28.12.1987
Neðri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3220 í B-deild Alþingistíðinda. (2307)

181. mál, stjórn fiskveiða

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Hér er komið til umræðu í hv. deild stórt og viðamikið mál sem, eins og frummælandi, hæstv. sjútvrh., gat um í máli sínu áðan, snertir hag flestra byggða á Íslandi og allra byggða í reynd því að sjávarafli er undirstaða í okkar þjóðarbúskap. Um það deilir enginn. Hér er því komið til umræðu mál sem hlýtur að verða eitt stærsta mál þessa þings eins og það hefur verið þegar fiskveiðistjórnun hefur verið til umræðu á undanförnum þingum.

Ég legg á það áherslu að jafnframt því sem mál þetta fái góða og ítarlega meðferð þá verði staðið við það af hálfu hæstv. sjútvrh. og þeirra sem eru stuðningsmenn hans í þessu máli að leita sem mestrar lýðræðislegrar samstöðu, eins og ráðherrann hæstv. orðaði það hér áðan, um niðurstöðu málsins því að fátt er mikilvægara en að um fiskveiðistjórnunina megi takast þokkalegur friður í landinu, meiri friður en ríkt hefur, og menn noti það tækifæri sem nú er til þess að læra af reynslu undanfarinna ára í sambandi við það stjórnkerfi sem tekið var upp, fyrst til eins árs í senn og síðan til tveggja ára, 1984 og 1985 og síðar.

Það er áreiðanlega vilji míns þingflokks að hægt verði að móta slíka samstöðu en þá þurfa fleiri að koma til. Þeir sem bera málið hér inn á Alþingi þurfa einnig að leggja sig fram um það að mæta þeim sjónarmiðum sem koma fram hér og einnig úti í þjóðfélaginu. Í því sambandi get ég ekki annað en minnst á blaðagrein í einu stjórnarmálgagnanna, dagblaðinu Tímanum, sem lesa mátti á Þorláksmessu. Ég hef því miður ekki viðkomandi blaðagrein hér handa á milli til þess að vitna til hennar með beinum hætti en þar var farið hinum háðulegustu orðum um það fólk sem er að reyna að hafa samstarf við okkur alþm., samband við okkur um þetta mikla lífshagsmunamál og leggur á sig að koma hingað til Reykjavíkur, sumir um langan veg, til þess að ræða við okkur alþm. og kynna sín sjónarmið, hafa jafnvel fyrir því að eiga hér vökunætur eins og þm. á þingpöllum án þess að trufla með nokkrum hætti þingstörf. Um þetta fólk, og ég hygg að þar hafi smábátaeigendur verið í meiri hluta, sem lagði á sig vökunótt aðfaranótt 22. des. sl., fór stjórnarmálgagnið Tíminn hinum háðulegustu orðum. Menn geta gluggað í þetta málgagn þar sem ég hygg að einnig hafi verið birt mynd af þeim sem mættir voru á þingpalla til þess að fylgjast með málum þessa nótt þegar málið var til langrar umræðu í Nd. þingsins.

Það er ekki þannig sem á að vinna að málum af þeim sem völdin hafa, með því að kasta glósum og fúkyrðum í það fólk sem reynir með eðlilegum lýðræðislegum hætti að hafa samband við sína umbjóðendur, kynna Alþingi sín sjónarmið. Við þurfum þvert á móti á því að halda hér á Alþingi Íslendinga að þar sé opið hús en ekki lokað eins og lagt var til í skrifum stjórnarmálgagnsins Tímans umræddan dag. Ég vona að hæstv. sjútvrh. — er raunar viss um það að hann stóð ekki að baki þeim skrifum sem slíkur þó þau væru í málgagni þess flokks sem hann tilheyrir. Ég vænti þess að það liggi að baki orða hans hér áðan um lýðræðislegt samstarf raunverulegur vilji til þess að koma til móts við gild sjónarmið, rökstudd sjónarmið sem stór hluti þm. í þessari hv. deild ber fyrir brjósti, jafnt í stjórnarandstöðu sem í stjórnarliði.

Því er mjög á lofti haldið nú þegar mál þetta er tekið til umræðu að það verði að afgreiða það fljótt og það sé hin mesta óhæfa ef áramótin líði án þess að frv. þetta, sem hér er nú tekið til 1. umr. í hv. þingdeild, öðlist lagagildi. Við heyrum þetta ekki aðeins varðandi þetta mál, stjórn fiskveiða. Við, stjórnarandstaðan, fengum kveðjur frá hæstv. fjmrh. í kvöld í gegnum sjónvarpið þar sem hellt var yfir okkur heldur óvægilegum orðum og dómum. Mig minnir að mikill usli hafi komið þar við sögu. Og þetta mæla ráðherrar í ríkisstjórn Íslands sem skila þingmálum, stærri þingmálum en Alþingi hefur fengist við um langt skeið, hér inn þegar vika er liðin af aðventunni, af jólaföstunni. Þeim sæmir það þessum herrum að koma fram fyrir alþjóð í fjölmiðlum og velja stjórnarandstöðu, sem er að gæta lýðræðislegs réttar síns, sem er að notfæra sér lýðræðisleg réttindi og rækja lágmarksskyldur sínar til að reyna að fylgjast með þeim málum sem hér eru lögð inn, til að reyna að knýja fram breytingar sem við metum réttar á þessum málum. Það er ansi hart að fá það dag eftir dag, þegar ríkisstjórnin stendur þannig að málum að hér háttar til með óvenjulegum hætti á Alþingi Íslendinga, að það sé stjórnarandstaðan sem sé að gera usla í samfélaginu. Ég vara hæstv. ráðherra við málflutningi af þessu tagi. Ég vara þá við að ætla að ganga þannig fram gagnvart Alþingi Íslendinga, framkvæmdarvaldinu og þeim sem ráða ferðinni og eru sterku öflin í flokkum ríkisstjórnarliðsins. Ég er ekki viss um að það verði allir þeirra stuðningsmenn sem eru stimplaðir inn á töfluna hérna frammi sem taka heils hugar undir vinnubrögð af því tagi. Ég segi þetta hér að gefnu tilefni við upphaf míns máls um þetta frv.

Hæstv. sjútvrh. sagði með réttu að það væri mjög þýðingarmikið að vandað væri til verks af þessu tagi. Ég tek undir það með honum en ég hlýt um leið að spyrja: Hvernig stendur á því að hæstv. ráðherra, sem ekki er neinn nýgræðingur í sjútvrn. eða í ríkisstjórn landsins heldur hefur haldið þar um stjórnvöl frá því að þetta stjórnkerfi var upp tekið, skuli ekki hafa undirbúið þetta mál með öðrum hætti en raun ber vitni, með markvissari hætti þannig að Alþingi gæti fengið það til meðferðar við upphaf þings á sl. hausti? Það hefði verið að ástunda markviss vinnubrögð og að gera þinginu kleift í reynd að fjalla um málið með eðlilegum og lýðræðislegum hætti. En þetta gerðist ekki. Það er fyrst um miðjan septembermánuð sem hæstv. ráðherrann kallar saman ráðgjafarnefnd, stóran hóp hagsmunaaðila, og óskar eftir þátttöku þm. í störfum þeirrar nefndar sem endaði með því í nóvembermánuði, það má orða það svo, að þessi ráðgjafarnefnd gufaði upp því að eftir hana lágu í rauninni engar tillögur. Þar var ekki komist að neinu markvissu samkomulagi eða tillögugerð og maður spyr sig: Hvers vegna var hópur af þessu tagi ekki kvaddur til fyrir ári síðan eða a.m.k. í lok þings sl. vor til þess að fjalla um málin þannig að það mætti þá grípa til annarra ráða ef svo færi, sem fór, að þessi ráðgjafarnefnd næði ekki saman um málið?

Hæstv, ráðherra greip síðan til þess ráðs í byrjun nóvember, þegar sýnt var hvert stefndi með störf þessarar ráðgjafarnefndar, að kveðja til hóp þm., óska eftir hópi þm. til þess að ráða ráðum og reyna að mynda einhvers konar samstöðu um þetta mál á grundvelli draga að frv. um stjórn fiskveiða sem hann hafði þá tekið saman og lagt fyrir þá aðila sem um þetta fjölluðu undir forustu hans ráðuneytis. Uppskeran úr þessu starfi varð nánast ekkert önnur en gerðist í ráðgjafarnefndinni. Það fór lítið fyrir starfi þessa þingmannahóps, það var takmarkað a.m.k., og allt of seint til komið til þess að vænta mætti skilmerkilegs árangurs af því starfi. Því réðust málin með þeim hætti sem ég hef hér nefnt og hv. alþm. þekkja að það er í rauninni aðeins jólafastan sem eftir er fyrir þm. og fyrir sjútvn. þingdeilda til þess að fjalla um þetta stóra og þýðingarmikla efni.

Ég held því að við þurfum að átta okkur á því nú 28. des. að ef við í þessari þingdeild ætlum að fara yfir þetta mál með þeim hætti sem vert væri og við í rauninni hljótum að krefjast af okkur, þá getum við ekki verið bundin af dagatalinu. Ég er ekki með því að útiloka neitt í sambandi við afgreiðslu þessa frv. hvað snertir áramót. Ég er ekki með neinar vísbendingar í þá átt, en ég tel það þó með ólíkindum ef það ætti að takast á þeim tveimur þingdögum sem eftir lifa að afgreiða mál af þessu tagi sem lög frá þinginu þannig að allir geti sæmilega sáttir upp staðið eftir þann gjörning.

Ég hef heyrt það, bæði af vörum margra þm. sem teljast í stuðningsliði ríkisstjórnarinnar og ég hef lesið það í ummælum þeirra, jafnvel í ummælum einstakra ráðherra, að það er langt frá því að þar sé friður, að þar sé sátt í hugum þeirra við frv. eins og það er komið hér til þingdeildarinnar og því hljóta menn hér að leita leiða til breytinga sem ásættanlegar geta verið fyrir meiri hl. í hv. þingdeild. Framkvæmdarvaldsins er ekki að vera með nefið um of ofan í þessum málum eftir að það er komið inn í þingið. g hef auðvitað ekkert á móti því að ráðherrar greiði götu mála og leggi fram sín sjónarmið, en þeirra er ekki valdið og á ekki að vera valdið gagnvart Alþingi eftir að mál eru hingað inn komin til meðferðar og umfjöllunar.

Það væri óskandi, nú þegar Alþingi í þriðja sinn tekur stjórn fiskveiða til meðferðar, að um afgreiðslu þessa máls takist betri samstaða en orðið hefur þegar málið hefur verið til meðferðar tvívegis áður. Ég segi þetta vegna þess m.a. að þó að fiskveiðarnar séu gildur þáttur og geysilega þýðingarmikill þá eru það fleiri svið í sjávarútvegi sem Alþingi þarf að taka sér tíma til að fjalla um og marka aðra stefnu en verið hefur. Þar á ég sérstaklega við nýtingu aflans eftir á land er komið, um stöðu og þróun fiskvinnslunnar í landinu sem hefur verið hornreka stjórnvalda nú um langan tíma og birtist okkur síðast hér á Alþingi í dag og raunar við lok 2. umr. fjárlaga 22. des. sl. þegar ríkisstjórnarstuðningsliðið hér á Alþingi felldi tillögur um aukið fjármagn til rannsókna- og þróunarstarfsemi og átaks í þróun í fiskvinnslu í landinu sérstaklega.

Ég ætla ekki að fjalla um það svið hér og nú en ég vænti þess að á því máli verði tekið á nýju ári svo brýnt sem það er að þingið láti sig þau efni skipta. Þar fyrir utan er svo sá stóri vandi sem efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar og þróun mála, ytri aðstæður í tengslum við okkar útflutning, hafa valdið, sú hrikalega efnahagslega staða sem fiskvinnslan í landinu býr nú við og þar með undirstöðuatvinnuvegur landsmanna, undirstöðuútflutningsatvinnuvegur landsmanna. Við höfum gengið eftir svörum frá hæstv. ríkisstjórn um þau efni. Ég ætla ekki að endurtaka þær fsp. nú, svörin hafa nánast engin verið. Þar er vísað út í vindinn. Kannski er það æðsta ósk ríkisstjórnarinnar að losna við þingið þannig að hún geti farið að kokka þann graut sem ráðherrarnir telja sig áreiðanlega þurfa að matreiða, hvað þá áður en þeir verða samstiga um þær aðgerðir sem grípa verður til í einhverju formi til að koma í veg fyrir stöðvun á sjávarútveginum og þá sérstaklega fiskvinnslunni.

Ég vík örfáum orðum, herra forseti, að reynslunni af því stjórnkerfi sem við höfum búið við í fiskveiðum á undanförnum árum. Við tókum upp nýtt kerfi með lagasetningu 1983 og kvöddum þá stjórnkerfi sem sjútvrh. Framsfl. hafði staðið fyrir og farið með, sjútvrh. í ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens, Steingrímur Hermannsson, þ.e. hið svokallaða skrapdagakerfi.

Vissulega syrgði ég ekki að upp væri tekin breytt stjórnun fiskveiða frá því sem þá hafði verið um árabil. Ég gagnrýndi á þeim árum harðlega það stjórnleysi sem í rauninni ríkti undir forustu Steingríms Hermannssonar í ríkisstjórn sem sjútvrh. þar sem mjög var látið vaða á súðum. Ég taldi hins vegar, þegar upp var tekið kvótakerfið 1984, frá byrjun þess árs, að þar væri verið að færa allt of mikil völd inn í sjútvrn. með lagasetningu sem ekki átti sér hliðstæðu og einum ráðherra falin í rauninni öll völd í þessum undirstöðuatvinnuvegi landsmanna. Ég var ekki með þeim hætti að fordæma það kerfi sem upp var tekið eða lýsa það óhæft fyrir fram. Og ég tel sjálfsagt að við lítum fordómalaust á reynsluna af kvótakerfinu svokallaða í sambandi við fiskveiðistjórnun. Vissulega má finna því sitthvað til málsbóta.

Ég er þeirrar skoðunar að það sé fyllilega ómaksins vert að reyna að byggja á þessari reynslu, þróa það stjórnkerfi sem við höfum verið að reyna á undanförnum árum. En við verðum þá óhikað að taka á mestu agnúum þess sama kerfis. Það er ekki gert sem skyldi í frv. sem hér liggur fyrir til umræðu. Eitt meginmarkmið kvótakerfisins, þess stjórnkerfis sem við höfum búið við undanfarin ár í fiskveiðum, átti að vera það að hefta of mikla sókn í fiskstofna okkar, í aðalfiskstofnana, og með því að taka upp skiptingu aflans hvað þorskinn varðaði á skip. Þetta hefur ekki tekist nema að takmörkuðu leyti. Alþingi hefur að vísu ekki fylgt til hins ýtrasta, og ekki sjútvrh. með reglugerðarvald sitt, tillögum Hafrannsóknastofnunar í sambandi við veiðar úr helstu nytjastofnum okkar og þá sérstaklega þorskinum, yfirleitt sett markið nokkru ofar.

Menn geta haft sér sitthvað til afsökunar í þeim efnum. Hér er um mikla hagsmuni að tefla fyrir þjóðarbúið, fyrir útgerð, fyrir sjómenn ekki síður. Ég er ekki að álasa neinum þó að þar hafi ekki alltaf og í öllu verið farið að ýtrustu kröfum en þó hljótum við, þegar litið er til lengri tíma, að gera þá kröfu til samfélagsins og okkar sjálfra að við teflum aldrei á tæpasta vað, og aldrei á tæpt vað varðandi sókn í okkar helstu nytjastofna. Kvótakerfið hefur hins vegar komið út með þeim hætti að það er mjög langt frá því að staðið hafi verið við þau markmið sem ráðherra hefur sett á blað í reglugerð hverju sinni.

Umframaflinn á fjögurra ára tímabili nemur hátt í það sem svarar til ársafla á þessum árum, á fjórða hundrað þús. tonn af þorski sem farið mun hafa verið yfir þau mörk sem sett voru samanlagt á þessum árum. Þarna kemur vissulega til sá sveigjanleiki sem leitast var við að byggja inn í þetta kerfi með sóknarmarki. Þann sveigjanleika á nú að sníða af að nokkru leyti, og ég tel það út af fyrir sig geta verið réttlætanlegt. En það hlýtur að vera mikið umhugsunarefni þegar fiskveiðistjórnun fer það langt frá því markmiði sem henni er ætlað að aflinn skuli fara fram úr með þeim hætti sem þarna er um að ræða.

Menn spyrja: Er ekki allt í lagi þó að þetta gerist? Höfum við beðið af því nokkurn teljandi hnekki? Eru fiskstofnarnir í hættu? Er þorskstofninn í hættu? Um það höfum við orð forstjóra Hafrannsóknastofnunar, Jakobs Jakobssonar, sem birt voru sem fylgiskjal með nál. 1. minni hl. í Ed., Skúla Alexanderssonar sem stóð að þeim minni hl. Þar kemur það fram hversu gífurlega þyngd þorsksins hefur minnkað og dregist saman á þessum árum, þannig að meðalþyngdin er nú komin jafnvel undir þrjú kíló eftir að hafa verið nær fimm kílóum fyrir allnokkru síðan.

Þetta er þróun sem við verðum að horfast í augu við og taka alvarlega því að þetta er háskaleg þróun ef svo heldur fram sem horfir. Þegar þetta gerist við góðar aðstæður, vaxtarskilyrði í sjónum við Ísland, getum við spurt okkur: Hvað gæti gerst? Hvað mun gerast ef þessi skilyrði versna til muna? Hvað verður þá um nytjastofninn? Hvað verður um þyngd þorsksins? Ég held að við þurfum að hafa hættumerki af þessu tagi vel í huga þegar við ræðum hér um mótun fiskveiðistefnu.

Hæstv. ráðherra tók talsvert af sínum tíma í máli sínu áðan til þess að ræða um smábáta, veiðar þeirra og annmarka sem komið hefðu fram í sambandi við veiðiheimildir til smábáta. Ég mun koma að því sérstaklega hér á eftir því að þar er vissulega um að ræða þátt sem snertir marga og þó að ekki sé þar um að ræða nema um 8% af heildarafla af þorski sem dreginn er úr sjó er þarna um að ræða framfæri mjög margra fjölskyldna víða um land sem eiga sitt undir hvernig farið verður með stjórnun varðandi báta undir 10 brúttórúmlestir.

En það eru fleiri sem hafa verið að leita að lausnum í sambandi við fiskveiðistefnu en hæstv. sjútvrh. og þær nefndir sem hann hefur kvatt sér til ráðuneytis. Alþb. hefur á undanförnum missirum, undanförnum árum, lagt mikið af mörkum til þess í sínu starfi að ná sáttum innbyrðis í sambandi við fiskveiðistjórnun því að það er langt frá því að þar höfum við verið á einu máli hér á árum áður eins og menn þekkja, ekki frekar en í öðrum flokkum. Sú vinna sem þar hefur farið fram hefur þó leitt til þess nú að Alþb., bæði þingflokkur þess og forusta, þar á meðal miðstjórn flokksins, hefur náð saman um mörkun skilmerkilegrar fiskveiðistefnu sem Alþb. leggur til grundvallar brtt. sem það flytur við stjfrv., eða eigum við að segja frv. sjútvrh., sem hér er fram lagt.

Ég ætla að koma, í tengslum við þessar tillögur okkar alþýðubandalagsmanna sem liggja fyrir í prentuðu þskj., áliti 1. minni hl. sjútvn. Ed. þingsins, að þeim till. og minna á þær brtt. sem við alþýðubandalagsmenn leggjum hér fyrir þingdeildina, sömu brtt. og fluttar voru af þingmönnum Alþb. í Ed. þingsins.

Fyrsta atriðið í stefnumörkun Alþb. varðandi fiskveiðistjórnun, stefnumörkun sem samþykkt var samhljóða í miðstjórn flokksins 5. desember sl., er atriði sem snertir eignarréttinn á sjávarauðlindum landsmanna. Þar segir, með leyfi forseta:

„Fiskistofnarnir og aðrar sjávarauðlindir eru ævarandi sameign allra Íslendinga. Grundvallaratriði fiskveiðistjórnunar verður að vera hinn sameiginlegi eignarréttur þjóðarinnar á auðlindum hafsins.“

Þetta stefnumið er ekkert nýtt af okkar hálfu. Við höfum flutt þetta í bæði þau skipti sem stjórnun fiskveiða hefur verið til umræðu hér á Alþingi sem brtt. við fyrirliggjandi stjfrv., en hún hefur verið felld í bæði skiptin, tillaga okkar um það að marka stefnu, sameignarstefnu varðandi sjávarauðlindir.

Það hefur hins vegar gerst í sambandi við núverandi frv., svo að ég víki að stjfrv., að inn í það er komin 1. gr. þar sem segja má að tekið sé undir þetta stefnumið í orði, þar sem segir, með leyfi forseta: „Fiskistofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar. Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu.“ Mér er sagt að þetta stefnuatriði sé þarna inn komið vegna kröfu alþýðuflokksmanna í ríkisstjórninni og á Alþingi og það er út af fyrir sig vel að þessi orð skuli komin þarna inn í frv. með þessum hætti. En því miður er útfærslan í frv. sjálfu ekki í samræmi við þetta markmið, því miður segi ég, því að þá væri margt með öðrum hætti en lesa má í þeim greinum sem á eftir fylgja.

Það virkar því svo sem þetta stefnumark í 1. gr. stjfrv. sé nánast aðskotahlutur og vil ég þó síst vanþakka það að þessi orð skuli þar inn komin. Það er kannski vísir að öðru og meira í framtíðinni ef menn ná saman um það að útfæra þetta markmið með skilmerkilegum hætti.

Annað stefnumið í fiskveiðistefnu sem Alþb. hefur sent frá sér varðar skipulega stjórnun veiða. Þar segir:

„Sótt verði í fiskistofnana á skipulagðan hátt í samræmi við sérfræðilegt mat á stærð þeirra og undir eftirliti óháðrar stofnunar. Markmið veiðistjórnunar verði að auka gæði afla og afurða, að hámarksafrakstur fáist miðað við ákveðin tímabil, að ofveiði eigi sér aldrei stað.“

Þetta telja menn e.t.v. almenn markmið og ég er ekki að segja að ég eigi von á því að það komi andmæli við þeim. Hins vegar vantar mikið á að þau séu útfærð af stjórnvalda hálfu með þeim hætti að hægt sé að segja að við nálgumst þau. Það vantar mikið á varðandi gæði afla, hvað þá að við höfum náð því marki að fá hámarksafrakstur af okkar fiskstofnum.

Þá kemur í þriðja lagi að því sem er eitt þýðingarmesta atriðið í sambandi við þá stefnumörkun sem við setjum fram í Alþb., það er um hinn svokallaða byggðakvóta í staðinn fyrir að binda aflann eingöngu við skip. Um það segir, með leyfi forseta:

„Það eru öðrum fremur sjómenn og fiskvinnslufólk sem skapa verðmæti úr fiskistofnunum við landið. Því skulu sameiginlegir hagsmunir sjómanna og fiskvinnslufólks hafðir í fyrirrúmi við stjórnun fiskveiða. Óháð reglum um hvernig heildaraflamagn landsmanna verður ákvarðað eða hvernig heildarsókn fiskiskipa verður takmörkuð verði veiðiheimildum úthlutað til byggðarlaga. Við ákvörðun aflamagns sérhvers byggðarlags verði tekið mið af veiðum skipa í viðkomandi byggðarlagi.

Í stað þess að binda kvóta alfarið við skip eins og gert hefur verið á undanförnum árum verði nú tekið upp nýtt kerfi þar sem veiðiheimildum á bolfiski verði skipt í tvo flokka:

Í fyrsta lagi skal 2/3 hlutum veiðiheimildanna úthlutað til byggðarlaga og skal fjórðungur þessa nýja byggðakvóta reiknaður út frá úthlutuðu afla- og sóknarmarki skipa í byggðarlögunum eins og sú úthlutun var að meðaltali árin 1984–1986 og 3/4 hlutar reiknaðir frá úthlutuðu afla- og sóknarmarki skipa í byggðarlögum í árslok 1987.

Í öðru lagi skal 1/3 hluta veiðiheimilda úthlutað til útgerðar á skip og skal sá hluti reiknaður með sama hætti og ákveðið var í reglugerð fyrir árið 1987.

Eftir að byggðakvóti hefur verið reiknaður út skal honum deilt á milli þeirra skipa sem fá kvóta úthlutað í viðkomandi byggðarlagi í hlutfalli við veiðiheimildir þeirra.

Við sölu skipa úr byggðarlaginu“ — og það er kannski hið þýðingarmikla „praktíska“ atriði, herra forseti, í sambandi við þennan þátt tillögu okkar — „fylgir þeim einungis sá hluti af aflakvóta sem úthlutað var til útgerðar, ekki sá hluti sem fór til byggðarlagsins. Þeim hluta aflakvótans sem eftir verður í byggðarlaginu verði ráðstafað á nýjan leik í samræmi við ákveðnar reglur.

Með því að binda veiðiheimildir að verulegu leyti við byggðarlög er verið að tryggja hag starfsfólks í fiskiðnaði, fiskvinnslustöðva og allra íbúa þeirra byggðarlaga sem byggja afkomu sína á öruggri og skipulagðri nýtingu sjávarafla. Óeðlilegt verð á fiskiskipum og brask í tengslum við skipa- og kvótasölu ætti að mestu að hverfa úr sögunni. Einnig er leitast við með útreikningsaðferð á byggðakvótanum að koma nokkuð til móts við þau byggðarlög sem tapað hafa mestum aflakvóta á undanförnum árum.“

Þetta atriði, sem snertir í rauninni eignarréttinn á fiskstofnunum, spurninguna um það að útfæra hann eða útfæra þá hugsun að fiskstofnarnir skuli vera sameign, verður ekki gert með því að tengja fiskikvóta einvörðungu við skip og láta hann hafa m.a. þau áhrif á verðlagningu fiskiskipanna sem raun ber vitni og við höfum séð að gerst hefur með mjög óeðlilegum hætti. Þar er í rauninni verið að afhenda einstaklingum, eigendum fiskiskipa, háa ávísun, eða eigum við að segja ávísanir, á verðmæti sem þeir hafa ekki skapað, sem ekki hafa orðið til fyrir þeirra tilstuðlan, heldur einvörðungu vegna þess kerfis sem hér er verið að móta.

Ég hef vissulega heyrt viðbárur af því tagi að verð á fiskiskipum kynni að hafa þróast með svipuðum hætti ef menn hefðu haldið fast við takmarkanir á stærð flotans, ef menn hefðu staðið fast í ístaðinu í sambandi við fjölgun skipa, innflutning skipa eða nýsmíði. Það kann að vera nokkuð til í því, en við höfum ekki reynslu af slíku frá undangengnum árum. Við höfum hins vegar reynsluna af því stjórnkerfi sem hér er til umræðu með þeirri tilhögun sem hér um ræðir og gert er ráð fyrir að halda óbreyttri í reynd í frv. því sem við ræðum hér, þ.e. að verð á fiskiskipum fer í einstökum tilvikum tvöfalt fram úr vátryggingarupphæð skipanna og þar með er verið að afhenda eigendum þeirra stórar fúlgur, tugi milljóna, svo að ekki séu nefndar hærri upphæðir, í rauninni til ráðstöfunar.

Þetta kann að þykja þolanlegt af sumum svo lengi sem slíkur arður helst innan sjávarútvegsins, í viðskiptum milli sjávarútvegsfyrirtækja. En fyrir því er út af fyrir sig engin trygging. Hér getur verið um að ræða einstaklinga sem einfaldlega vilja losna við sínar eignir, selja fiskiskipin, vissulega öðrum til nota en sitja uppi með þann gróða sem í þessu tilviki hlýtur að teljast mjög óeðlilegur.

Einn stærsti annmarki núverandi stjórnkerfis tengist þeirri miklu áhættu sem sjávarplássin í landinu búa við þar sem um er að ræða aðeins fá veiðiskip, þar sem um er að ræða kannski aðeins einn eða tvo togara og hættuna á því að þeir verði seldir úr byggðarlaginu og rofið það samhengi, sem svo mjög var rómað fyrir nokkrum árum og átti að verða eitt helsta leiðarljós í fiskveiðistjórnun, að tengja saman veiðar og vinnslu. Með tillögu okkar alþýðubandalagsmanna um byggðakvóta er verið að koma í veg fyrir að slíkt geti gerst í reynd. Það er verið að stöðva þá sölu, þá hömlulitlu sölumöguleika sem eru til staðar í sambandi við fiskiskipin sem kippt geta í einu vetfangi grundvellinum undan atvinnu fjölda fólks og rekstri fiskvinnslufyrirtækja.

Ég ætla ekki, herra forseti, að orðlengja þennan þátt svo þýðingarmikill sem hann er. Ég vil aðeins staðhæfa að það er tími til kominn að snúa af þeirri braut, sem lagt var inn á 1983, að tengja yfirráðarétt yfir ákveðnum aflahlut við fiskiskip einhliða, eins og síðan hefur verið og það er mjög hætt við því að ef við festum okkur í þessu fari, t.d. til þriggja ára í viðbót, telji margir að þar sé komin á hefð, þar séum við komnir inn á braut sem ekki verður snúið til baka á. Þess vegna legg ég á það afar ríka áherslu að á þessu atriði verði tekið nú við meðferð þessa máls hér í þinginu.

Við bendum á það í tillögum okkar, alþýðubandalagsmenn, að nauðsynlegt sé, jafnhliða því sem stjórnkerfið er endurskoðað og í reynd miðað við að úthluta afla tengt veiðiskipum eins og ég hef gert grein fyrir, að samt verði svigrúm til þess að nýta hluta af þeim afla sem menn telja sig geta tekið til þess að gera kerfið sveigjanlegra, eins og reynt var með vissum hætti í sambandi við sóknarmark, en við erum þar með hugmyndir um aðra þætti sem nauðsynlegt er að geta komið við, eins og möguleika á því að tryggja aðgang nýrra rekstraraðila að veiðunum til þess að leiðrétta hag einstakra byggðarlaga og til þess að gera tilraunir með nýjar stjórnunaraðferðir. Í því skyni leggjum við til að frá árinu 1989 verði hluta eða sem nemur 5% af úthlutuðum heildarafla ráðstafað í þessu skyni, eða allt að því marki, og auðvitað er æskilegt að hægt sé að taka slík skref, sem eru auðvitað tilfinnanleg fyrir þá aðila sem tekið er frá ef um það er að ræða, auðvitað er æskilegt að slíkt geti gerst jafnhliða aukningu á heildarafla, að tengja það við aukningu á heildarafla ef slíkt þykir fært. En ég hygg að allir geti verið sammála um að það er mjög óæskilegt að hafa stjórnkerfi í fiskveiðum sem sé svo lokað að þar geti engir nýir aðilar komið við sögu, að þar sé ekki svigrúm til þess að leiðrétta hag einstakra byggða og að tryggja æskilega nýbreytni og þróun í veiðunum.

Ég kem þá, herra forseti, að veiðum smábáta. Þar gerum við alþýðubandalagsmenn ráð fyrir og gerum um það tillögu einnig hér í brtt. okkar við frv. sem hér er til umræðu að haldið verði í grundvallaratriðum við óbreytt kerfi hvað snertir veiðar smábátanna, þó með þeirri undantekningu að tekið verði fyrir verulega fjölgun slíkra báta sem orðið hefur á undanförnum árum, sérstaklega síðustu eitt, tvö árin þegar orðið hefur um mikla fjölgun að ræða hjá bátum undir 10 brl. og bátum sem hafa afkastagetu sem er kannski meiri en tengist hugtakinu smábátar.

Mig langar í þessu sambandi aðeins til að rifja upp með hvaða hætti haldið hefur verið á þessu máli síðan 1983 að fyrsta frv. var lögfest um kvóta á skip. Þá var þessi þáttur, veiðar smábátanna, eitt af því umdeildasta í því frv. og það má segja að það hafi fylgt umræðum um þetta mál allar götur síðan. Þá gerði hæstv. sjútvrh., sá hinn sami og nú fer með það embætti, tillögu um það að smábátar yrðu utan kvóta en yrði úthlutað afla í einum óskiptum potti, mig minnir eitthvað nálægt 10 000 lestum sem þeim var ætlað, og var hann þó mjög varaður við að taka upp stjórnun af því tagi gagnvart smábátunum. Það voru margir sem bentu á það við umræðu um málið í desember 1983 að þarna væri verið að fara út í mjög óeðlilegt og óraunsætt kerfi og smábátaeigendur, sem ekki voru þá í formlegum samtökum eða öflugum samtökum eins og þeir hafa myndað með sér nú, gáfu ábendingar um aðra tilhögun sem þeir töldu vænlegri og líklegri til þess að unnt væri að búa við til einhverrar frambúðar. Þeir voru jafnvel reiðubúnir að ræða um að taka upp skömmtun á bát, á smábátana, taka upp kvóta á smábátana, a.m.k. að skipta þessum potti eftir landshlutum og byggðarlögum þannig að það væru ekki allir að keppa um sama skammtinn.

Á þetta var ekki hlustað á þeim tíma og frv. var afgreitt með þessum hætti. Hins vegar sprungu þessi ákvæði í höndum framkvæmdarvaldsins, aflinn fór fljótt langt fram úr því sem áætlað hafði verið af sjútvrn., var orðinn tvöfaldur að mig minnir haustið 1984 og alveg ljóst að þarna var ekki fundinn neinn lykill, fyrir utan þær áhættur sem teknar voru. Veiðiskapurinn sem þessu fylgdi ýtti að sjálfsögðu undir að teflt væri á tvær hættur í sambandi við sókn á smábátunum þegar menn voru að keppa hringinn í kringum landið um takmarkað heildarmagn.

Það gerðist því þegar mál þetta var til umræðu öðru sinni, 1985, að knúin var fram breyting og hæstv. ráðherra lét sig hafa það, ég vil ekki vanþakka hans hlut í því efni, og tekið upp það kerfi sem búið hefur verið við nú um tveggja ára skeið í sambandi við veiðar smábáta, hin umtalaða 9. gr. að ég hygg í gildandi lögum. Þar var tekið upp banndagakerfi sem smábátum var ætlað að búa við en sókn þeirra að öðru leyti gefin frjáls. Vissulega voru gagnrýnd atriði í þessari skipan þegar henni var komið á. Það var bent á það að óeðlilegt væri að setja stíft og ósveigjanlegt banndagakerfi sem ætti að gilda um veiðistöðvar hringinn í kringum landið þar sem skilyrði til sjósóknar væru misjöfn og í rauninni skammtaði náttúran af í sambandi við sókn smábáta þannig að ekki þyrfti að setja slíkar takmarkanir eins og þessa banndaga. En þó er það svo að reynslan af þessu kerfi fyrir smábátana hefur orðið með þeim hætti að hagsmunaaðilar, talsmenn Landssambands smábátaeigenda sem stofnað hefur verið og gert hefur vart við sig með góðum og skilmerkilegum hætti undanfarin missiri, mæla með því að þetta kerfi verði framlengt, að búið verði við það áfram, og eru reiðubúnir að taka á sig þær takmarkanir sem þar er að finna auk þess sem tekið verði á fjölgunarþættinum, þ.e. að ekki verði um hömlulausa fjölgun smábáta að ræða eins og orðið hefur undanfarin ár þar sem þetta eru einu skipin sem hafa komist á sjó og getað stundað frjálsa sjósókn. Það er hins vegar ekki mál smábátaeigenda sem slíkra. Þeir stóðu ekki að þeim tillögum að engar hömlur skyldu gilda, þannig að við þá verður ekki sakast í þeim efnum. Þar getur stjórnvaldið, jafnvel Alþingi, sakað sjálft sig um að hafa ekki verið nægjanlega framsýnt.

Það er tillaga okkar alþýðubandalagsmanna að undir þetta verði tekið, að veiðiheimildir smábáta verði með svipuðu sniði og verið hefur jafnframt því sem fjölgun bátanna verði stöðvuð. En hæstv. sjútvrh. og þeir sem hafa stutt hann fram að þessu hér í þinginu, í hv. Ed., eru ekki á sama máli. Þar hafa að vísu verið gerðar nokkrar breytingar frá því frv. sem ráðherrann lagði hér fyrst fram, þ.e. að ef um er að ræða eingöngu veiðar með línu og handfærum skuli þær lúta svipuðu kerfi og verið hefur, þær skuli vera frjálsar að öðru leyti en því að skammtaðir eru af fleiri banndagar heldur en áður giltu. Þetta má segja að sé góðra gjalda vert svo langt sem það nær. Hæstv. ráðherra er hins vegar, og hans stuðningsmenn í þessu máli, að innleiða annað kerfi með aflamarki varðandi þorskfisknetaveiðar á smábáta og þar með í rauninni að skerða veiðimöguleika mjög margra sem stunda veiðar á smábátum og stunda ýmist veiðar með línu og á handfæri eða með net. Þetta þekkir hæstv. ráðherra að sjálfsögðu vel, eins og aðrir hv. þm., að er tíðkað ekki síst á þeim stöðum þar sem smábátaútgerðin er undirstaða í afla viðkomandi byggðarlaga og nægir að minna á byggðarlög eins og Grímsey, Bakkafjörð og Borgarfjörð eystri, en mörg fleiri mætti þar upp telja.

Ég átta mig ekki á því með hvaða hætti hæstv. ráðherra í raun ætlar að halda á þessu máli ef þessi grein, nú 10. gr. í hans frv., gengi fram með þeim hætti sem hún kemur hingað frá hv. Ed. Ég tel að þarna sé ekki aðeins verið að stefna afkomu fjölda fólks í hættu að ástæðulausu, heldur verði útfærslan á þessu kerfi meira en tvísýn, meira en vafasöm og þarna sé verið að búa til vanda sem í rauninni sé engin þörf á fyrir Alþingi Íslendinga eða framkvæmdarvaldið að efna til. Ég held að þorskfisknetaveiðar, eins og þær eru stundaðar á smábátum, skili t.d. síst lakari afla en fæst á línu og handfæri, þannig að varla er það af þeim sökum sem hæstv. ráðherra er að fitja upp á reglum af þessu tagi og meiri hl. sjútvn. í hv. Ed. Ég vara við þessu kerfi sem þarna er verið að efna til og ég treysti því að hér í þingdeildinni sé nægjanlegur vilji og stuðningur til staðar til að knýja fram eða fá fram breytingar á þessum ákvæðum þannig að smábátaeigendur geti að mestu búið við sams konar kerfi og þeim var ætlað með 9. gr. í gildandi lögum.

Ég held að hæstv. ráðherra ætti að íhuga það, ef hann vill greiða götu þessa máls sérstaklega í gegnum þingið, að endurskoða m.a. þessa gr. frv. Ég held að hann væri maður að meiri ef hann tæki það til endurskoðunar frá grunni og hefði forustu um það gagnvart sínum stuðningsmönnum hér á þingi, sem ég hygg að sumir hverjir gangi hálfnauðugir til þessa leiks, að styðja þær tillögur sem liggja fyrir þingdeildinni að þessu leyti og láti það koma fram hér við umræðuna hvort hann sé ekki reiðubúinn til þess að gera hér breytingar á, stuðla að breytingum á þessum ákvæðum, og í síðasta lagi að slíkur vilji komi fram gagnvart sjútvn. sem fær þetta mál væntanlega til meðferðar fljótlega.

Ég ætla ekki, herra forseti, að gera þennan þátt, veiðar smábátanna, að umræðuefni í mikið lengra máli. Ég hef í höndunum ekki aðeins röksemdir í stöflum frá smábátaeigendum ásamt viðbrögðum frá sjútvrn. í sambandi við nokkrar athugasemdir sem þar hafa komið fram en í rauninni staðfesta í öllum meginatriðum það sem Landssamband smábátaeigenda hefur komið á framfæri við þingnefndir sem fjallað hafa um þetta mál, m.a. í erindi frá 6. des. 1987, heldur hef ég líka ályktanir úr byggðarlögum, úr kjördæmi okkar hæstv. sjútvrh., og miklu víðar að af landinu þar sem skorað er á Alþingi að efna ekki til þess vanda sem hér liggja fyrir tillögur um í sambandi við þennan veiðiskap, hagsmuni heilla byggðarlaga sem eiga sitt undir og fjöldann allan af fólki sem þetta mál snertir.

Ég ætla þá að nefna hér einn þátt í tillögum okkar alþýðubandalagsmanna sem tengist útflutningi á óunnum fiski sem er til umræðu í tengslum við þetta frv. þar sem gert er ráð fyrir sérstöku álagi, allt að 15% álagi, og eins og frv. kom fram upphaflega var reiknað með möguleika á 10% viðbótarálagi á allan þann afla sem fluttur er óunninn á erlendan markað. Við alþýðubandalagsmenn viljum taka með öðrum hætti á þessu máli og höfum orðað það svo í okkar samþykkt, með leyfi forseta:

„Ákveðið verði útflutningsgjald á fisk sem fluttur er út óunninn og komi það að einhverju eða öllu leyti í stað þeirra skerðingarákvæða sem í gildi hafa verið. Útflutningsgjaldið verði ákvarðað með hliðsjón af tollastefnu Evrópubandalagsins og annarra viðskiptalanda og verði því ráðstafað til rannsókna og þróunarstarfsemi á vegum Rannsóknastofnunar og fyrirtækja og samtaka innan sjávarútvegsins.“

Ég tel að hér sé á ferðinni tillaga sem geti skilað góðu og um leið sett hömlur á þann útflutning sem gert er raunar ráð fyrir að taka á með öðrum hætti samkvæmt 5. gr. fyrirliggjandi frv. sem við ræðum hér.

Þær tillögur sem við alþýðubandalagsmenn stöndum að stefna vissulega að því marki að reyna að tryggja sem mesta hagkvæmni í fiskveiðum og afrakstur af fiskstofnunum til lengri tíma litið. Að mati fiskifræðinga sem við tökum undir í okkar tillögum ætti það að þýða að unnt verði að veiða 400–450 þús. tonn af þorski á ári þegar menn eru búnir að vinna sig upp úr þeirri lægð sem þorskstofninn nú er í. Veiði á ýsu, karfa, ufsa og grálúðu teljum við að stjórna beri í tengslum við veiðistjórn á þorski eins og gert er ráð fyrir með vissum hætti í fyrirliggjandi frv., m.a. í sambandi við aflahámark á karfaveiðar sem ég tel út af fyrir sig skynsamlega nálgun, svo að notað sé tæknilegt orðalag, skynsamlega hugmynd sem ekki sé óeðlilegt og reyna og taka upp eins og málum er háttað.

Skipulag veiða á síld og loðnu teljum við að eigi áfram að vera með svipuðu sniði og á undanförnum árum. Áhersla verði lögð á markaðsleit og stóraukna kynningu á síldarafurðum til að tryggja að sem stærstur hluti aflans úr vaxandi síldarstofni verði nýttur í góðar og verðmiklar manneldisvörur. Þar vantar mikið á að unnið sé að markaðsfærslu með þeim hætti sem þyrfti. Þar erum við vissulega í verulegri hættu í sambandi við markaðinn í Sovétríkjunum eins og við megum reyna ár hvert þótt betur hafi úr því ræst en á hefur horfst fram að þessu.

„Aflamarki á úthafsrækju," segir í okkar ályktun, „verði úthlutað jöfnum hlutum til skipa og vinnslustöðva með hliðsjón af aflareynslu skipanna og vinnslustöðvanna undanfarin ár. Rækjumið og skelfiskmið innan fjarða og flóa verði nytjuð af íbúum viðkomandi strandsvæða. Aukin verði veiði á ýmsum sjávardýrum og fiskum sem lítið hafa verið nýtt til þessa.“ Í því sambandi minni ég á þál. sem samþykkt var hér á Alþingi fyrir einu ári eða svo í sambandi við kortlagningu á miðum slíkra lægri sjávardýra til þess að auðvelda sjómönnum aðgang að slíkum stofnum og tryggja um leið að ekki verði um ofnýtingu að ræða.

Ég hef hér, herra forseti, vikið að nokkrum þáttum í tillögum okkar alþýðubandalagsmanna í sambandi við fiskveiðistefnu. Við leggjum þar, fyrir utan það sem ég hef hér sagt, ríka áherslu á að kjör og starfsaðstaða fiskvinnslufólks og sjómanna verði jafnan með þeim betri, launakjör þessara starfsstétta verði jafnan með þeim betri í þjóðfélaginu, og leiðrétt verði þegar í stað það misrétti og ranglæti sem skapast hefur í launamálum fiskvinnslufólks í samanburði við aðrar starfsgreinar. Sjómenn okkar eiga og þurfa að búa við bestu kjör sem gefur í þessu landi. Það er markmið sem við hljótum að setja okkur. Þar er um slík störf að ræða að engin sanngirni væri í öðru.

En til að tryggja hámarksafrakstur af veiðunum þarf fleira að koma til en tekist hefur til þessa sem skyldi. Þar segjum við varðandi gæði afla og afurða, með leyfi hæstv. forseta:

„Til að tryggja aukin gæði sjávarafla og fiskafurða verði komið á nýrri skipan sem feli í sér að allur fiskur sé settur í kassa og kör um borð í veiðiskipum, að sem stærstur hluti af afla verði slægður um borð í veiðiskipum, að allur afli verði nýttur: lifur, hrogn og fleira, að fiskmóttökur séu kældar, að umhverfi og ytra útlit fiskvinnslustöðva þoli samanburð við útlit og umhverfi banka, verslana og mjólkurvinnslustöðva, að vinnuaðstaða fiskvinnslufólks samræmist matvælaframleiðslu í besta gæðaflokki.“

Og síðast en ekki síst segjum við í okkar stefnumótun, minnum á byggðaþróunina þar sem fiskveiðistefnan er einn undirstöðuþátturinn:

„Til að tryggja búsetu um allt land og eðlilega byggðaþróun verði þess gætt við stjórnun fiskveiða að hvert svæði njóti aðstöðu vegna nálægðar við fiskimið, að núverandi útgerð og fiskvinnslu verði tryggður réttur á heimaslóð.“

Þetta tengist ekki síður því sem ég hef þegar rakið í sambandi við byggðakvótann og að koma í veg fyrir það að fiskiskipin safnist á fárra hendur, á fáa útgerðarstaði á landinu, og þar með yrði kippt fótum undan því byggðamynstri sem nú ríkir og sem við viljum halda í öllum meginatriðum, þeir sem byggja vilja landið allt til frambúðar.

Herra forseti. Ég get farið að stytta mál mitt enda á ég sæti í, þeirri nefnd sem fær þetta mál til meðferðar. Ég gat um það að hæstv. ráðherra ætlaði okkur ekki ýkja langan tíma til að fjalla um þetta efni. Ég skildi orð hans svo að hann legði áherslu á að mál þetta mætti ná fram að ganga í þingdeildinni fyrir áramót. Ég vil ekki hér og nú vera að leggja neitt mat á þa beiðni af hálfu hæstv. ráðherra. Það væri auðvitað mjög eðlilegt að við gætum ekki aðeins afgreitt fiskveiðistefnu fyrir árslok heldur með talsverðum fyrirvara fyrir lok þess árs þegar gildandi lög renna út.

Eitt af markmiðunum í sambandi við fiskveiðistjórnun þarf að vera að henni sé komið í það horf að hún geti gilt til langs tíma, að um hana ríki slík samstaða að líklegt sé talið að hún fái staðist um árabil. Slíkt er sannarlega æskilegt með tilliti til þess að þessi atvinnuvegur, sjávarútvegurinn, og þeir sem við hann starfa hafi starfsfrið og skilyrði til þess að taka ákvarðanir til lengri tíma. Við alþýðubandalagsmenn höfum gert um það tillögu að tímasetja ekki gildistíma þessara laga, að það verði ótímabundið, en auðvitað er það miðað við það af okkar hálfu að um þessa lagasetningu geti tekist sæmilegur friður, a.m.k. ef gera á ráð fyrir að lögin gildi um lengri tíma. Ég tel það hins vegar markmið sem Alþingi beri að keppa að og framkvæmdarvaldinu að stilla þannig til í sambandi við fiskveiðistjórnun að líkur séu til að meginþættirnir í því stjórnkerfi geti orðið endingargóðir og menn geti byggt þar á grunni sem þokkalegur friður sé um. Það eykur líkurnar á því að náð verði markmiðunum um hámarksafrakstur, að náð verði hagkvæmni, og að menn geti einbeitt sér að þeim þáttum í sambandi við nýtingu aflans sem ég hef gert hér að umræðuefni en ekki er beinlínis efni í tengslum við frv. um fiskveiðistjórnun.

Fari svo að við þurfum meiri tíma til að ná landi í sambandi við þetta mál, ná fram afgreiðslu sem ásættanleg sé hér að mati meiri hlutans í þessari hv. þingdeild, hefur hæstv. sjútvrh. auðvitað ákveðnar heimildir til veiðistjórnunar í byrjun komandi árs þar sem eru lög um veiðar í landhelgi Íslands frá 1976 sem notuð voru sem undirstaða undir því kerfi sem ríkti hér fyrir 1984 varðandi veiðistjórnun. Ég bið hæstv. ráðherra og aðra ekki að taka þetta öðruvísi en sem leiðbeiningu af minni hálfu.

Ég held að það sé ástæðulaust að vera að mála það allt of dökkum litum þó að Alþingi telji sig e.t.v. þurfa meiri tíma en eftir er til áramóta til þess að fjalla um þetta geysiþýðingarmikla málefni og stilla hér saman strengina og það sé betur að staðið að skilja hér þokkalega sáttir að þessu leyti með lagasetningu sem líkleg sé til að endast, ekki aðeins þau þrjú ár sem tillögur standa nú til um, heldur til eitthvað lengri tíma hvað uppistöðu snertir. Það gerist hins vegar ekki nema breytingar verði á frv. frá því sem það liggur hér fyrir þingdeildinni og það er verkefni okkar í umræðunni, í nefnd og síðan í frekari umræðum um þetta mál að reyna að ná þar landi, lýðræðislegri samstöðu sem hæstv. ráðherra var að hvetja til, með vönduðum vinnubrögðum sem ráðherrann einnig gat um í sínu máli. Sú er ósk mín að það megi takast og að því viljum við alþýðubandalagsmenn stuðla að svo geti orðið.