28.12.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3204 í B-deild Alþingistíðinda. (2260)

1. mál, fjárlög 1988

Danfríður Skarphéðinsdóttir:

Herra forseti. Þingheimur hefur rétt í þessu fellt till. frá mér og öðrum þingkonum Kvennalistans um þetta sama efni, að í raun verði jafnaður námskostnaður nemenda sem stunda nám í framhaldsskóla fjarri sinni heimabyggð. Tillaga okkar gerði ráð fyrir hækkun dreifbýlisstyrks í 100 millj. kr. Það verður æ fleirum ljóst að menntun er eitt af mikilvægustu atriðunum varðandi dreifbýlið. Til að halda þar byggð verða börn dreifbýlisbúa að eiga jafnan rétt á við aðra til menntunar. Það kom fram sem svar við fsp. fyrr á þingtímanum að upphæð sú sem nemendum er ætlað að lifa af eða réttara sagt er ætluð til jöfnunar á námskostnaði var upphaflega 26 þús. á núgildandi verðlagi, en er komin niður í 12 þús. Nemendur borga hátt á annað hundrað þús. kr. fyrir fæði og húsnæði í heimavist við framhaldsskólana. Þó þessi tillaga gangi ekki eins langt og tillaga okkar kvennalistakvenna er um nokkra bót að ræða fyrir nemendur dreifbýlisins. Ég segi því já.