það er margt slíkt sem maður veltir fyrir sér. Út af fyrir sig er nauðsynlegt að geta rúið rollur, en það er líka mjög nauðsynlegt að slík heimilisáhöld séu á sanngjörnu verði. Þetta er e.t.v. iðnaðarstefna. Það er hugsanlegt. Og þá svarar hæstv. ráðherra því. En hugsanlega er líka skýringin sú að það eigi að rýja heimili með öðrum hætti en með klippum sem notaðar eru á rollurnar og hæstv. ríkisstjórn telji sig þegar hafa í höndunum tæki til að rýja heimilin og það rækilega. Það vitum við og hæstv. ríkisstjórn kann til þess aðferðirnar og er að beita þeim, sem sé með skattlagningu á lífsnauðsynjar almennings.

Þetta mál, herra forseti, verður ekki slitið úr samhengi við þau fjölmörgu skattafrv. og breytingar aðrar sem hæstv. ríkisstjórn er að keyra hér á með góðu eða illu. Þó að það felist e.t.v. ekki í þessum hluta málsins stórkostlegar skattlagningar er ljóst að ýmsar nauðsynjavörur hækka í verði þó að sagt sé að aðrar lækki á móti. Reyndar hef ég efasemdir um að þetta vegi upp hvað annað á sanngjarnan hátt, a.m.k. hjá þeim hluta almennings og heimilanna í landinu sem lægst hafa launin. Mér sýnist því miður að hin almenna tilhneiging sé að hækka ýmsar nauðsynjavörur heimilanna en lækka ýmislegt annað óþarfara. Það gerir sig eins og gengur að slíkt bitnar fyrst og fremst á þeim sem hæstum hlut tekna sinna eyða í daglegar neysluvörur. Og þetta vitum við. Með þetta í huga er eðlilegt að menn horfi til annarra skatta sem hæstv. ríkisstjórn er að leggja á. Hvernig kemur þetta til með að koma út hjá almenningi í heild sinni? Við höfum um það upplýsingar að hér sé verið að munda til skattlagningar upp á 8–10 millj. kr. í heild sinni og stór hluti af þeim sköttum eru neysluskattar sem bitna þungt á öllum almenningi. Það er þeim mun verra, herra forseti, sem það er haft í huga hvað mikið er hér á ferðinni í einu að eiga að taka afstöðu til þess og hafa skoðun á þessu máli á fáeinum sólarhringum.

Nú hef ég kannski að margra manna mati dregið sterkt upp dökku hliðarnar í meðferð þessa máls og það er rétt. Ég hef aðallega farið yfir það sem mér finnst vera rangt og finnst ekki vera í lagi. Þá ætla ég að segja á móti að auðvitað er endurskoðun tollskrárinnar mjög brýnt og þarft verk og ég held að þar sé stefnt í alveg rétta átt að einfalda og lækka tolla og samræma flokka eftir því sem kostur er. En tilgangur af því tagi helgar ekki meðalið. Tilgangur af því tagi, sem út af fyrir sig getur verið góðra gjalda verður og þarfur, þýðir ekki að menn eigi að samþykkja og kyngja hverju sem er. Hann þýðir ekki að það sé hægt að kasta til höndunum við verkið. Endurskoðun tollskrár er ekki áhlaupaverk. Það er ekki verk sem menn langar til að standa í einu sinni á ári — eða á að leggja það á Gutenberg og skóga heimsins að prenta svona bækur á hverju einasta ári? Ég tel það ekki gáfulegt. Ég held að sé miklu betra að reyna að gefa sér tíma til þess að vanda verkið og ná um það sæmilegu samkomulagi og hafa einhverja rökhugsun að baki þeim breytingum sem menn eru að fara út í. Ég leyfi mér að taka svo djúpt í árinni, herra forseti, að það sé ekki vottur af rökhugsun á bak við frv. og jafnvel þau rök, sem helst eru nefnd til, að flytja verslunina aftur inn í landið og innleiða Glasgow-verð, eru haldlítil að mínu mati. Ég sé ekki að Kringlan verði fljótari að borga sig, að álagningin þurfi að verða eitthvað minni þar þó að þessar breytingar verði. Þvert á móti held ég að menn hafi átt að snúa sér fyrr að öðrum hlutum ef þeir ætluðu að koma á einhverju skikkanlegu vöruverði eins og tíðkast í nálægum löndum.

Ég fer senn að ljúka máli mínu, forseti, enda kom þetta mál inn til þessarar deildar á þessum sólarhring og við hv. þm. Nd. höfum haft í nógu öðru að snúast en lesa þau þingmál sem útbýtt hefur verið í Ed. undanfarna daga. Það segir sig því nokkuð sjálft að þegar mál koma frá Ed. til Nd. þessa sólarhringa er við því að búast að þm. deildarinnar hafi ekki haft mikinn tíma til að fara nákvæmlega ofan í saumana á þeim. Svo er um þetta mál. Ég tel því alveg nauðsynlegt að eftir þá umræðu sem hér fer fram, 1. umr., og eftir þau svör sem hæstv. ráðherrar ættu einu sinni að hafa vit á að gefa við þeim spurningum sem fyrir þá eru lagðar til að greiða fyrir umræðunni í staðinn fyrir að þráast við og þumbast eins og oft hefur orðið reyndin á undanfarna daga, þá taki fjh.og viðskn. sér a.m.k. tvo sólarhringa til að skoða málið eða 2–3 sólarhringa. Auðvitað þyrfti það að vera miklu meira, hv. þm. En ef það er í alvöru meiningin að halda því til streitu að afgreiða þessa hluti fyrir jól er varla um mikið meiri tíma að ræða. Það sýnir mönnum þó við hvað við búum. 2. umr. geti því ekki undir neinum kringumstæðum farið fram hér um þetta mál fyrr en komið er fram í næstu viku og hún er stutt, sú vika, eins og við vitum, hæstv. forseti.

Ég bar upp nokkrar spurningar, bæði til hæstv. fjmrh. og einnig til hæstv. iðnrh., og ég vona að hæstv. fjmrh. svari t.d. til um aðdraganda málsins, hvaðan pappírinn er ættaður, hvort Neytendasamtökin voru kölluð að málinu, hvort verkalýðshreyfingin og samtök af þeim kantinum komu ekki neitt nálægt málinu fyrr en í fjh.- og viðskn., hvort þetta er allt saman rétt, og hæstv. iðnrh. segi okkur eitthvað frá því hvernig sjónarmiðum iðnaðarins og hagsmuna iðnaðarins var til haga haldið við undirbúning verksins. Það er mjög nauðsynlegt að fá það fram.

Ég teldi líka, virðulegur forseti, ef umræðan skyldi halda áfram á kvöldfundi, æskilegt að sjá til þess að hæstv. heilbr.- og trmrh. og hæstv. félmrh. væru viðstaddir, annars vegar til að svara nokkru til um hollustustefnuna, heilbrigðisstefnuna, manneldisstefnuna sem felst í frv. og hins vegar til að ræða þau félagslegu sjónarmið sem hljóta að eiga að vera til staðar þegar lögð er niður tollskrá sem hefur jafnmikil áhrif á lífskjör og starfsskilyrði fólks og atvinnulífs í landinu. Í trausti þess að þetta verði, að fyrir þessu verði öllu séð og hæstv. ráðherrar hafi vitkast svo af reynslu undanfarinna daga að þeir reyni ekki að þumbast og víkja sér undan því að svara því sem fyrir þá er lagt heldur geri það skýrt og skilmerkilega, þeir þurfa yfirleitt ekki langt mál til þess ef þeir eru sæmilega skýrmæltir og vel máli farnir og hafa reiður á sínum pappírum og hafa skrifað samviskulega niður spurningar, þá á það að geta verið fljótlegt að svara. Það greiðir fyrir. Það er alveg ljóst. Það er miklu fljótlegra en að valda óánægju og kalla jafnvel yfir sig umræður um þingsköp og deilur um málsmeðferð sem hljóta að leiða af því. Ég tel að það sé alveg nauðsynlegt fyrir hæstv. ríkisstjórn að gera sér grein fyrir því. Hún er að bjóða Alþingi Íslendinga upp á meira en kannski nokkurn tíma áður hefur verið gert. Í þeirri stöðu ættu ráðherrar að leggja sig fram um það að reyna að starfa sem best með þinginu.

Ég segi líka, virðulegur forseti, að mér finnst mæting stjórnarliða í þingsali síðustu sólarhringa vera fyrir neðan allar hellur. (Fjmrh.: Það er rétt.) Það skeður aftur og aftur í atkvæðagreiðslum að það þarf að bíða lengi, lengi eftir að ná fram afbrigðum, jafnvel við brtt. sem stjórnarliðið sjálft er á síðustu stundu að bjarga sér í horn með. Ef ekki væri hér stjórnarandstaðan til að hjálpa slíku í gegn væri fundarfall lon og don. Úr því að stjórnarandstöðuþm. eru hér við störf sólarhringinn út og sólarhringinn inn síðustu dagana fyrir jólahátíðina geta stjórnarþm. verið það einnig. Þeir þurfa ekki frekar að vera að kaupa sínar jólagjafir eða hvað það nú er sem þeir eru að gera en þm. stjórnarandstöðu. Þeir hafa sömu lögbundnu skyldur til að taka þátt í þingstörfum. Ég segi það alveg eins og er, forseti, að það verður erfitt að una því mikið lengur, til að mynda ef það á að funda hér langt fram eftir kvöldi, að hér séu í salnum eingöngu stjórnarandstæðingar og svo einn og tveir ráðherrar á gægjum í dyrum sem eiga þau mál sem til umræðu eru. Þá held ég að það væri betur ráðið að fresta fundi og taka það til rækilegrar umfjöllunar í þingflokkum stjórnarliðsins hvort menn hafa einhvern áhuga á að störfunum miði með eðlilegum hætti eða ekki, hvort það sé bara mál stjórnarandstöðunnar að menn sinni sínum lögbundnu skyldum á þinginu. Ég tek það fram að hv. þm. Eggert Haukdal er sérstaklega undanskilinn, sömuleiðis hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson og auðvitað nokkrir fleiri sem sjást hér við og við því það er ekki rétt að skamma þá fáu sem þó eru viðstaddir frekar en prestarnir eiga að hella sér yfir þá sem mæta í messu.

Herra forseti. Ég vildi koma þessum orðum á framfæri vegna þessa og boða það hér með að ég er orðinn vægast sagt harla óánægður með frammistöðu ýmissa aðila í þessum efnum og ég tel að það hjálpi ekki til, það greiði ekki götu þess að þingið geti lokið störfum á skikkanlegum tíma og lokið öllum þeim verkefnum sem nauðsynlegt er talið eða því er ætlað að gera. Menn ættu að gera sér grein fyrir því nú þegar komið er föstudagskvöld að það þarf að halda vel á spöðunum ef því takmarki á að ná.