28.12.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3211 í B-deild Alþingistíðinda. (2290)

1. mál, fjárlög 1988

Iðnaðarráðherra (Friðrik Sophusson):

Herra forseti. Hækkun raforkuverðs til húshitunar vegna minni niðurgreiðslna verður 4,5% samkvæmt útreikningum Rafmagnsveitna ríkisins sem gerðir voru til að leiðrétta ummæli hv. fyrri flm. þessarar brtt. við 2. umr. fjárlaga, en þau virðast hafa verið byggð á misskilningi. Hann taldi hækkunina nífalt hærri en hún í raun verður af þessum sökum og endurtók það síðan áðan í sinni atkvæðaskýringu. Þrátt fyrir þessa hækkun vegna minni niðurgreiðslna og vegna hækkana sem koma til vegna áætlaðra verðlagsbreytinga verður raforkuverð til húshitunar á næsta ári talsvert lægra á föstu verðlagi en það var á árunum 1980, 1981, 1982 og 1983 en þá var hv. fyrri flm. orkumálaráðherra. Ég segi nei.