19.12.1987
Efri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2667 í B-deild Alþingistíðinda. (2042)

196. mál, söluskattur

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég var að ganga frá skriflegri brtt., sem verður útbýtt á hverri stundu. Hún er við 3. gr. frv., staflið b, 12. lið, þar sem talað er um niðurfellingu á söluskatti vegna hitunar húsa og laugarvatns, um að síðari hluti setningarinnar hljóði svo: Til hitunar húsa og laugarvatns, varmadælna og dælingar hitaveitna.

Sá efnismunur sem er á þessu og frv. er að við bætist „til dælingar hitaveitna“ sem er eðlileg breyting þar sem það hefur einungis verið spurning um eignaraðild sem hefur ráðið því samkvæmt núgildandi framkvæmd hvort til greiðslu söluskatts kæmi eða ekki. Það lá fyrir erindi frá Sambandi ísl. rafveitna að í staðinn fyrir orðin „Til hitunar húsa og laugarvatns“ kæmi: Til rafmagnshitunar.

Það hefur lítill tími gefist til að athuga þetta mál ofan í kjölinn, en ég vil minna á að samkvæmt stefnumörkun ríkisstjórnarinnar er ákveðið að virðisaukaskattur verði tekinn upp að ári sem auðvitað þýðir að orðalagsmunurinn skiptir ekki máli úr því. En í erindi Sambands ísl. rafveitna voru hafðar í huga sérþarfir ótiltekinna iðnaðarfyrirtækja.

Ég hef rætt þetta mál við fulltrúa fjmrn. og hefur það orðið til samkomulags að framkvæmdin varðandi rafhitun verði eins á næsta ári og tillagan liggur hér fyrir og ég vona að hv. þingdeildarmenn geti vel unað því.