18.12.1987
Neðri deild: 31. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2625 í B-deild Alþingistíðinda. (2010)

198. mál, tollalög

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það fór sem ræðumaður óttaðist að það yrði þunnskipað í deildinni þegar þessari umræðu yrði fram haldið á kvöldfundi. Hér var það gert nokkuð að umtalsefni á sjöunda tímanum að það væri æskilegt þegar umræðum yrði fram haldið eftir kvöldmatarhlé að þá mundu nokkrir tilteknir hæstv. ráðherrar heiðra deildina með nærveru sinni og gjarnan þátttöku í umræðum til að skýra ofurlítið málin og svara þeim spurningum sem beint hafði verið til þeirra og óskað hafði verið sérstaklega eftir því að tilteknir ráðherrar yrðu viðstaddir. Nú er hér að sönnu hæstv. viðskrh., sem er manna samviskusamastur og þaulsætnastur við þingstörfin, og ber að fagna því og virða, en hér er hins vegar enginn af þeim hæstv. ráðherrum sem sérstaklega var beðið um að yrðu viðstaddir. Ég hef trú á að forseti sá sem stýrði fundi fyrir kvöldmatarleyfi og starfsmenn þingsins hafi komið skilaboðum áleiðis til þessara hæstv. ráðherra og þeim eigi að vera kunnugt um að hér stendur yfir umræða um tollafrv. og nærveru þeirra hafði verið óskað, m.a. til þess að hægt væri að bera upp við þá spurningar og fá þeim svarað. Það hafa reyndar þegar verið bornar upp spurningar við t.a.m. hæstv. iðnrh. og hann hafði kinkað ákaft kolli, hæstv. ráðherra, og látið svo sem hann mundi verða hér til svara í umræðum. Nú er enginn af þessum hæstv. ráðherrum hér, ekki heilbr.- og trmrh. til að svara ofurlítið fyrir manneldisstefnu ríkisstjórnarinnar og hollustuþátt tollastefnunnar, ekki félmrh. hæstv. til að útskýra fyrir þingdeildinni hvernig fjölskyldustefna ríkisstjórnarinnar komi fram í tollafrv., ekki iðnrh. til að svara beinum spurningum, sem hann hafði þegar móttekið, um hvernig stæði til að gæta hagsmuna íslensks iðnaðar og hvernig væru nýttir þeir möguleikar sem gefast í gegnum álagningu tolla og vörugjalda til þess að gæta hagsmuna sérstaklega framleiðsluiðnaðarins. Hæstv. fjmrh. er meira að segja gufaður upp. Það getur vel verið að hann sé einhvers staðar á róli um þinghúsið. Jú, oft kemur góður þá getið er.

En þetta er engu að síður ámælisvert, herra forseti. Ég hafði talið mig taka svo skýrt til orða fyrir kvöldmatarhlé um að það væri ómögulegt og óviðunandi að umræður stæðu hér lon og don og verið væri að bera fram fullkomlega rökstuddar efnislegar spurningar til hæstv. ráðherra og þeir létu yfirleitt ekki svo lítið að láta sjá sig og væru þá óðar horfnir ef eftir þeim væri spurt.

Nú vil ég spyrja virðulegan forseta hvort þessir hæstv. ráðherrar hafi fengið þau boð. (Forseti: Allir umræddir hæstv. ráðherrar eru í húsinu staddir. Ég vildi spyrja hv. þm. að því hvort hann óskaði þess að það væri gert boð eftir þeim þannig að þeir gætu komið hingað í deildina.) Það er eindregin ósk ræðumanns og þar sem ég er að taka til máls í annað sinn við þessa umræðu mun ég halda stöðu minni í ræðustólnum meðan hæstv. ráðherrar tínast í salinn og bera síðan upp við þá þeirra sem ég hafði ekki náð áður að ávarpa sökum fjarveru nokkrar spurningar. En hæstv. iðnrh. ætti í sjálfu sér ekkert að vera að vanbúnaði að koma og taka þátt í umræðunni.

Ég held að það sé ágætt, herra forseti, að við látum einu sinni á það reyna hvort er eitthvað hægt að aga menn til í þessum efnum, hvort hæstv. ráðherrar taka skyldur sínar við Alþingi alvarlega eða ekki og hvort menn eiga að una því að hafa aftur og aftur uppi óskir um nærveru ráðherra, bera aftur og aftur fram spurningar án þess að fá þeim svarað. Ég verð að segja það, virðulegur forseti, að ég þreytist a slíku og ég held ég nenni ekki mjög lengi að sitja undir því án þess að einhver botn fáist í það mál hver staða ráðherra skuli vera, hverjar skyldur þeirra skuli vera þegar þm. bera fram spurningar, koma með óskir af því tagi sem hljóta að vera hluti af hinum eðlilega þingræðislega framgangi mála á þinginu.

Ég trúi að vísu ekki öðru en hæstv. fjmrh. hafi hugsað sér að taka til máls og svara mínum spurningum sem ég veit að hann skrifaði niður með rauðum penna í stílabók fyrr á fundinum. Hann var að vísu ekki við þegar stóð til að ljúka umræðunni þannig að það hefur þá væntanlega verið slys að hæstv. ráðherra var ekki búinn að biðja um orðið til þess að ekki færi nú þannig að umræðum lyki án þess að hann kæmi upp og svaraði eða ég ætla a.m.k. ekki hæstv. ráðherra að hafa ætlað að láta það líða fram hjá og láta umræðunni ljúka án þess að hann gerði ráðstafanir til þess að komast á mælendaskrá.

Nú þætti mér vænt um að fá uppgefið hvort að hæstv. fjmrh. hefur látið setja sig á mælendaskrá. (Forseti: Hv. 4. þm. Norðurl. e. er eini hv. þm. sem er á mælendaskrá núna, sá sem er í ræðustól. — En hæstv. fjmrh. hefur nú kvatt sér hljóðs.) Það gleður mig svo sannarlega að hæstv. fjmrh. ætlar að leggja orð í belg og ég treysti því og trúi að hann muni þá svara þeim spurningum sem ég beindi til hans og ég veit að ég þarf ekki að endurtaka af því að hann skrifaði þær samviskusamlega niður, hæstv. ráðherra, um uppruna frv. og ýmsa þætti því tengda.

Nú kemur hæstv, iðnrh. og gengur í salinn, gleður það okkur stórlega. Og þá vildi ég spyrja, herra forseti: Er hæstv. iðnrh. á mælendaskrá? (Forseti: Hæstv. iðnrh. hefur ekki kvatt sér hljóðs enn.) Það gleður mig ekki eins mikið. Ég hafði spurt hæstv. iðnrh. beinna efnislegra spurninga um stöðu iðnaðarins og hagsmuni iðnaðarins í sambandi við þessar breytingar og ég trúi því ekki að óreyndu að hæstv. ráðherra ætli ekki að bregðast vel við þeim skyldum sínum og reyna að svara einhverju til um það. Það verður þá reynt að sjá til þess með einhverjum hætti að umræðan haldist opin um stund á meðan hæstv. iðnrh. hugsar málið. Vonandi kemst hann fljótlega að þeirri niðurstöðu að hann hafi einhverju að miðla í umræðunni, að hann sé ekki alveg tómur, hæstv. ráðherra, þannig að það verði að biðjast lausnar fyrir hans hönd, fá einhvern annan sem bæði getur tekið til máls og hefur eitthvað að segja.

Nei, þetta gengur auðvitað ekki, herra forseti. Það verður að koma hér fram og er ágætt að taka til þess þennan kvöldfund þá að láta liggja alveg ljóst fyrir hver hugur fylgir máli hjá hæstv. ráðherrum. Ríkisstjórn sem ætlar að keyra í gegnum Alþingi á örfáum sólarhringum 20 eða 30 lagafrv. hefur ekki efni á því að vera heima hjá sér á kvöldin þegar hér standa yfir fundir. Það er þá eins gott að a.m.k. þeir hafi sömu nennu og þeir hv. alþm. sem taka þingskyldur sínar alvarlega og starfa eins og lög gera ráð fyrir á þeim tíma sem Alþingi heldur fundi.

Herra forseti. Þinghúsið er orðið meira en 100 ára og það er ekki mjög stórt, en tekur það virkilega allan þennan tíma að ná þeim í salinn, hæstv. félmrh.

og hæstv. heilbr.- og trmrh. — Nú, ég biðst forláts. (Forseti: Hæstv. félmrh. hefur gengið í salinn fyrir allnokkru.) Fyrir allnokkru. En er það þá ekki eingöngu hæstv. heilbr.- og trmrh. sem er ókominn af þeim ráðherrum sem beðið hafði verið um að yrðu hér staddir og gerðar höfðu verið ráðstafanir til að viðvara fyrir kvöldmat? Ég hygg að svo sé.

Við skulum þá gefa hæstv. heilbr.- og trmrh., sem vonandi er við góða heilsu, stundarkorn enn til að komast í salinn og ég ætla þá að bera upp spurningar við hæstv. félmrh. af því að ég tel að bæði hæstv. iðnrh. og hæstv. fjmrh. hafi nú þegar fengið efni til að svara.

Það sem við vorum að ræða fyrr á fundinum, hæstv. félmrh., það var hvernig sú fjölskyldustefna, sem fjallað er um í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, birtist í tollafrv. Það virðist nefnilega koma svo sérkennilega út þegar farið er yfir frv. að ákveðnir vöruflokkar séu sérstaklega lagðir í einelti og einkum og sér í lagi allt það sem flokkast undir nauðsynjavarning heimilanna. Það hefur vakið nokkra athygli þeirra sem haft hafa tíma til að blaða í gegnum tollskrána — nú fer að verða fullmætt, herra forseti — að ef einhvers staðar stendur orðið „heimilis“ í nágrenni við einhverjar vörur eða vöruflokka er það gjarnan stokkið upp í hæsta tollflokk og beri maður það svo saman við frv. um vörugjald er þar yfirleitt sömu sögu að segja. Hins vegar er ýmis annar varningur, sem ekki hefur verið flokkaður undir bráðnauðsynleg heimilistæki eða matvöru, gjarnan færður niður og jafnvel felldir með öllu niður tollar og vörugjöld af slíkum vörum og aðallega með þeim rökum að það eigi að flytja verslunina inn í landið og koma á Glasgow-verði á Íslandi. Það virðast vera orðin meginrök, meginrökhugsun ef gefa má því svo virðulegt nafn, sem hægt er að finna í þessu frv.

Ég spyr hæstv. félmrh. sem ég þekki að samviskusemi og dugnaði: Hefur hæstv. ráðherra haft tíma til þess með starfsfólki sínu í félmrn. að fara yfir tollafrv., kynna sér það og láta athuga og jafnvel reikna út, eftir því sem það er hægt, hvernig þessi gjörbreytta stefnumörkun í tollamálum kemur út fyrir fjölskyldurnar í landinu? Hefur það verið athugað t.d. ef teknar eru út úr þær vörutegundir sem vigta upp á tilteknar prósentur í neyslukörfu vísitölufjölskyldunnar sérstaklega en eru ekki allur tollapakkinn því að skriðdrekar og kjarnakljúfar eru ekki inni í neyslukörfu vísitölufjölskyldunnar svo dæmi séu tekin? Hefur verið athugað hvernig þetta kemur út fyrir fjölskyldurnar í landinu? Ég fer fram á að hæstv. félmrh. svari því þó ég þykist reyndar vita svarið. Það er eins og með annað. Það hefur ekki unnist tími til þess eða ekki verið gert. Ég a.m.k. býst við eða óttast mjög að svarið verði á þá leið.

Mönnum finnst þetta kannski alveg ástæðulaust og finnst kannski bara leiðindaþras að bera upp svona spurningar fyrir hæstv. ráðherra. En tilgangur minn er sá að fá fram hvernig hefur verið unnið að þessu máli og fá það á hreint. Vegna hvers? Jú, vegna þess að það er sjálfsagt í hverju einasta tilfelli að það liggi fyrir, en það hefur sjaldan verið jafnnauðsynlegt að mínu mati og núna að Alþingi fái að vita hversu vandaður undirbúningur málsins var vegna þess að Alþingi er nefnilega ætlað að afgreiða þetta á örfáum sólarhringum í gegnum þingið, þetta mál sem ku hafa komið hér inn 9. des. eða þann 10., ég mann nú ekki hvort heldur var, og barst þessari hv. deild á þessum sólarhring og jólin koma þann 24. eins og venjulega ef því verður þá ekki breytt með einhverjum sérstökum ráðstöfunum.

Og hæstv. heilbr.- og trmrh. Hér var fyrr á fundinum rætt nokkuð um það í hverju hún birtist í þessu tollafrv. manneldisstefna hæstv. ríkisstjórnar. Þá var m.a. upplýst hér af einhverjum fróðum aðila um áhugamál Landssambands framsóknarkvenna að manneldisstefnan væri þar alveg í sérstöku uppáhaldi. Já, það er rétt, segir hæstv. ráðherrann. Og þá lifnar yfir mönnum. Þá hefur væntanlega verið vel fyrir því séð að manneldisstefna Landssambands framsóknarkvenna komi rækilega fram eða a.m.k. að eins miklu leyti og framsóknarmenn höfðu bolmagn til að láta taka tillit til hennar í tollafrv. Og er það kannski þannig, hæstv. ráðherra, að það sé með fullu samþykki og með blessun og vilja heilbrmrh. að ýmsar hollustuvörur eru hér tollaðar, skattlagðar í öðru máli og lagðar á þær vörugjöld í því þriðja a sama tíma og tollar eru lækkaðir eða felldir niður með öllu af sælgæti og ýmsum slíkum sykurvörum og öðru sem ekki hefur beint verið flokkað undir hollustu og manneldisstefnu? Það má væntanlega spyrja hæstv. heilbrmrh. sömu spurningar og hæstv. félmrh.: Hefur starfsfólki ráðuneytisins, hefur landlæknisembættinu, hefur öðrum slíkum aðilum gefist ráðrúm til að fara yfir frv. og athuga hvernig það er, hvernig samræmi þess er við þau markmið sem menn hafa sett sér um hollustu og manneldi? Var þetta unnið þannig á faglegan hátt að þessi stóri málaflokkur, sem skiptir miklum sköpum fyrir þjóðina, sem er útgjaldafrekur hvað starfrækslu varðar, allur rekstur heilbrigðiskerfisins í landinu, var það haft í huga þegar stefna var mörkuð í sambandi við tolla og vörugjöld og söluskatt? Ég held að það sé ágætt að hæstv. ráðherrar svari fyrir þetta meira og minna allt í einu. Það er a.m.k. vel heimilt fyrir mér, herra forseti. Forseti verður auðvitað að meta að hve miklu leyti er óhjákvæmilegt að ræða hér fleiri en eitt dagskrármál vegna þess hvernig þau tengjast hvert öðru.

Ég held að það sé þá líka ágætt að fá fram hvort hæstv. ráðherrar ætla að svara eða að reyna að svara. Ég skal taka viljann fyrir verkið að svo miklu leyti sem það er nauðsynlegt, en ég tek því ekki þegjandi að það haldi áfram, sem verulega hefur borið á hér undanfarna daga, að bornar séu upp spurningar og það sé ekki borið við að svara þeim. Það gengur ekki. Það flýtir ekki fyrir umræðunum. Það leiðir ekki til þess að málið komi betur undirbúið, betur skoðað af hálfu þingsins þegar til kastanna

kemur. Þvert á móti er það mjög nauðsynlegt að hæstv. ráðherrar láti ekki standa á því að koma með allar þær upplýsingar sem þeir geta þegar um þær er beðið og á það hvort sem heldur er í umræðum eða í starfi þingnefnda.

Herra forseti. Ég ætla nú að gefa orðið laust svo hæstv. ráðherrar fái nú ráðrúm og tækifæri til að tala og svara og við skulum sjá hvað setur.