28.12.1987
Neðri deild: 38. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3237 í B-deild Alþingistíðinda. (2309)

181. mál, stjórn fiskveiða

Jón Sæmundur Sigurjónsson:

Herra forseti. Mér er það mikill heiður að í fyrsta skipti sem ég tek til máls á hinu háa Alþingi skuli ég tala í sambandi við málefni sjómanna. Íslenskur sjávarútvegur er undirstaðan að okkar efnahagslífi. Sjómennirnir eru driffjöðrin þar sem án þeirra verður ekkert og er ekkert. Þegar við erum að ræða um fiskveiðistefnu, stjórn fiskveiðimála, verðum við að vanda vel til. Við verðum að gera vel við þessa menn.

Ríkjandi kvótakerfi hefur lengi verið undirorpið mikilli gagnrýni í mínum flokki, Alþfl., þannig að þegar við alþýðuflokksmenn gengum til kosninga á sl. vori vorum við með stefnu sem gekk nokkurn veginn þvert á ríkjandi lög, kvóta í sjávarútvegi, allt öðruvísi að uppbyggingu og anda. Í stórum dráttum vildum við að í sjávarútvegi kæmist á stjórnkerfi sem lagaði sig að frjálsum fiskverðsákvörðunum. Stefnt yrði að sveigjanlegri beitingu veiðileyfa með veiðiréttindum sem komi í hlut útgerðar en ekki á hvert skip þannig að aflamönnum sé gert kleift að njóta sín og byggðarlögum sé tryggð öflun hráefnis betur en nú er gert. Við töldum að sveigjanlegt veiðileyfakerfi af þessu tagi skapaði svigrúm fyrir eðlilega endurnýjun fiskiskipaflotans.

Við lögðum sem sagt áherslu á þrennt. Við vildum losa kvóta frá skipi, við vildum leggja áherslu á byggðaatriðið og við vildum leggja áherslu á að eðlileg endurnýjun fiskiskipaflotans ætti sér stað.

Þessi atriði er einnig að finna í starfsáætlun ríkisstjórnarinnar. Í kaflanum um sjávarútveg segir að skipa skuli nefnd sem m.a. skuli taka afstöðu til eftirfarandi atriða, með leyfi forseta:

„Hvernig og hverjum veiðiheimildir skuli veittar. M.a. verði athugað hvort veiðiheimildir verði einvörðungu bundnar við skip.

Hvernig taka megi meira tillit til byggðasjónarmiða við mótun fiskveiðistefnu, auka athafnafrelsi og svigrúm til endurnýjunar í sjávarútvegi, hvers konar reglur skuli setja um færslu veiðiheimilda milli aðila og hve lengi meginreglur um stjórn fiskveiða skuli gilda.“

Hvorugt þetta plagg, starfsáætlun ríkisstjórnarinnar eða stefnumál Alþfl., er í anda ríkjandi laga um kvóta og þau eru ekki í anda þess frv. sem hér hefur verið lagt fram um væntanlegt fyrirkomulag í stjórn fiskveiða.

Helstu gagnrýnisatriði á ríkjandi kerfi eru e.t.v. þessi:

Kerfið er staðnað og miðstýrt og minnir á sovéskt framleiðslukerfi þar sem kvaðir eru settar á framleiðslueiningarnar, þar sem menn strjúka ekki um frjálst höfuð, þar sem frjálst framtak er steypt í helsi. Einnig er kvótinn í þessu kerfi bundinn við skip. Byggðasjónarmiðið fær ekki að njóta sín. Í mínu byggðarlagi urðum við fyrir því að allt í einu voru seldir tveir togarar öllum að óvörum í byggðarlaginu. Þetta dundi yfir eins og reiðarslag. Kvótinn hvarf úr bænum. Atvinnupláss hurfu úr bænum. Og þó það væri einungis fyrir dugnað og atorku manna sem eftir urðu að kvótinn minnkaði ekki þá er kerfið engu að síður slæmt sem getur valdið þessu.

Gagnrýnispunktur er einnig að öll framkvæmd á þessu kerfi er í höndum ráðherra. Í 21 grein í því frv. sem hér er lagt fram eru 25 málsgreinar þar sem segir: Sjávarútvegsráðherra skal ákveða með reglugerð . . . Ráðherra er heimilt að ákveða í reglugerð ... Í reglugerð má ákveða ... Ráðherra getur í reglugerð . . . Getur ráðherra ákveðið . . . Jafnframt getur ráðherra gefið kost á . .. 25 sinnum kemur þetta fyrir í frv. sem er aðeins 21 grein og þar af er ein heil grein sem segir einungis: Ráðherra skal setja nánari reglur varðandi framkvæmd þessara laga mitt í milli 25 annarra setninga. Þó segir í athugasemdum með þessu frv., með leyfi forseta: „Raunar má segja að óeðlilegt sé að sjávarútvegsráðherra axli einn ábyrgð á slíkum ákvörðunum.“ Nú má vera að í augnablikinu búum við við mjög traustan sjútvrh., en við getum ekki sniðið lög frá Alþingi í kringum einn mann. Það getur ekki verið.

Það má segja í þriðja lagi að ríkjandi kvótakerfi hafi valdið því að stækkun flotans sé komin úr böndum. Við þekkjum þá gagnrýni sem beinst hefur að smábátamönnum og smábátaflotanum, um hversu óeðlileg stækkun flotans hafi orðið.

Á ráðstefnu um öryggismál sjómanna, sem haldin var 18. september á þessu hausti, segir í grein eftir Steinar Viggósson skipatæknifræðing, með leyfi forseta, að reyndar hafi verið alls konar leiðir til að finna út úr þessu kerfi. Reynt hafi verið að koma upp reglu: Skip á móti skipi. Ef keypt væri nýtt skip skuli annað tekið úr. Gallinn væri bara sá að allt of mörg skip sem sett voru upp í ný lentu á einhvern hátt aftur inn í landið þannig að flotinn hélt áfram að stækka. Það var reynt við 20 tonna reglu sem ekki reyndist vel. Síðan var sett upp 33%-regla og um það segir Steinar Viggósson: „Hafi fyrri reglugerðir haft slæm áhrif á möguleika manna til að endurnýja skip sín með nýjum fullkomnum skipum þá var þessi hálfu verri. Á það sérstaklega við um þá sem eiga minni og meðalstóra báta.“

Gagnrýni á ríkjandi kvótakerfi er því mikil og að því er mér virðist á öllum veigamestu punktum kerfisins. Þó er ekkert svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Nokkrar breytingar hafa orðið á ríkjandi kerfi sem vel eru þess virði að eftir sé tekið þannig að menn geti vel við unað. T.d. hljóðar 3. málsgr. 5. gr. svo, með leyfi forseta:

„Geti skip, sem fengið hefur leyfi með sóknarmarki, vegna óviðráðanlegra atvika ekki nýtt sóknardaga í fjóra mánuði samfellt eða lengur, er heimilt að úthluta því botnfiskleyfi með því aflamarki sem það hefði fengið í upphafi árs hefði það valið þann kost.“

Það hefði verið mjög gott ef þessi regla hefði verið til þá þrír af fjórum togurum í mínu kjördæmi voru í lamasessi og urðu að kaupa sér kvóta annars staðar frá, kaupa sér kvóta sem aðrir höfðu fengið gefins. Þetta bendir á meiri sveigjanleika, sýnir að kerfið stefnir í rétta átt.

Í 1. gr. þessa frv. segir að fiskistofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar. Þetta er e.t.v. gott veganesti fyrir þriðja atriðið sem er verulega til bóta, en það er ákvæði til bráðabirgða þar sem segir að sjútvrh. skuli skipa nefnd samkvæmt tilnefningu þingflokka og skuli sú nefnd móta tillögur um breytingar á þessum lögum á gildistíma þeirra eftir því sem tilefni verður til. Nefndin skuli m.a. kanna áhrif laganna á afkomu og hagkvæmni í sjávarútvegi og skynsamlega nýtingu fiskistofna. Þetta atriði tel ég vera það mikilvægt að það bjargi þessu sem hér stendur til atkvæða: Hvort við viljum eða viljum ekki.

Einhvern tímann var hér frv. til atkvæðagreiðslu þar sem einn stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar kvað já við með semingi. E.t.v. notfæri ég mér þennan seming þegar ég segi já við þessu frv. og samþykki það til laga. Ég held að þetta ákvæði til bráðabirgða sé það mikilvægt að við getum samþykkt frv. Þó er eitt atriði í frv. sem ég get alls ekki fellt mig við, eins og kom fram hjá flokksbróður mínum hér áðan, og þá á ég við 10. gr. laganna. Hún er þess eðlis, bæði eins og hún var í upphaflegum drögum frv.. og eins og hún kemur frá Ed., að ég get alls ekki fellt mig við hana í því horfi sem hún er í dag.

Menn hafa sagt að þessi ströngu ákvæði varðandi báta undir 10 brl. séu tilkomin vegna fjölgunar bátanna. Sérstaklega hefði orðið að grípa til ráðstafana til að sporna við þessari fjölgun. Ég er sammála því að fjölgunin hefur verið gífurleg. Það verður að stemma stigu við þessu því að þróunin á þessu sviði hefur keyrt um þverbak. Það er rétt. Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að hér sé skotið með fallbyssum á spörfugla. Mér finnst ráðstafanirnar það strangar að þær séu úr öllu lagi. Við verðum nefnilega að gera greinarmun á áhugaveiðimönnum, sem stunda veiðar einungis hluta úr ári, og svo hinum, sem eru mun færri og eru eiginlega minnihlutahópur meðal trillukarla, þ.e. þeim sem eiga sína afkomu undir sjósókn á þessum litlu bátum árið um kring.

Í grg. Landssambands smábátaeigenda segir, með leyfi forseta:

„10. gr. í þeirri mynd sem hún er flækir veiðifyrirkomulag smábáta til mikilla muna. Í núverandi fyrirkomulagi er hópnum skipt í tvennt:

Í fyrsta lagi handfæra- og línuveiðar í banndagakerfi.

Í öðru lagi netabátar í sóknarmarki yfir hávertíðina.

En það sem nú er boðið upp á er í fimm greinum:

1. Handfæra- og línubátar undir 6 brl. sem eru í banndagakerfi.

2. Aðilar undir 6 brl. sem geta fengið netaveiðileyfi eftir ákveðinni uppskrift.

3. Veiðileyfi handa bátum yfir 6 brl. sem eingöngu stunda handfæra- og línuveiðar.

4. Veiðileyfi með aflahámarki handa bátum yfir 6 brl. sem netaveiðar stunda og þeim er skipt í 6–8 brl. og 8–10 brl.

5. Sérstök reglugerð fyrir botnfiskveiðar báta sem stunda skel- og rækjuveiðar.

Kerfið allt er gert miklu flóknara.“

Eins og áður sagði er í starfsáætlun núv. ríkisstjórnar tekið fram um sjávarútvegsmál að sérstakt tillit skuli tekið til byggðasjónarmiða og athafnafrelsis manna í sjávarútvegi. 10. gr., sú sem hér er fjallað um, gengur í þveröfuga átt þegar athafnafrelsi manna er skert með jafnveigamiklum hætti og raun ber vitni. Öllum ætti að vera ljóst að því minni höft sem lögð eru á smábátana því hagstæðara verður það fyrir atvinnu og lífsafkomu smæstu sjávarplássanna. Enginn ætti að takmarka sjósókn þessara fiskimanna nema höfuðskepnurnar sjálfar. Og til þeirra telst ekki hæstv. sjútvrh. Þessir menn eru síðustu fulltrúar þess frelsis sem einu sinni ríkti í útgerð á Íslandi. Við skulum varðveita þessar leifar vel og ekki færa þessa góðu menn í ónauðsynlega fjötra kerfisins. Ég er sérstaklega á móti því að takmörk séu sett á sjósókn trillukarla á meðan stundaðar eru önglaveiðar, þ.e. línu- og handfæraveiðar.

Í grg. Landssambandsins segir einnig, með leyfi forseta, að gert sé ráð fyrir að skipta hópnum í tvennt. Annars vegar þeir sem geta fengið netaveiðileyfi og svo þeir sem ekki geta fengið þau. Þeir síðarnefndu eru settir í banndagakerfi með svipuðu sniði og verið hefur sl. tvö ár. Þó er talað um að fjölga banndögum um 30% á sama tíma og talað er um að draga 10% úr þorskafla. Mér finnst öðru máli gegna þegar um þorskfisknetaveiðar er að ræða, enda er þar þegar um stórvirkari veiðiaðferð að ræða. Veiðarfærakostnaður þeirra sem eiga allt sitt undir sjósókn allt árið hlýtur að vera meiri. Það skal bent á að grásleppuvertíð hefst undir vertíðarlok á vetrarvertíð við Vesturland, en grásleppuvertíð á Norður- og Austurlandi er samtímis vorvertíðinni. Flestir ef ekki allir þeir aðilar á Norður- og Austurlandi eiga úthald á hvort tveggja. En úthald þeirra til þorskfisknetaveiða yrði með þessu gert verðlaust og ónýtt. Þessir menn hljóta að spyrja hversu langt stjórnvöld geti gengið í að gera eigur þeirra verðlausar.

Ef hins vegar er sett aflahámark á þessa báta þá á það ekki að skipta máli hvernig þessum afla er náð, hvort heldur er með netum eða önglum. Ef aflahámark er hins vegar einungis sett á þorskfisknetaveiðar þá hljóta ákvæði 4. mgr. 5. gr. einnig að gilda um báta undir 10 brl., en þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra getur ákveðið að fiskur undir ákveðinni stærð eða fiskur sem veiðist á línu skuli ekki eða aðeins að hluta talinn með í aflamarki eða sóknarmarki fiskiskips.“

Mjög mikilvægt er og raunar skiptir öllu máli að þeir sem hafa sína aðalatvinnu af sjósókn á trillum geti þá líka lifað af því. Alþingi getur ekki sent frá sér lög þar sem það er undir hælinn lagt eða háð svokallaðri „nánari ákvörðun ráðherra“ hverju sinni hvert verður væntanlegt aflamark hverrar trillu fyrir sig. Það nær ekki nokkurri átt að einungis hjá þessum hópi sjómanna sé aflahámark miðað við óslægðan fisk, eins og fram kemur í frumdrögum að reglugerð frá 11. des. um veiðar smábáta árið 1988. Þarna verður að koma viðmiðun sem er mælanleg í landi svo menn viti um hvað er að ræða og þar á ég við þolanlega tölu af slægðum fiski. Fram að þessu hefur verið um 80 tonn að ræða og út frá þeim grunni er hægt að tala um afkomuöryggi trillukarla sem stunda sjómennsku sína af alvöru.

Setning aflahámarks báta undir 10 brl. verður að vera með skýrum hætti þannig að vilji Alþingis komi þar ljóslega fram og þar með sé tekin sú kvöð af hæstv. ráðherra að deila niður sovéskum fullvirðisrétti á hvert og eitt trilluhorn í landinu. Ég mun bíða og sjá hvaða meðferð þessi grein fær í sjútvn. Nd. og áskil mér rétt til að flytja brtt. við þessa grein ef hún verður ekki þannig að sómi verði af.