19.12.1987
Neðri deild: 32. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2659 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

197. mál, vörugjald

Fjármálaráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Til mín hefur verið beint tveimur spurningum. Sú fyrri var: Hvaða nauður rekur til að gildistíminn verði um áramót vegna þessarar kerfisbreytingar? Svarið er tvíþætt.

Í fyrsta lagi: Hér er verið að endurskoða um það bil 4/5 hluta af tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Tekjuhlið fjárlagafrv. byggir á þessum skattstofnum, lagaheimildum um tekjuöflun vegna þessa nýja tekjuöflunarkerfis. Fjárlagafrv. verður því ekki afgreitt fyrir næsta ár nema þessi tekjuöflunarfrv. hafi fengið lagagildi. Það er meginástæðan og nægir ein út af fyrir sig.

Hin ástæðan er sú að það er eðli þessarar kerfisbreytingar að hún getur leitt til margvíslegra óeðlilegra viðbragða, spákaupmennsku gætum við sagt, ef aðdragandi hennar er allt of langur. Þó ekki komi annað til eru þessar ástæður tvær nægar.

Hv. 5. þm. Reykv. spurði síðan um tekjuöflunaráhrif frv. Svar við því er að finna á bls. 7 í grg. með frv. þar sem segir að gjaldstofn vörugjaldsins sé 11,4 milljarðar en áætlaðar tekjur á verðlagi fjárlagafrv. 1600 millj.

Hin spurningin er hversu stór þáttur þessarar tekjuöflunar sé fólginn í þessum þremur prósentustigum á þann innlenda hluta vörugjaldsins. Ég verð að játa að þá tölu hef ég ekki tiltæka, en læt mér nægja á þessu stigi máls að segja að yfirgnæfandi stærsti hluti skattstofnsins stafar af innflutningi. Hlutur innlendrar framleiðslu, sem þetta varðar, er til mikilla muna minni og þessi 3% munur þýðir að sá hluti þessara tekna upp á 1600 millj. er óverulegur. En töluna hef ég nákvæmlega ekki og læt mér því nægja að svara þessu á þennan veg því að ég vil ekki vera með tilgátu í því efni.