19.12.1987
Neðri deild: 33. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 2761 í B-deild Alþingistíðinda. (2090)

194. mál, verkaskipting ríkis og sveitarfélaga

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá að koma hér í ræðustól. Mér var ljóst að forsetafundurinn yrði kl. 5 og síst af öllu var meiningin af minni hálfu að rýra ræðutíma hv. 2. þm. Austurl.

En ástæðan fyrir því að ég kem upp fyrir hönd þm. Reykvíkinga er sú að okkur hefur í dag borist bréf frá borgarritaranum í Reykjavík og þar sem allir forsetar þingsins eru þm. utan Reykjavíkur töldum við alveg nauðsynlegt að þetta bréf yrði kynnt fyrir þingheimi áður en fundað verður um hvaða mál skuli ná fram fyrir jól. Ég held að þetta bréf taki af öll tvímæli um að frv. er ekki afgreiðanlegt fyrir jól. Þetta bréf er frá Jóni G. Tómassyni, borgarritaranum í Reykjavík. — Ég vil raunar spyrja, herra forseti: Er félmrh. í húsinu? (Forseti: Það skal upplýst að félmrh. er ekki í húsinu eins og stendur. Hæstv. ráðherra kom að máli við mig og sagðist þurfa að bregða sér frá. Hann er væntanlegur í húsið innan tíðar en ekki fyrr en eftir hlé.) Þá verðum við að vera án nærveru hennar. En bréfið hljóðar svo:

„Hjálagt sendi ég yður afrit af bréfi mínu frá 18. þ.m. til félmrh. varðandi frv. til l. um breytingar á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Eins og fram kemur í bréfi mínu til ráðherra var gerð veruleg breyting á frv. því sem nefndin samdi án þess að höfð væru samráð við mig um það og þrátt fyrir að ég hafði á nefndarfundum lýst því afdráttarlaust yfir að ég mundi ekki fallast á tillögu sama efnis. Í skipunarbréfi nefndarinnar frá 12. fyrra mánaðar var henni þó falið að semja frv. til laga. Ég tel að þessi vinnubrögð jaðri við fölsun og séu móðgandi gagnvart mér og þeim aðila sem tilnefndi mig í nefndina.

Aðalatriðið er hins vegar að ekki verða séð nein efnisrök fyrir því að fjvn. eigi að skipta greiðslum úr uppgjörsdeild Jöfnunarsjóðs. Í athugasemdum við 28. gr. frv. eins og nefndin samdi það er skýrt að uppgjörsdeild er ætlað að greiða áfallnar skuldbindingar ríkissjóðs vegna framkvæmda sem flytjast frá ríki til sveitarfélaga um næstu áramót og samkvæmt sérstöku uppgjöri sem gert verður um stöðu hvers verkefnis gagnvart hverju sveitarfélagi.

Tillaga nefndarinnar var að greiðslum samkvæmt fjárveitingum hvers árs yrði síðan skipt milli aðila eftir reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum Sambands ísl. sveitarfélaga en ekki háð geðþóttaákvörðunum.

Á fundi sínum 18. þ.m. samþykkti stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga að mæla gegn því að fjvn. verði falið þetta verkefni. Vegna reynslu Reykjavíkur af störfum fjvn. mælist ég til þess að þingmenn Reykjavíkur stuðli að því að breyta frv. í það horf sem nefndin lagði til.

Bréf þetta sendi ég öllum þingmönnum Reykjavíkurkjördæmis.

Jón G. Tómasson.“

Herra forseti. Ég skal mjög stytta mál mitt, en ég held að nauðsynlegt sé að víkja að því bréfi sem Jón G. Tómasson víkur aðeins að í þessu bréfi til okkar þm., en það er til hæstv. félmrh. og dagsett 18. des., þ.e. í gær:

„Með bréfi til yðar dags. 7. þ.m. skilaði nefnd, sem ég átti sæti í samkvæmt tillögu Sambands ísl. sveitarfélaga, tillögu að frv. til l. um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga að því er snertir kaflann um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Í b-lið 28. gr. frv., sbr. 194, þingmál, er tillögu nefndarinnar breytt og kveðið á um að fjvn. skipti greiðslum úr uppgjörsdeild. Í tillögu nefndarinnar sagði: Greiðslum úr uppgjörsdeild skal skipt milli þeirra sveitarfélaga og félagasamtaka sem hér um ræðir eftir reglum sem félmrh. setur að fengnum tillögum Sambands ísl. sveitarfélaga og viðkomandi ráðuneytis.

Þessi breyting var ekki borin undir mig sem hafði þó mótmælt hugmynd sama efnis í fyrstu frumvarpsdrögum. Engu að síður er gefið í skyn í greinargerð með frv. að ég hafi staðið að þessari tillögu. Þessum vinnubrögðum hlýt ég að mótmæla jafnframt því sem ég lýsi þeirri skoðun minni að greiðslur úr uppgjörsdeild eigi að vera fjvn. óviðkomandi og að eðlilegra sé að farið verði eftir reglum sem ráðherra setur að fengnum tillögum Sambands ísl. sveitarfélaga.

Jón G. Tómasson.“

Herra forseti. Ég held að alveg sé nauðsynlegt að aðrir þm. viti af þessum bréfum því að í frv. því sem við höfum rætt um í allan dag eru lokaorð grg. þessi, með leyfi forseta:

„Í þeirri nefnd voru Indriði H. Þorláksson skrifstofustjóri, tilnefndur af fjmrh., Jón G. Tómasson borgarritari, tilnefndur af Sambandi ísl. sveitarfélaga og Húnbogi Þorsteinsson skrifstofustjóri, tilnefndur af félmrh.“

Ég tel það alveg ljóst að frv. er þannig vaxið að það er ekki vit í að það verði afgreitt í flýti fyrir jól. Ég hef ekki tök á því að ræða það efnislega, geri það kannski seinna, en ég held að það sé alveg nauðsynlegt að þessi bréf verði lögð fyrir þann forsetafund sem nú á að hefjast á hverri stundu. Ég hygg að þetta geti breytt töluvert afstöðu manna til frv.

Ég þakka svo, herra forseti, fyrir að fá að seinka honum á forsetafund um heilar fimm mínútur. — [Fundarhlé.]