28.12.1987
Sameinað þing: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3212 í B-deild Alþingistíðinda. (2294)

1. mál, fjárlög 1988

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér eru menn að reyna að bjarga því að ekki séu framkvæmd mistök á elleftu stundu. Á bls. 200 í því fjárlagafrv. sem þm. hafa undir höndum er óskað eftir heimild til að selja eign sem samkvæmt afsali útgefnu 15. okt. 1987 hefur nú þegar verið seld. Það hlýtur að vera mjög erfitt fyrir þingið að veita ráðherrum heimild til að selja eign sem þeir hafa þegar selt og óska ekki eftir í heimildargreinum að fá keypta að nýju svo þeir geti þá selt aftur. Það virðist ekki vera nema ein leið hjá ráðherranum að eiga þess kost að selja þetta á nýjan leik og það er að komast yfir eignina með óvönduðum hætti úr því sem komið er þar sem þeir hafa þegar látið hana af hendi og óska ekki eftir löglegri heimild til að eignast hana á nýjan leik. Það sem um er að ræða er sala á grænfóðurverksmiðjunni í Flatey í Austur-Skaftafellssýslu. (Forseti: Hv. þm. skal bent á að það orkar a.m.k. tvímælis að þetta sé um þingsköp.) Herra forseti. Ég vek athygli forseta á að á meðan þetta atriði er inni í frv. er gersamlega vonlaust að greiða atkvæði um greinina eins og hún kemur fyrir og ég treysti mér ekki til þess þar sem mér virðist að ofan á stjórnarskrárbrot, sem framið hefur verið, sé óskað eftir heimild til að endurtaka sölu á eign sem ríkið hefur þegar selt.